Félagið Íslenskir radíóamatörar, ÍRA var stofnað í Reykjavík 14. ágúst 1946. 75 ár voru liðin frá stofnun þess í fyrra (2021). Vegna Covid-19 faraldursins var veisluhöldum frestað þar til sunnudaginn 28. ágúst.
Þann dag var opið hús í Skeljanesi og var félagsmönnum og fjölskyldum þeirra boðið að líta við og þiggja heitt súkkulaði, kaffi og gosdrykki, íslenskar pönnukökur og vöfflur með þeyttum rjóma og marsípan-rjómatertu, auk fleira góðgætis.
Alls mættu 57 félagsmenn og gestir þennan ágæta sunnudag í hæglætisveðri í vesturbænum í Reykjavík. Að auki barst mikill fjöldi af kveðjum frá félagsmönnum sem annaðhvort voru staddir erlendis eða í sumarfríi innanlands, auk samstarfsaðila.
Þakkir til allra, og sérstaklega til stjórnarmanna ÍRA sem önnuðust allan undirbúning og framreiðslu þjóðlegra veitinga, þeir Jón Björnsson TF3PW, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Georg Magnússon TF2LL og Jón Svavarsson, TF3JON sem lagaði heitt súkkulaði, einstakt að gæðum. Síðast en ekki síst, þakkir til þeirra TF3JON, TF3KB, TF3KX og TF3PW fyrir ljósmyndir.
Nánar verður fjallað um viðburðinn í næsta hefti félagsblaðsins CQ TF, sem kemur út 2. október.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!