Fréttir úr Skeljanesi
Góð mæting var í Skeljanes fimmtudagskvöldið 6. september, eða á þriðja tug félagsmanna. Rjómasúkkulaðiterta, sérbökuð vínarbrauð og súkkulaðibollur voru í boði með rjúkandi BKI kaffinu, en tilefnið var 66 ára afmæli félagsins. Það voru velunnarar félagsins sem komu færandi hendi og er þeim þakkað fyrir veitingarnar.
(1) Þegar unnið var við stillingu á SteppIR 3E Yagi loftneti félagsins í síðasta mánuði kom í ljós, að aflestur (e. display) LP-100 Digital Vector RF afl-/standbylgjumælis félagsins (frá N8LP), var orðinn skertur. Á heimasíðu N8LP má lesa, að þessar bilanir eru þekktar. Nokkru síðar kom í ljós, að Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS, átti samskonar mæli og hafði í nokkurn tíma ætlað að panta nýtt „display” fyrir sig sjálfan. Þegar hann frétti af bilun í mæli félagsins, bauðst hann til að panta nýtt „display” fyrir félagið um leið og hann pantaði fyrir sjálfan sig og að gera við mælinn. Var því kostaboði tekið með þökkum og í gær (6. september) kom Vilhjálmur með mælinn viðgerðan og setti upp á ný í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Kostnaður félagssjóðs vegna varahlutanna nemur um 13 þúsund krónum. Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi Ívari fyrir frábæra aðstoð.
(2) Worked All States, WAS, viðurkenningaskjöl TF3IRA, sem komu úr innrömmun í vikunni, voru fest á vegg í fjarskiptaherbergi félagsins í Skeljanesi gærkvöldi. Líkt og áður hefur komið fram, var undirbúningur umsókna í höndum þeirra Mathíasar Hagvaag, TF3-Ø33 og frágangur í höndum Guðlaugs Kristins Jónssonar, TF8GX, sem er trúnaðarmaður ARRL hér á landi. Þess má geta, að allt verkefnið er án kostnaðar fyrir félagssjóð, þar sem ARRL felldi niður öll gjöld og innrömmunin var færð félaginu að gjöf af áhugasömum félagsmanni.
(3) Þeir Guðjón Helgi Egilsson, TF3WO og Benedikt Guðnason, TF3TNT, tóku niður í gærkvöldi (6. september) fellitvípól (e. “folded dipole”) þann sem settur var upp fyrir TF3IRA í tilraunaskyni á 7 MHz í síðasta mánuði. Hugmyndin er að setja hann upp á ný fyrir veturinn á betri stað og hærra yfir jörðu.
(4) Þátttaka í alþjóðlegum keppnum frá TF3W. Bendikt Guðnason, TF3TNT, stöðvarstjóri, hefur samþykkt þátttöku frá félagsstöðinni undir forystu Stefáns Arndal, TF3SA, í morshluta Scandinavian Activity Contest, SAC keppninnar sem haldin verður um þarnæstu helgi, 15.-16. september. Þá hefur stöðvarstjóri einnig samþykkt þátttöku frá félagsstöðinni undir forystu Jóns Ágústs Erlingssonar, TF3ZA, í talhluta CQ World-Wide keppninnar sem haldin verður helgina 27.-28. október n.k.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!