- Góður gestur í Skeljanesi.
- J-póll, loftnet félagsins fyrir VHF/UHF, sett upp á ný.
- Kenwood TS-2000 stöð TF3IRA komin úr viðgerð.
- Stór sending af QSL kortum.
- Uppsetning á 1/4-bylgju færanlegu stangarloftneti á 3,7 MHz við Skeljanes.
Á góðri stundu í Skeljanesi. Ingus Selevskis YL2TW (YL9T) og Ársæll Óskarsson TF3AO. Ingus kom í heimsókn í félagsaðstöðuna þann 25. október. Hann var mjög hrifinn af aðstöðunni og sérstaklega að félagarnir hafi tækifæri til að hittast vikulega í eigin aðstöðu (sem ekki er í boði þar sem hann býr í Lettlandi). Hann mun dvelja hér á landi í tæpar tvær vikur.
Benedikt Guðnason TF3TNT stöðvarstjóri TF3IRA, festir upp á ný J-pól loftnet fyrir VHF/UHF böndin
þann 25. október. Loftnetið er afar vandað og var smíðað af Vilhjálmi Ívari Sigurjónssyni, TF3VS, og
gefið félaginu. Það er smíðað úr koparrörum og var orðið verulega tært þegar Benedikt kom höndum yfir
það og þreif upp og pússaði. Síðan var netið úðað með sérstakri málningu sem mun verja koparinn fyrir
söltum sjávarúða Atlantshafsins í hvassviðrum vetrarins.
Kenwood TS-2000 stöð félagsins bilaði nýlega þannig að hún hætti að senda út. Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI tók að sér að gera við hana og með aðstoð Róberts Harrys Jónssonar TF8TTY sem útvegaði hálfleiðara til viðgerðarinnar, komst hún í lag. Ari kom með TS-2000 stöðina í hús í Skeljanesi þann 25. október og fór fram viðamikil prófun á staðnum sem stöðin stóðst með prýði. Stjórn Í.R.A. þakkar þeim TF3ARI og TF8TTY sérstaklega fyrir verðmæta aðstoð þeirra félaga við að koma stöðinni í lag á ný. Myndin var tekin þegar Ari prófaði stöðina í gervihnattaviðskiptum frá TF3IRA. Frá vinstri: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Mathias Hagvaag TF3-Ø35, Claudio Corcione TF2CL, Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI og Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS.
Bjarni Sverrisson TF3GB, QSL stjóri innkominna korta og QSL stjóri fyrir kallmerki félagsstöðvarinnar, kom færandi hendi í Skeljanes þann 25. október. Um var að ræða bunka innkominna QSL korta til félagsmanna sem hann síðan flokkaði niður og raðaði í hólf þeirra í QSL skápnum í aðstöðu QSL stofu félagsins á 2. hæð. Með Bjarna á myndinni eru þeir Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB og Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS, sem aðstoðuðu hann við flokkunina.
Fimmtudagskvöldið 25. október var einnig mikið að gerast utanhúss. Þá var gengið frá uppsetningu á 1/4-bylgju færanlegu stangarloftneti TF3SG fyrir 80 metra bandið, sem hann lánar félaginu til notkunar í CQ World-Wide keppninni á SSB sem haldin verður nú um helgina 27.-28. október. Þeir sem komu að uppsetningunni voru Jón Ágúst Erlingsson TF3ZA, Benedikt Sveinsson TF3CY, Erling Guðnason TF3EE og Guðmundur Sveinsson TF3SG.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!