TF3OM: 55 ÁR LÍÐA FLJÓTT SEM RADÍÓAMATÖR
Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 21. mars og flutti erindið „Radíóamatör í meira en 50 ár, reynslusögur úr áhugamálinu frá barnsaldri…“.
Ágústi tókst mjög vel upp og sagði skemmtilega frá áhugamálinu sem hófst þegar á unga aldri. Hann lýsir fyrstu kynnum sínum eftirfarandi: „Fyrstu minningarnar frá því er ég sá rafmagn í fyrsta skipti eru þegar ég skreið að veggtengli í borðstofunni sem tengdur var við brauðrist. Ég var með stóran gosflöskuupptakara í hendi og setti hann milli pinnanna sem glitti í. Bang! Svakalegur bláhvítur blossi, enda öryggið 16 amper eða kannski rúmlega það, því á þessum tíma voru sprungin öryggi lagfærð heima. Flestir kunnu það. Sjálfsagt hef ég rekið upp öskur, en þetta vakti áhuga minn á rafmagni sem lét mig ekki í friði næstu áratugina. Síðan er skarð í upptakaranum þar sem hann komst í námunda við rafmagnið!“.
Hann fékk leyfisbréfið 8. ágúst 1964 og fékk þar með morsleyfi, talleyfi og smíðaleyfi frá Póst- og símamálastofnun, undirritað af Jóni Skúlasyni Póst- og símamálastjóra. Upp frá því varð hann virkur í ÍRA, tók m.a. þátt í refaveiðum, gerðist ritstjóri CQ TF og fleira.
Fyrsta QSO‘ið var við TF3KB á morsi á 40 metrum þann 11.8.1964 kl. 19:45, en Ágúst sýndi mynd úr upphaflegu fjarskiptadagbókinni frá þeim tíma (sem hann á allar enn). Síðan fylgdu sambönd m.a. við TF5TP, TF3CJ, TF3DX, TF3IC og fleiri íslenska leyfishafa og að sjálfsögðu DX-sambönd.
Ágúst keypti notaða Heathkit HW-32A stöð þegar hann flutti til Svíþjóðar til náms 1969-1971 og var þá frjáls með að tala til Íslands eftir því sem skilyrði leyfðu.
Margir taka sér hlé frá áhugamálinu og hann er einn þeirra. Ágúst sagði, að þegar vinnan væri á svipuðum nótum og áhugamálið … þá gengi það aldrei til lengdar. Hann tók aftur til til við amatör radíó fyrir 2 árum (2017) og segist afar ánægður með það í dag.
Mikil ánægja var með erindi Ágústs. Að sögn eins viðstaddra „…hefði mátt heyra saumnál detta …“ slíkur var áhugi og athygli fundarmanna. Um kl. 22:30 var Ágústi þakkað með veglegu lófaklappi fyrir vel undirbúið og vel flutt erindi. Líflegar umræður héldu þó áfram og fram yfir kl. 23. Mæting var góð í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld, alls 25 félagar og 1 gestur. Bestu þakkir til Ágústs H. Bjarnasonar, TF3OM.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!