Námskeið ÍRA til amatörprófs 2021 var sett í félagsaðstöðunni í Skeljanesi mánudaginn 22. mars. Jón Björnsson, TF3PW, umsjónarmaður námskeiða ÍRA bauð viðstadda velkomna og veitti greinargóðar upplýsingar um fyrirkomulag námskeiðsins. Þeir Hörður Mar Tómasson, TF3HM (sem annaðist kennslu fyrsta námskeiðskvöldið) og Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður ÍRA voru viðstaddir. Fjórtán þátttakendur voru mættir af alls nítján sem voru skráðir.

Námskeiðið hófst í beinu framhaldi sama kvöld (22. mars) og lýkur síðan með prófi Póst- og fjarskiptastofnunar laugardaginn 15. maí. Prófnefnd setti upp og vann skipulag námskeiðsins í samvinnu við umsjónarmann. Kennt er þrjá daga í viku í Skeljanesi, þ.e. mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 18:30-21:30. Leiðbeinendur frá félaginu eru níu talsins.

Stjórn ÍRA þakkar prófnefnd, umsjónarmanni og leiðbeinendum aðkomu að þessu mikilvæga verkefni.

Stjórn ÍRA óskar þátttakendum góðs gengis.

Skeljanesi 22. mars 2021. Mynd frá setningu námskeiðs ÍRA til amatörprófs í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 25. mars n.k.

Grímuskylda er ásamt nálægðarmörkum. Aðgangur að QSL stofu á 2. hæð verður takmarkaður við 1 félaga í einu og fjarskiptaherbergi verður lokað.

Að höfðu samráði við sóttvarnaryfirvöld, verður á ný boðið upp á kaffiveitingar í sal.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Andlitsgrímur og handsótthreinsir eru í boði við inngang í sal.

CQ World Wide WPX keppnin, SSB-hluti, fer fram eftir viku. Þetta er tveggja sólarhringa keppni sem hefst á miðnætti laugardag 27. mars og lýkur á miðnætti sunnudag 28. mars. Keppnin fer fram á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Markmiðið er að hafa sambönd við kallmerki með eins mörgum mismunandi forskeytum og frekast er unnt (VK1, VK2 o.s.frv.). Munur er gerður á stigagjöf eftir böndum, þ.e. QSO á milli meginlanda (e. continents) á 28, 21 og 14 MHz gefa 3 stig en 6 stig á 7, 3.5 og 1.8 MHz. Hvert forskeyti telst til margfaldara einu sinni (burtséð frá böndum).

CQ WPX keppnirnar eru með vinsælli alþjóðlegum keppnum og frábært tækifæri til að bæta í DXCC og WPX söfnin!

Vefslóð á keppnisreglur: https://www.cqwpx.com/rules.htm

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Skráning á námskeið ÍRA til amatörprófs hefur verið opnuð á “ira hjá ira.is”.

Námskeiðið verður haldið frá 22. mars til 12. maí n.k. og lýkur með prófi Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis laugardaginn 15. maí. Kennsla fer fram mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 18:30-21:30. Staðsetning verður tilkynnt fljótlega.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Skráningu fylgir engin skuldbinding.

Fyrirspurnum má beina til Jóns Björnssonar, TF3PW, umsjónarmanns námskeiða félagsins.  Tölvupóstfang „nonni.bjorns hjá gmail.com“.

Þeir sem þegar hafa skráð sig hjá félaginu eru beðnir um að staðfesta þátttöku.

Stjórn ÍRA.

VIÐBÓTARUPPLÝSINGAR 19.3.2021:
Námskeið ÍRA til amatörprófs fer fram í félagsaðstöðunni við Skeljanes fyrst um sinn. Námskeiðið verður sett mánudaginn 22. mars kl. 18:30. Þeir sem ekki hafa náð að skrá sig fyrir þann tíma geta mætt og skráð þátttöku á staðnum.

Frá námskeiði ÍRA til amatörprófs í Háskólanum í Reykjavík. Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX stendur fyrir stafni. Ljósmynd: TF3JB.

Aðalfundur ÍRA árið 2021 var haldinn 13. mars s.l. í safnaðarheimili Neskirkju við Hagatorg í Reykjavík. Meðal gagna sem lögð voru fram á fundinum var skýrsla formanns um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.

Skýrslan var lögð fram á prentuðu formi. Hún skiptist í 12 kafla og tvo viðauka, auk formála og efnisyfirlits. Hún er alls 171 blaðsíða að stærð.

Vefslóð á Ársskýrslu ÍRA 2020/21:

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/03/20210313-arsskyrsla_ira-tf3jb.pdf

Ljósmyndir frá aðalfundinum, fundargerð og önnur aðalfundargögn verða síðan til birtingar í 2. tbl. CQ TF sem kemur út 25. apríl n.k.

Stjórn ÍRA.

.

