Sigurður Harðarson, TF3WS heimsótti okkur í Skeljanes 16. mars með erindið: „Kynning á íslenskri framleiðslu útvarpsviðtækja“. Með Sigurði kom Guðmundur Sigurðsson, sem safnar og hefur gert upp mikið magn af eldri útvarpsviðtækjum.
Sigurður rakti vel og útskýrði framleiðslu viðtækjanna Suðra, Vestra, Austra, Sumra og Sindra hjá Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins, sem starfaði frá 1933-1949, þegar erfitt var um innflutning á vörum vegna kreppunnar og seinni heimsstyrjaldarinnar. Að jafnaði unnu 3–5 menn að þessari smíði. Þegar Viðtækjasmiðjan hætti störfum var búið að framleiða nálægt 2000 viðtækjum eftir því sem næst verður komist.
Sigurður hefur sett sig vel inn í starfsemi Viðtækjasmiðjunnar og hvernig framleiðslan þróaðist. Lifandi frásögn hans var afar áhugaverð og fróðleg. Hann kryddaði erindi sitt með mörgum skemmtilegum sögum sem tengdust framleiðslunni og notkun tækjanna hjá almenningi um allt land, þegar viðtækin kostuðu sem nam þriggja mánaða verkamannalaunum.
Þeir Sigurður og Guðmundur mættu með sýnishorn af íslensku viðtækjunum sem félagsmenn fengu að skoða eftir erindið og þeir félagar leystu vel og greiðlega úr fjölda spurninga.
Sigurður færði ÍRA eintak af vönduðum 20 blaðsíðna bæklingi sem hann hefur sett saman um íslensku úrvarpstækin og sem mun liggja frammi í félagsaðstöðu félagsins á fimmtudagskvöldum.
Sérstakar þakkir til Sigurðar og Guðmundar fyrir frábært fimmtudagskvöld. Þeir félagar fylltu húsið því alls mættu 43 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!