,

Garðskagaviti verður heimsóttur 21.-22. ágúst n.k.

Ársæll Óskarsson, TF3AO, flutti erindi um “Vita- og vitaskipahelgar”. Ljósmynd: TF3LMN.

Félagsfundurinn um Vita- og vitaskipahelgina var haldinn fimmtudagskvöldið (29. júlí). Mæting var ágæt og komu alls 22 félagsmenn. Jónas Bjarnason, TF2JB, setti fundinn kl. 20:30 og kynnti framlagða dagskrá. Ársæll Óskarsson, TF3AO, flutti erindi um viðburðinn „Vita- og vitaskipahelgi”. Erindið var fróðlegt, skemmtilegt og vel flutt. Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN, var næstur og flutti erindi um „praktískar” leiðir til að viðburður af þessu tagi megi takast sem best. Erindið var hnitmiðað og fróðlegt. Erling Guðnason, TF3EE, stýrði síðan umræðum um val á staðsetningu viðburðarins í ár. Umræðan varð strax mjög fylgjandi Garðskagavita, enda erfitt í raun að tala á móti honum, þ.e. hæsti viti á Íslandi, færri kílómetrar að aka frá Reykjavík (en austur), auk frábærrar aðstöðu sem þar er í boði. Í umræðum kom m.a. fram, að menn voru sammála að leggja til að notað verði kallmerkið TF8IRA. Einnig kom fram, að menn hefðu tilfinningar til Knarraróssvita (eftir að hafa farið þangað, jafnvel svo árum skiptir). Í lok umræðna var samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að Garðskagaviti verði heimsóttur helgina 21.-22. ágúst n.k.

Þriggja manna framkvæmdanefnd var kjörin á fundinum til að annast undirbúning Vita- og vitaskipahelgarinnar. Hana skipa: Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN, formaður; Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM; og Jón Þ. Jónsson, TF3JA.

Frá vinstri: XYL DL9DAN, DJ2VO, DO4YSN, TF2JB, DL9DAN, DF6QV og TF8GX. Ljósmynd: TF3LMN.

Hópur þýskra radíóamatöra sem verið hefur hér á landi undanfarnar tvær vikur og verið í loftinu frá Vestmannaeyjum kom í heimsókn í félagsaðstöðuna á fimmtudagskvöldið. Þau voru afar ánægð með ferðina og nefndu sérstaklega hversu þakklát þau væru fyrir aðstoð og hjálpsemi íslenskra radíóamatöra. Þá voru þau einnig yfir sig heilluð af einstakri náttúru Íslands.

TF2JB

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

9 − 1 =