Gögn sem lögð voru fram í aðalfundarmöppu 13. mars 2021: (1) Dagskrá fundarins; (2) Útprentun á lögum félagsins; (3) Skýrsla um starfsemi ÍRA 2020/21; (4) Ársreikningur ÍRA fyrir rekstrarárið 2020 og (5) Upplýsingablað um Íslandsmet TF3ML og TF1JI í vegalengd fjarskiptasambands á 1,2 GHz sem sett var í VHF/UHF leikunum 2020 (155 km). Ljósmynd: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 18. mars n.k.

Grímuskylda er ásamt nálægðarmörkum. Aðgangur að QSL stofu á 2. hæð verður takmarkaður við 1 félaga í einu og fjarskiptaherbergi verður áfram lokað.

Að höfðu samráði við sóttvarnaryfirvöld, verður á ný boðið upp á kaffiveitingar í sal.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Andlitsgrímur og handsótthreinsir eru í boði við inngang í sal.

Aðalfundur ÍRA árið 2021 var haldinn 13. mars í fundarsal safnaðarheimilis Neskirkju við Hagatorg í Reykjavík. Á fundinum fóru fram venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt félagslögum.

Embættismenn fundarins voru kjörnir þeir Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, fundarstjóri og Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, fundarritari. Alls sóttu 30 félagar fundinn, þar af veitti gjaldkeri viðtöku árgjalda tveggja félaga við upphaf fundar. Fundur var settur kl. 13:00 og slitið kl. 14:00.

Eftirtaldir skipa stjórn félagsins fyrir starfstímabilið 2021-2022:

Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður (endurkjörinn).
Guðmundur Sigurðsson, TF3GS (kjörinn til 2 ára).
Jón Björnsson, TF3PW (kjörinn til 2 ára).
Óskar Sverrisson, TF3DC (situr síðara tímabil).
Georg Kulp, TF3GZ (situr síðara tímabil).
Sæmundur Þorsteinsson, TF3UA varamaður (endurkjörinn).
Heimir Konráðsson, TF1EIN varamaður (endurkjörinn).

Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir þeir Haukur Konráðsson TF3HK og Yngvi Harðarson TF3Y og til vara, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS. Félagsgjald var samþykkt óbreytt fyrir 2021-2022, 6.500 krónur. Stjórn mun skipta með sér verkum fljótlega.

Fram kom m.a. á fundinum, að námskeið ÍRA til amatörleyfis hefst síðar í mánuðinum.

Skýrsla stjórnar og önnur aðalfundargögn verða til birtingar innan tíðar á heimasíðunni.

Frá aðalfundi ÍRA 2021. Hluti fundarmanna á aðalfundinum 13. mars sem haldinn var í safnaðarheimili Neskirkju. Ljósmynd: TF3JB.

Ágæt mæting var og létt yfir mönnum í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 11. mars.

Menn færðu kort í hús, en seinkuð áramótahreinsun hjá QSL stofu félagsins vegna Covid-19 faraldursins gerði það að verkum, að frestur hafði verið framlengdur til 11. mars.

Mathías Hagvaag, TF3MH, QSL stjóri félagsins, sagðist vilja árétta að kort félagsmanna væru send erlendis, jafnt og þétt allt árið. Í áramótahreinsun væri hins vegar „hreinsað út“, þ.e. öll kort væru póstlögð til landa þar sem ekki hefði náðst nægur kortafjöldi upp í lágmarksvigt.

Alls mættu 12 félagar  í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í frostléttu veðri í vesturbænum í Reykjavík.

Skeljanesi 11. mars. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Óskar Sverrisson TF3DC, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Sigmundur Karlsson TF3VE og Jón Björnsson TF3PW. Ljósmynd: Georg Kulp TF3GZ.
Alltaf er áhugi á radíódóti. Jón Björnsson TF3PW og Haukur Konráðsson TF3HK. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 11. mars.

Grímuskylda er ásamt 1m nálægðarmörkum. Aðgangur að herbergi QSL stofu á 2. hæð verður takmarkaður við 1 félaga í einu, en fjarskiptaherbergi verður lokað. Ekki verður boðið upp á veitingar. Félagsaðstaðan verður opin kl. 20-22.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

.

Andlitsgrímur og handsótthreinsir eru í boði við inngang í sal.

Mikið hefur bæst við af radíódóti undanfarna daga sem er tilvalið til heimasmíða. Myndin er úr ganginum niðri í Skeljanesi.
Mikið af vönduðum kössum með allskyns stýribúnaði sem nota má við heimasmíðar. Ljósmyndir: TF3JB.

Aðalfundur ÍRA 2021 verður haldinn laugardaginn 13. mars í safnaðarheimili Neskirkju við Hagatorg í Reykjavík.

Fundurinn hefst stundvíslega kl. 13:00.

Dagskrá er samkvæmt 19. gr. félagslaga.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB,
formaður.

(Ath. áskilið er að nota andlitsgrímur. Aðgangur verður að handsótthreinsi við inngang).