,

FRÓÐLEG ERINDI Í SKELJANESI 30. MAÍ

Einar Kjartansson TF3EK.

TF útileikar: Einar Kjartansson, TF3EK, kynnti Útileikana.
Einar Kjartansson, TF3EK, fékk leyfið 2006. Hann var kosinn í stjórn ÍRA 2015 og varð gjaldkeri og starfaði fram að aðalfundi 2019. Þá voru Útileikarnir í nokkurri lægð og Einari var treyst fyrir að veita þeim forstöðu. Ýmsar reglur voru þá í gangi sem gerðu þátttökuna ekki einfalda, t.d. kallsvæði „Ø“ sem og útreikningur á margföldurum – og bæði þessi atriði ollu deilum. Eiginlega gaf best að taka bara þátt frá sinni heimastöð og sleppa því að vera á ferð. 

Einar stokkaði þetta talsvert upp 2017 og aftur 2023 þegar gerðar voru mikilvægar breytingar, m.a. að fjarlægja takmörkun við 3 sambönd milli stöðva og tímabilið var stytt úr 3 sólarhringjum í 2 sólarhringa.

Þátttaka í Útileikunum hefur farið vaxandi og fjöldi sambanda aukist, bæði vegna meiri viðveru og eins hins að nú er almennari þátttaka á öllum böndum en áður voru 80m aðallega notaðir.  Einar kynnti að þessu sinni komandi Útileika sem verða um Verslunarmannahelgina 3.-5. ágúst n.k. en þeir eru 10. útileikarnir sem Einar veitir forstöðu.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.

U/VHF leikar: Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, kynnti U/VHF leikana.
Hrafnkell, TF8KY, fékk leyfi 2015 og var kosinn í stjórn ÍRA og varð ritari. U/VHF leikarnir voru þá til sem TF3GL hafði komið á koppinn 2012. Hrafnkell sem var nýr sá tilkynningu um U/VHF leikana 2015 og kallaði á VHF og einn svaraði, Óðinn, TF2MSN. Svo reyndi hann á UHF og einn svaraði, Óðinn, TF2MSN. Ekkert meir. Sama gerðist á leikunum 2016. Stjórn ÍRA ræddi um að leggja leikana niður en svo fór að Hrafnkell tók þá að sér.

Hann hafði tvennt í huga: Fá upp eitthvert gagnvirkt kerfi, og svo ætlaði hann sér ekki að fá alla loggana til að fara yfir – samböndin yrðu einfaldlega tekin góð og gild. Ölvir, TF3WZ fékk lénið og Hrafnkell skrifaði fyrstu útgáfu leikjavefkerfisins sem keyrt var á fartölvu úti í bílskúr hjá honum. 

Upphaflega var staðsetning stöðva gefin upp sem hnit í lengd og breidd en svo tóku „Maidenhead“ reitirnir yfir. Stigagjöfin var upphaflega óbreytt, t.d. var til stigagjafar notuð vegalengd í öðru veldi sem var auðvitað afar hagstætt þeim sem voru á ferðinni.

Fyrsta árið, 2017, gekk frábærlega, nýi gagnvirki vefurinn var afar vel lukkaður og Óli, TF3ML hreifst og sótti turninn sinn og fór á flakk og fékk aðra með sér – og þetta var virkilega flott og allir voru kátir á eftir. Óðinn og Óli ræddu um að gera þetta sem fyrst aftur og hví ekki um páskana næstu.  Þannig fæddust páskaleikarnir sem Hrafnkell tók einnig að sér.

Hrafnkell hefur því annast þessa leika alla tíð, fyrst 2017 og tvenna leika á ári eftir það eða 15 leika alls eftir þetta sumar. Stigareikningur hefur aðeins breyst í gegnum tíðina sem og viðmótið á vefnum og allt hefur það gert leiknum til góða. Þátttakan hefur farið vaxandi og fjöldi sambanda aukist.  Hrafnkell kynnti komandi U/VHF leika sem verða helgina 5.-7. júlí nk.

Sérstakar þakkir til þeirra Einars Kjartanssonar, TF3EK og Hrafnkels Sigurðssonar, TF8KY fyrir vönduð og fróðleg erindi. Einnig þakkir til Njáls H. Hilmarssonar, TF3NH fyrir að taka erindin upp.

Alls mættu 29 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

F.h. stjórnar,

Andrés Þórarinsson, TF1AM
varaformaður ÍRA

.

Mathias Hagvaag TF3MH, Njáll H. Hilmarsson TF3NH og Andrés Þórarinsson TF1AM.
Kjartan Birgisson TF1ET og Georg Kulp TF3GZ.
Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK og Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN.
Heimir Konráðsson TF1EIN, Sigmundur Karlsson TF3VE og Gísli Guðnason TF6MK.
Eiður Kristinn Magnússon TF1EM og Sigmundur Karlsson TF3VE. Fjær: Georg Kulp TF3GZ, Benedikt Sveinsson TF3T og Alex M. Senchurov, TF/UT4EK.
Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Ríkharður sem var að kynna sér starfsemi ÍRA. Hann hefur hug á að sækja námskeið félagsins til amatörprófs sem hefst í september n.k. Ljósmyndir: TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

two × four =