Góður árangur TF3W í RDXC keppninni 2011
Alls náðust 1,783 QSO frá TF3W í Russian DX Contest 2011 (RDXC) keppninni sem lauk kl. 11:59 í dag, 20. mars. Samkvæmt þessari niðurstöðu er áætlaður heildarárangur um 3 milljónir punkta. Að sögn Sigurðar R. Jakobssonar, TF3CW sem skipulagði keppnina er þessi niðurstaða mjög ásættanleg miðað við skilyrðin og í annan stað, að um var að ræða æfingar- og kynningarkeppni fyrir félagsmenn sem vildu kynnast þátttöku í alþjóðlegum keppnum. Sigurður gat þess einnig, að þrátt fyrir allt, hafi heildarárangurinn sem stefnt var að, þ.e. 2,000 QSO, verið í sjónmáli. Þátttaka var bæði á CW og SSB.
Flest sambönd voru höfð á 20 metrunum í gær (laugardag) en í morgun (sunnudag) þegar opnaðist á 15 metrunum, komu þeir vel inn. Tæplega 200 QSO náðust á 80 metrunum, sem er góður árangur miðað við skilyrðin, en mjög gott loftnet var til ráðstöfunar í keppninni (lánað af TF3SG).
Þátttakendur voru: Benedikt Sveinsson, TF3CY; Guðmundur Sveinsson, TF3SG; Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA; Óskar Sverrisson, TF3DC; Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN; Stefán Arndal, TF3SA; Sveinn Guðmundsson, TF3T; og Yngvi Harðarson, TF3Y. Margir félagsmenn lögðu leið sína í Skeljanesið og fylgdust með “okkar mönnum” í keppninni um helgina.
Stjórn Í.R.A. óskar hlutaðeigandi til hamingju með árangurinn.
TF2JB
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!