,

EchoLink tenging TF3GW nú með tónlæsingu

Þór Þórisson TF3GW í sambandi um EchoLink. Myndin var tekin eftir erindi sem hann flutti um EchoLink samskipti í Skeljanesi þann 24. mars 2011. Með honum á myndinni eru þeir Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Stefán Arndal TF3SA. Ljósmynd: Jón Svavarsson TF3LMN.

Þór Þórsson, TF3GW, hefur nú útbúið EchoLink gátt sína á 145.325 MHz með hefðbundinni tónlæsingu, CTCSS. Tónninn sem er notaður er á 67 riðum. Stöðin er 25W og er stillt á “wideband” mótun. Breyting þessi var gerð 7. maí 2012 kl. 18:00. Fram kom í símtali við Þór í dag, að með innsetningu tónlæsingarinnar getur EchoLink gáttin unnið á daufari merkjum en áður.

Stutt EchoLink kynning/leiðbeiningar.

EchoLink er forrit sem getur tengt saman bæði tölvur og VHF/UHF FM talstöðvar yfir internetið. Tölvurnar herma eftir talstöðvum og sé tölvan tengd talstöð geta notendur tengst henni þannig á VHF eða UHF. Þannig fyrirkomulag getur verið í boði hjá einstökum leyfishöfum sem hafa aflað sér heimildar til að reka EchoLink tengingu á tiltekinni tíðni (t.d. TF3GW) eða gegnum endurvarpa (t.d. algengt erlendis). Í annan stað geta amatörar haft sambönd um EchoLink milli nettengdra tölva eins og um talstöðvar væri að ræða.

Mikilvægt er að hafa í huga, að í öllum tilvikum þarf leyfishafi að vita fyrirfram svokallað „node” númer sem er oftast 6 tölustafa runa. Númerið segir EchoLink hvert boðin eiga að berast. Loks er skilyrði að notendur séu leyfishafar, hvort heldur notuð er tölva eða talstöð.

HVAÐ ÞARF AÐ GERA?
a) Samband á tiltekinni tíðni á VHF/UHF með FM stöð.
Hér á landi rekur TF3GW EchoLink-tengingu á tíðninni 145.325 MHz. Menn velja þá tíðni. Hljóðneminn er lyklaður og í framhaldi er tiltekið „node” númer slegið inn á DTMF lyklaborð stöðvarinnar. Búnaður TF3GW sér síðan um tengingu og svarar sjálfvirkt hvort tenging hafi tekist eða ekki. Hafi tenging tekist, getur íslenskur leyfishafi einfaldlega (í næstu sendingu) kallað upp þann radíóamatör sem hann leitar eftir sambandi við. Í annan stað, er hægt að gefa almennt kall. Það kemur svo í ljós hvort tiltekið kallmerki svarar eða einhver
annar hafi verið gefið almennt kall.

b) Samband um tölvu.
Ef ætlunin er að nota EchoLink frá eigin tölvu, þarf að sækja EchoLink forritið á heimasíðuna www.echolink.org Þar er kallmerki viðkomandi skráð og tölvupóstfang. Síðan má hlaða forritinu niður og gangsetja með sérstöku skráningarnúmeri, svokölluðu „node” númeri sem yfirleitt er 6 tölustafir. Sérstaklega þarf að sækja um „node” númer hjá EchoLink.org og senda þeim afrit af leyfisbréfi því til sönnunar, að viðkomandi sé leyfishafi. Strax og „node” númerið berst, eru menn QRV á EchoLink.

TIL ATHUGUNAR.
Til skýringar skal þess getið, að ekki þarf að hafa formlegt leyfi frá EchoLink (þ.e. „node” númer) ef menn hafa einungis í hyggju að tengjast EchoLink í gegnum tengingu annars leyfishafa – sem hefur útbúið tengingu frá tölvu sinni gegnum sendistöð og býður not af búnaði sínum – þar sem viðkomandi er ábyrgur fyrir tengingunni gagnvart Póst- og fjarskiptastofnun og EchoLink. Ófrávíkjanleg krafa er þó ætíð að um sé að ræða leyfishafa og að menn sýni af sér góða háttsemi.

Þess ber að gera að sambönd um EchoLink eru aðeins í boði á tali. Þjónusta EchoLink er án tilkostnaðar fyrir radíóamatöra. Ekki til siðs að menn skiptist á QSL kortum eftir að hafa talað saman um EchoLink. Að lokum má geta þess, að EchoLink stöðvar senda út auðkenni með reglulegu millibili til að fullnægja tilkynningaskyldu. Oftast er notað auðkenni á morsi en líka þekkist að notaðar séu gerviraddir (þ.e. talgerflar). Aftan við kallmerki EchoLink stöðvarinnar, er ýmist skeytt stafnum „L” eða „R”. L stendur fyrir „link” (líkt og hjá TF3GW) og R stendur fyrir „repeater” (endurvarpsstöð).

AÐ LOKUM.
Þór Þórisson, TF3GW, er reiðubúinn til að aðstoða þá félagsmenn sem lenda í vandræðum með að tengjast EchoLink eða hafa spurningar sem ekki eru svör við hér að ofan. Tölvupóstfang hans er: tf3gw(hjá)simnet.is.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

5 + 18 =