,

Fréttir frá aðalfundi Í.R.A. 2013

Kristinn Andersen TF3KX var fundarstjóri á aðalfundi Í.R.A. 2013 á Radisson Blu Hótel Sögu í Reykjavík.

Aðalfundur Í.R.A. 2013 var haldinn þann 18. maí í Snæfelli, fundarsal Radisson Blu Hótel Sögu í Reykjavík. Á fundinum fóru fram venjuleg aðalfundarstörf; kosin ný stjórn, samþykktar lagabreytingar ásamt umræðum undir liðnum önnur mál. Embættismenn fundarins voru kjörnir þeir Kristinn Andersen, TF3KX fundarstjóri og Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ, fundarritari. Alls sóttu 19 félagsmenn fundinn úr kallsvæðum TF1, TF2, TF3 og TF8 samkvæmt skráningu í viðverubók. Fundurinn var settur kl. 13:10 og slitið kl. 16:20.

Eftirtaldir skipa nýja stjórn félagsins fyrir starfstímabilið 2013-2014: Guðmundur Sveinsson, TF3SG, formaður; Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY og Benedikt Sveinsson, TF3CY (kjörnir til tveggja ára), Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB (kjörinn stjórnarmaður til eins árs í stað Sæmundar E. Þorsteinssonar, TF3UA sem óskaði lausnar sitt síðara ár af kjörtímabilinu) og Andrés Þórarinsson, TF3AM, sem nú situr sitt síðara ár.

Varamenn voru kjörnir þeir Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN og Georg Magnússon, TF2LL. Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir þeir Óskar Sverrisson, TF3DC og Haukur Konráðsson, TF3HK; og til vara, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS. Félagsgjald var samþykkt 6500 krónur fyrir starfsárið 2013-2014. Stjórnin mun skipta með sér verkum fljótlega.

Fráfarandi formaður, Jónas Bjarnason, TF3JB, lýsti kjöri heiðursfélaga sem samþykkt var á síðasta fundi fráfarandi stjórnar, þann 12. maí s.l. Nýir heiðursfélagar eru þeir Kristján Benediktsson, TF3KB og Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX.Fundarmenn klöppuðu þeim til heiðurs.

Skýrsla stjórnar og reikningur félagssjóðs munu fljótlega verða til birtingar hér á heimasíðunni ásamt fundargerð og upplýsingum um lagabreytingar og aðrar samþykktir.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

one × five =