DXCC viðurkenningarskjölin fyrir TF3IRA eru komin
DXCC viðurkenningarskjölin frá ARRL fyrir TF3IRA komu í hús á fimmtudag. Um er að ræða þrjú viðurkenningarskjöl, þ.e. fyrir mors (CW), tal (Phone) og allar tegundir útgeislunar (Mixed). Hugmyndin var upphaflega að leitast við að fá skjölin til landsins í tíma fyrir 65 ára afmæli félagsins þann 14. ágúst s.l., sem náðist ekki. Mestu skiptir þó að þau eru komin í hendur félagsins (á afmælisárinu) og verða sett í innrömmun þegar í næstu viku. Í framhaldi verður þeim valin staðsetning í fjarskiptaherbergi félagsins í samráði við Benedikt Sveinsson, TF3CY, stöðvarstjóra. Búist er við, að hægt verði að sækja um fjórða skjalið fyrir stafrænar mótanir (Digital modes), s.s. RTTY, PSK-31, JT65 og fleiri, síðar á árinu. Þess má geta, að ARRL hefur staðfest að þetta eru fyrstu DXCC skjölin sem gefin hafa verið út fyrir TF3IRA.
Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Matthíasi Hagvaag, TF3-Ø35 og Guðlaugi K. Jónssyni, TF8GX, fyrir aðkomu þeirra að verkefninu, en Matthías tók saman kortin og vann umsóknir og Guðlaugur, sem er trúnaðarmaður ARRL vegna DXCC-umsókna hér á landi, annaðist yfirferð og sendingu gagna vestur um haf.
Myndin var tekin í félagsaðstöðu Í.R.A. 21. júlí s.l. þegar Matthías lagði fyrir Guðlaug, síðustu kortin vegna DXCC umsóknanna til ARRL.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!