EMC á fimmtudagskvöld í ÍRA
Friðrik Alexandersson var með mjög áhugaverða og lærdómsríka umfjöllun um EMC, flökkustrauma og jarðbindingu í Skeljanesi á fimmtudagskvöld. Takk fyrir okkur Friðrik.
Friðrik sýndi okkur hvers vegna betra væri að vera með fimm víra veitukerfi, þrír fasar, núll og jörð í stað fjögurra eins og víðast er á Íslandi eða með öðrum orðum að vera með sérstakan jarðleiðara. Hann sagði okkur frá því að í helstu löndum yfir í Evrópu væru kerfin fimm víra en á Íslandi er fimm víra kerfi einungis í tveimur hverfum, Garðahverfi og einu hverfi á Akureyri. Friðrik sagði okkur frá því að steinsteypa væri góður leiðari sem kom flestum ef ekki öllum áheyrendum á óvart og sagði að ein besta aðferð við að búa til gott jarðskaut í steinsteypubyggingum væri að bora eða brjóta sig inn að járnagrind og tengja við grindina. Næstum tilgangslaust væri að tengja við ofn eða kaldavatnslagnir vegna einangrunar frá jörð og nýju plaströranna. Í timburhúsum og þar sem ekki er hægt að komast í járnagrindina væri ekkert annað ráð en að búa til utandyra jarðskaut með því að reka allt að þriggja metra langan tein niður í jarðveginn, einn eða fleiri. Því fleiri sem jarðteinarnir eru þeim mun betri jörð. Mikilvægt væri einning að nota vel sveran koparvír til að tengja jörðina við húskerfið og uppí/inní sjakkinn.
í umræðum í lokin kom upp tillaga um að heimsækja sem flesta amatöra og skoða og mæla jörðina hjá þeim en heldur dró úr mönnum þegar Friðrik benti á að til að fá viðmiðun yrði annar púnkturinn í mælingunni helst að vera vel utan við stór-Reykjavíkursvæðið….
Hvernig er annars jörðin hjá þér?
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!