ÁHUGAVERT ERINDI TF3AU Í SKELJANESI
Ágúst Úlfar Sigurðsson, TF3AU mætti í Skeljanes fimmtudaginn 15. febrúar með með erindið: “Collins Radio R-390A/URR; besta viðtæki allra tíma?“ Umfjöllun tók mið af Collins R-390A/URR og R-391/URR og viðtækjunum sem hann færði ÍRA að gjöf síðastliðið haust.
Fram kom, að R-390 viðtækið var hannað og upphaflega framleitt fyrir Bandaríkjaher (US Army Signal Corps) af Collins Radio Company. R-390A kom nokkrum árum síðar. Alls voru framleidd um 55 þúsund tæki frá 1951 til 1970 af Collins og fleiri verksmiðjum vestanhafs. Ágúst sagði, að verð á fyrstu eintökunum, framreiknað til verðlags í dag hafi verið um 4,5 milljónir króna. Hann telur, að trúlega séu enn í notkun eintök af viðtækinu vegna þess hve vel tækið þolir rafsegulpúlsa (kjarnorkusprengjur).
R-390A nær yfir tíðnisviðið frá 500 kHz til 32 MHz. Samfelld tíðnistilling er innan hvers heils megariðs (e. mechanical tracking) og er viðtökutíðnin sýnd með tölustöfum. Viðtaka er á AM, CW og SSB með veljanlega bandbreidd. Tækið er ætlað til innsetningar í 19“ rekka, er auðvelt í viðhaldi þar sem einingar eru útskiptanlegar. Fjöldi lampa er 23, tækið er 39 kg að þyngd og aflþörf er um 200W.
Ágúst sagði, að R-391/URR tækið hafi komist í hans eigu eftir að Marteinn Sverrisson, TF3MA dó árið 2008 en hann hafi átt R-390A/URR ca. frá árinu 1970. Faðir Matta hafi upphaflega tækin í Sölunefnd Varnarliðseigna og Matta hafi tekist vel upp við að hreinsa og stilla. Í framhaldi notaði hann 390A viðtækið um árabil til fjarskipta á amatörböndunum.
Samhliða því að Ágúst flutt erindið svaraði hann fjölmörgum fyrirspurnum enda margir viðstaddir áhugasamir um tækin. Fram kom m.a. að þessi tæki seljast á eBay í dag á allt að 1300 dollara. Sérstakar þakkir til Ágústs fyrir afar fróðlegt, áhugavert og vel flutt erindi sem veitti góða innsýn inn í sérhæfðan heim Collins viðtækja.
Erlendir gestir félagsins voru þeir Alex Senchurov, UT4EK; Sergii Matlash, US5LB og Henning Andresen, OZ2I. Alls mættu 28 félagsmenn og 3 gestir í Skeljanes þetta vel heppnaða fimmtudagskvöld í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!