Radíóamatörar; samskipti.

Samskiptasiðir radíóamatöra eftir Paul M. Segal, W9EEA.

  • Radíóamatör tekur tillit annarra og starfar aldrei vísvitandi á þann hátt að það skemmi fyrir öðrum.
  • Hann er dyggur, hvetur og styður aðra radíóáhugamenn, IARU-tengd félög og aðra klúbba radíóamatöra í eigin landi og um víða veröld.
  • Hann er framsækinn og heldur stöð sinni í góðu lagi. Stöðin hans er vel byggð og virkar vel. Hann starfrækir stöð sína á óaðfinnanlegan hátt.
  • Hann er vinalegur í viðmóti þolinmóður og talar eða sendir rólega ef hann er beðinn um það, hann veitir byrjendum vinalega ráðgjöf, góða aðstoð, býður samvinnu og er tillitssamur gagnvart hagsmunum annarra. Þetta eru aðal framkomuviðmið áhugamálsins.
  • Hann er stefnufastur, að vera radíóamatör er áhugamál sem aldrei truflar skyldur radíóamatörsins, við fjölskyldu, vinnu, skóla eða samfélagið.
  • Hann er þjóðrækinn, radíóamatörinn er alltaf tilbúinn til að nýta stöð sína og færni í þágu síns lands og samfélagsins.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX á góðri stundu í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Honum á vistri hönd er Sigurbjörn Þór Bjanason, TF3SB. Ljósmynd: Jónas Bjarnason, TF3JB.

Grunngildi amatörhreyfingarinnar  er fyrirlestur sem TF3DX flutti í Skeljanesi 4. september 2014.

Amatörradíó er fyrst og fremst áhugamál, bæði hér á landi sem annarsstaðar. Sumir vilja þó halda því fram að amatörradíó sé lífsstíll eða ódrepandi bakteria og geta flestir radíóamatörar tekið undir það.

Margir halda að amatörradíó gangi einungis út á að hafa samband við Jóa í Ástralíu eða Sigga á Hornafirði. Þó að það sé einn hluti áhugamálsins þá fer því fjarri að það sé það eina sem radíóamatörar gera.

Frá upphafi og þó sérstaklega fyrr á árum þá smíðuðu radíóamatörar flest sinna tækja sjálfir og er þá átt við senda, móttakara, loftnet og önnur þau tæki sem til þurfti til að komast í loftið. Og þó að smíðar á stærri tækjum hafi minnkað á seinni árum þá eru menn ennþá að. Það er ákveðið sport að smíða sendi sem passar inn í eldspýtustokk með sendiafli u.þ.b. ½ watt og sjá síðan hvað hann dregur langt. Á slíkan sendi hefur verið haft samband frá Íslandi til Nýja Sjálands sem er u.þ.b. 17.000 km. vegalengd. Einnig er nokkuð um að menn kaupi sér íhlutasett og setji síða saman sjálfir. Þar má m.a. telja senda, móttakara, morselykla og fleira.

Smíði eigin loftneta hefur alltaf verið stór hluti af áhugamálinu.

Margir hafa áhuga fyrir því að hafa samband við sem flest lönd og því sjaldgæfari því betra. Veit t.d. einhver hvar Bouvet-eyja, sem hefur forskeytið 3Y, er og hver ræður yfir henni? Sambönd af þessu tagi eru oft notuð til að sækja um ýmiskonar diplómur eða awards / viðurkenningar sem gefin er út af radíóamatörum og félögum þeirra í þúsundatali vítt og breytt um heiminn.

Félagslegi hlutinn af þessu áhugamáli er oft vanmetinn. Félagslíf er oft blómlegt og skiptir aldursmunur þar oftast litlu máli. Sextán ára og sjötugur geta rætt um þetta áhugamál sitt af sama áhuga.

Radíóamatörar hafa smíðað fjölda fjarskiptagervitungla, sem svífa um himingeiminn og eru notuð til samskipta milli þeirra. Gervitungl þessi, sem nefnd eru OSCAR (Obiting Satellite Carrying Amateur Radio) fá gjarnan að fljóta með, sem aukahlutur þegar verið er að skjóta einhverju öðru upp.

Keppnir af ýmsu tagi eru stór hluti af áhugamálinu en þær byggjast venjulega á því að hafa sem flest sambönd við aðra amatöra á ákveðnu tíma bili.

Ýmsir frægir menn og þjóðhöfðingjar eru og hafa verið radíóamatörar og sá þekktasti er líklega Hússein heitinn Jórdaníukonungur en hann var nokkuð virkur sem radíóamatör.

Fjöldi radíóamatöra í heiminum er um þrjár milljónir en á Íslandi hafa verið gefin út um 400 leyfisbréf frá upphafi. Til að öðlast slíkt leyfi þarf viðkomandi að gangast undir próf hjá Póst og Fjarskiptastofnun.

Hvernig hafa radíóamatörar sambönd sín á milli?

Samskiptamöguleikarnir eru fjölbreyttir en byggja þó allir á því að á báðum endum séu sendiviðtæki og loftnet. Því þetta eru jú þráðlaus samskipti.

