VIÐTÆKI YFIR NETIÐ Í SKELJANESI
Í dag, 12. desember, bættist við innanlandsviðtæki til hlustunar yfir netið. Um er að ræða KiwiSDR viðtækið sem tekið var niður í Bláfjöllum nýlega. Þar til fundið verður varanlegt QTH, er hugmyndin að vista tækið til bráðabirgða í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi.
KiwiSDR viðtækin vinna frá 10 kHz til 30 MHz og er hægt er að hlusta á AM, FM, SSB og CW sendingar, með bandbreidd sem hentar hverri mótun. Allt að átta notendur geta verið skráðir inn á viðtækið samtímis. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A stóð að uppsetningu tækisins í dag, en það er í eigu Georgs Kulp, TF3GZ. Vefslóðin er: http://ira.utvarp.com Loftnet er: New-tronics Hustler BTV-4, fimm banda stangarnet fyrir 80, 40, 20, 15 og 10 metra böndin.
Hin tvö viðtækin sem eru virk í dag (yfir netið) eru staðsett á Bjargtöngum í Vesturbyggð, vestasta tanga Íslands og ysta oddi Látrabjargs og á Raufarhöfn. Vefslóðir:
Bjargtangar: http://bjarg.utvarp.com
Raufarhöfn: http://raufarhofn.utvarp.com
Stjórn ÍRA þakkar þeim Ara og Georg fyrir dugnað og elju við að sinna þessu verkefni sem er mikilvægt fyrir radíóamatöra sem gera tilraunir í þessum tíðnisviðum, auk hlustara og allra sem hafa áhuga á útbreiðslu radíóbylgna.
Stjórn ÍRA.
Fyrir áhugasama má benda á fróðlega grein Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A um KiwiSDR viðtækin yfir netið hér á landi. Sjá 4. tbl. CQ TF 2020, bls. 41. Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2020/09/cqtf_34arg_2020_04tbl.pdf
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!