,

FRÓÐLEGT ERINDI TF3KB Í SKELJANESI.

Andrés Þórarinsson TF1AM varaformaður ÍRA kynnti fyrirlesara kvöldsins, Kristján Benediktsson TF3KB. Ljósmynd: TF3GZ.

Opið var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 6. febrúar. Kristján Benediktsson, TF3KB mætti með erindi kvöldsins, um „Alþjóðastarf radíóamatöra, m.a. IARU, NRAU og ITU“. Þetta var fyrsta erindið á nýrri vordagskrá ÍRA fyrir tímabilið febrúar-maí 2025.

Kristján sagði í upphafi að ekki gerðu sér allir grein fyrir því hversu mikið árangur radíóamatöra í tíðnimálum byggir á þeim grunngildum sem framsýnir forystumenn þeirra mótuðu í upphafi. Fram kom m.a. að tíðnisvið [til ráðstöfunar] er takmarkað og það eru margir um hituna. Skipulag amatörfélaganna og landssamtaka þeirra sem og mikil vinna í alþjóðaráðum, hefur skilað þeim árangri í gegnum áratugina þannig að síður hefur verið þrengt að radíóamatörum, heldur hafa tíðniheimildir jafnvel rýmkast.

Kristján sagði, að árangri hafi verið náð fyrir ötult starf innan alþjóðasamtaka radíóamatörfélaga, IARU sem og í starfi landsfélaganna þar sem málin eru rædd vandlega, sameinast um tillögur og talað fyrir breytingum hjá fjarskiptayfirvöldum hvers lands, og þannig undirbúin frumvörp sem náðst hafa í gegn á alþjóðlegum tíðniákvörðunarráðstefnum ITU, “World Radio Conferences, WRC“ sem eru skuldbindandi fyrir aðildarríkin (e. plenipotentiary).

Einungis fyrir faglegt og vandað undirbúningsstarf hafa fjarskiptayfirvöld samþykkt margar tillögur radíóamatöra og fært inn í alþjóðareglugerðir. Hér á landi er það Fjarskiptastofa sem er stjórnvald fjarskipta og er tengiliður okkar við stofnunina formaður ÍRA, Jónas Bjarnason TF3JB, sem hefur unnið vel að þessum málum í mörg ár. Radíóamatörar eiga IARU sem og landsfélögunum mikið að þakka. Gerður var góður rómur að erindi Kristjáns sem svaraði mörgum fyrirspurnum.

Sérstakar þakkir til Kristjáns Benediktssonar, TF3KB fyrir vel flutt erindi, fróðlegt og áhugavert. Þess má geta að erindið var tekið upp og verður til niðurhals fljótlega. Sjá má glærur frá erindi Kristjáns á heimasíðu ÍRA: https://www.ira.is/erindi-tf3kb-i-skeljanesi-6-februar-2025/

Alls mættu 19 félagar þetta ágæta fimmtudagskvöld í stilltu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

(Texti: Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA).

Kristján var með margar áhugaverðar glærur. Á myndinni fjallaði hann um ráðstefnu IARU Svæðis-1 sem haldin var í Serbíu 2023. Ljósmynd: TF3VS.
Áhugaverður árangur á tíðniákvörðunarráðstefnum ITU (WRC) dreginn saman og sýndur fyrir tímabilið 1979-2023. Ljósmynd: TF3GZ .
Mynd úr sal. Eiður K. Magnússon TF1EM, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Mathías Hagvaag TF3MH, Erling Guðnason TF3E og Einar Sandoz TF3ES. Ljósmynd: TF3VS.  
Eftir erindið var áfram rætt um málefni kvöldsins yfir kaffinu. Kristján Benediktsson TF3KB, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS ræða alþjóðamálin. Ljósmynd: TF1AM.
Við stóra fundarborðið. Mathías Hagvaag TF3MH, Guðjón Már Gíslason TF3GMG, Einar Sandoz TF3ES og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID. Ljósmynd: TF1AM.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

seventeen − eight =