Upprunalega notuðu radíóamatörar mors, og nota það ennþá. Morss er ótrúlega skemmtilegt þótt sumum finnist erfitt að læra það. Þetta er alveg eins og að læra á hljóðfæri. “Æfing er það sem skiptir máli”. Mors er því miður á undanhaldi í heiminum í dag og styttist í það að kunnáttu í morsi verði ekki lengur krafist til radíóamatörprófs.

Síðan bættist talið við. Fyrst AM (Amplitude modulation) og síðan SSB (Single Side Band modulation) nokkuð löngu seinna.
Einnig var farið að nota RTTY (Radio Teletype) eða Tíðnifjarritun. En til þess voru notaðar svo kallaðar TELEX vélar ásamt tilheyrandi millibúnaði fyrir sendinn.

Þegar tölvur komu á almennan markað voru radíóamatörar fljótir að taka þær í notkun. Farið var að smíða ýmiskonar millibúnað milli tölvu og sendis til ýmissa fjarskipta. Má þar meðal annars nefna Morse, RTTY, Packet og SSTV.

Á undanförnum örfáum árum hafa orðið gríðarlegar framfarir í samskiptum amatöra þar sem tölva er notuð til að móta stöðina. Bæði er það að gamlar aðferðir sem virtust vera að detta út hafa styrkst þegar möguleikar opnuðust til að nota tölvu (t.d. RTTY og Hell) og svo hafa nýjar bæst við.

Í dag nota radíóamatörar allt frá morse upp í háþróuð fjarskipti með tölvum.

Hér eru helstu fjarskiptamátarnir:

  • Mors (CW)
  • Tal (SSB, FM, AM) *RTTY (Radio-Teletype) kallast fjarritun.
  • Tölvufjarskipti (M.a. RTTY, AMTOR, GATOR, PACTOR, CLOVER, PACKET, PSK31, Hellschriber, MFSK16, MFSK63, Throb)
  • Sjónvarp/Myndsendingar (SSTV (Slow-Scan-Television), ATV, FAX)

Tíðnisvið

Segja má að tíðnisviðið skiptist í 7 flokka.

  • 10-30 KHz eða VLF (Very low frequency)
  • 30-300 KHz eða LF (Low frequency)
  • 300 KHz-3MHz eða MF (Medium frequency)
  • 3-30 MHz eða HF (High frequency)
  • 30-300 MHz eða VHF (Very high frequency)
  • 300 MHz-3 GHz eða UHF (Ultra high frequency)
  • 3-30 GHz eða SHF (Super high frequency)

Tíðnisviðinu er skipt upp í svæði eða “bönd” og hafa radíóamatörar fengið úthlutað ákveðnum tíðnisviðum til að hafa sín viðskipti á. Í flestum tilfellum eru radíóamatörar forgangsnotendur þessara tíðnisviða. Þessi tíðnisvið eru að jafnaði kölluð það sama og bylgjulengd þeirra er í metrum. T.d. er 14.000 MHz – 14.350 MHz oftast kallað 20 m því bylgjulengd 14 MHz er um 20m.

Tíðni frá 3 MHz til 30 MHz er kölluð stuttbylgja, og oftast auðkennd með styttinguni HF. (High Frequency). Vegna lágrar tíðni endurkastar jónahvolfið sem umlykur jörðina bylgjunum frá sendunum. Jónahvolfið virkar sem sagt sem spegill á bylgjur á stuttbylgjunni. Þannig er mjög auðvelt að ná til annarra landa.

Hins vegar endurkastar jónahvolfið ekki bylgjum með tíðnina 30MHz og ofar. Þannig er öllu erfiðara að ná til útlanda á því tíðnisviði. Þetta hafa menn að vísu notfært sér. Settir hafa verið upp gervihnettir sem hringsóla um jörðina, Þeir taka á móti bylgjum frá jörðinni og endurvarpa þeim aftur til jarðar. Þannig geta tveir radíóamatörar, t.d. annar á Íslandi og hinn í Afríku talað saman í gegnum gervihött, svo fremi sem hnötturinn sé innan sjóndeildarhrings beggja. Þess vegna ræður fjarlægð hnattar frá jörðu mikið um langdrægni þeirra sendinga sem að honum er beint. Þetta er aðeins hægt á hærri tíðnum en 30MHz, því jónahvolfið sleppir bylgjunum í gegn, annars væri ekki hægt að ná í gervihnöttinn.

Menn eru einnig að nota tunglið sem spegil, þannig beina þeir stefnuvirkum loftnetum á tunglið og senda radíóbylgjur, bylgjurnar endurkastast og t.d. einhver annar amatör annarstaðar í heiminum heyrir endurkastið og sendir til baka.

Neyðarfjarskipti

Neyðarfjarskipti eru víða um heim stór hluti af starfi radíóamatöra. Þetta byggist venjulega á því að koma upp fjarskiptaneti þar sem náttúruhamfarir eða stórslys hafa átt sér stað og oft á tíðum ekki um aðra möguleika í fjarskiptum að ræða. Venjulega fer þetta fram undir stjórn almannavarna eða svipaðra aðila á hverjum stað. Þátttaka radíóamatöra í neyðarfjarskiptum er sennilega hvað þróuðust í Bandaríkjunum en hér á landi er þátttaka radíóamatöra í neyðarfjarskiptum lítil sem engin.