,

Mbl: Radíóamatörar

FÉLAGIÐ Íslenskir radíóamatörar var stofnað 14. ágúst 1946 og var því frá upphafi ætlað það hlutverk að kynna og efla radíókunnáttu Íslendinga og stuðla þannig að tækniframförum og hvetja ungt fólk til að taka þátt í tæknivæðingu þjóðarinnar.

Radíóamatörar Fjarskipti Radíóamatörar hafa strangar siðareglur um samskipti sín á milli, segir Haraldur Þórðarson , og eru stjórnmál, trúmál og önnur slík ágreiningsefni aldrei til umræðu. FÉLAGIÐ Íslenskir radíóamatörar var stofnað 14. ágúst 1946 og var því frá upphafi ætlað það hlutverk að kynna og efla radíókunnáttu Íslendinga og stuðla þannig að tækniframförum og hvetja ungt fólk til að taka þátt í tæknivæðingu þjóðarinnar. Áður höfðu nokkrir ungir menn smíðað og notað fjarskiptatæki til þess að hafa samband við útlönd og mun fyrsta tækið hafa verið smíðað árið 1913 á Seyðisfirði af þeim Þorsteini Gíslasyni, sem síðar varð stöðvarstjóri Pósts og síma þar eystra, og Friðbirni Aðalsteinssyni, síðar skrifstofustjóra Pósts og síma. Þetta var frumstæður neistasendir og fátt um aðkeypta hluti. Fleiri fylgdu á eftir og á millistríðsárunum var nokkuð um að menn væru að senda skilaboð á milli landa og var í flestum tilfellum notað mors. Fyrsta reglugerð um starfsemi radíóamatöra var sett í aprílmánuði 1946 og eftir það tók fyrir þessar “ólöglegu” sendingar og félagsmenn fengu reglur til að starfa eftir. Í fyrstu var starfsemi radíóamatöra undir miklu eftirliti hins opinbera, enda stutt frá stríðslokum og hræðsla við njósnastarfsemi mikil. Sá ótti reyndist náttúrlega ástæðulaus og hafa starfsskilyrði amatöra breyst mikið síðan þá. Margvíslegum hömlum sem áður þóttu eðlilegar hefur verið aflétt og þar að auki hefur tækniþróunin ýtt undir að amatörar hafa fengið fleiri tíðnisvið til afnota með árunum. Radíóamatörar voru fljótir að tileinka sér tækni sem fylgdi í kjölfar geimvísinda og geimferða og fengu að senda á sporbaug um jörðu fjarskiptahnetti og þannig er í dag að í mörgum flaugum sem flytja gervihnetti eiga radíóamatörar einn eða jafnvel tvo. Má nefna að í geimstöðinni MIR er endurvarpi ætlaður fyrir radíóamatöra og hafa stórveldin sem manna stöðina lagt mikla áherslu á að geimfararnir væru einig radíóamatörar. Hafa ófáir amatörar víðsvegar um heiminn haft þá ánægju að spjalla við geimfarana í tómstundum þeirra um borð. Radíóamatörar hafa strangar siðareglur um samskipti sín á milli og eru stjórnmál, trúmál og önnur slík ágreiningsefni aldrei til umræðu, en vináttuþel, sameiginlegur áhugi á fjarskiptunum og forvitni um það sem að baki tækninni býr er umræðuefnið. Amatörar hafa áunnið sér verðugt traust hvarvetna og skiptir þá engu hvert þjóðskipulag eða stjórnmálakerfi er í landi þeirra og í dag eru sárafáar þjóðir sem ekki leyfa þessa starfsemi. Á Íslandi hafa radíóamatörar verið framarlega í þróun þráðlausra fjarskipta, t.d. voru það þeir sem settu fyrst upp endurvarpa á metrabylgju þrátt fyrir vantrú á að slíkt gæti heppnast. Árangurinn varð sá að nú í dag eiga íslenskir amatörar fjóra slíka og í undirbúningi er að setja enn einn upp. Radíóamatörar hafa séð um fjarskiptastörf fyrir Almannavarnir ríkisins og þá á sama grundvelli og björgunarsveitirnar, í sjálfboðavinnu, og hefur fjöldi manna komið að því starfi. Fyrir rúmu ári á æfingu Almannavarna og NATO voru það radíóamatörar sem sáu um framkvæmd fjarskipta og það var einnig hópur radíóamatöra sem tryggði að skipuleggjendur æfingarinnar væru í góðu fjarskiptasambandi við hina ýmsu þætti. Víða erlendis er það eitt af skilyrðum fyrir leyfisveitingu að þeir skuldbinda sig til þess að nota fjarskiptatæki sín í þágu almennings þegar þannig háttar til. Nú sem fyrr ætlum við hjá ÍRA að halda námskeið í grunnþáttum radíófræðanna fyrir þá sem hyggjast þreyta próf til réttinda og verður kynningarfundur í Þróttheimum við Holtaveg fimmtudaginn 4. febrúar kl. 20:30. Reyndar er ætlunin að halda tvö námskeið: a) Nýliðanámskeið, en próf að því loknu gefur réttindi til þess að nota stuttbylgju (3.5 , 7.0 og 21 Mhz) og þá eingöngu á morsi. b) Námskeið til A- og T-prófs. Sömu kröfur eru gerðar til kunnáttu í radíófræðum þeirra tveggja leyfa, en T-leyfið heimilar tal- og tölvusamskipti á metrabylgju en fyrir A-leyfið er að auki krafist leikni í morsi og má þá nota það á stuttbylgju. Þegar amatör hefur síðan verið virkur þátttakandi með A-leyfi í sex mánuði getur hann þá sótt um B- leyfi án frekara prófs og fær þá réttindi til að tala á stuttbylgjutíðni og nota aukið afl.

Netslóð ÍRA er http: //www.nett.is/~ tf5bw/ira./ira.html en þar er að finna ýmsar upplýsingar um félagið og þar er einnig netútgáfa af félagsblaðinu okkar. Ágæti lesandi, ef þú hefur áhuga, komdu í Þróttheima og athugaðu hvort ekki sé þar eitthvað fyrir þig. Höfundur er formaður Íslenskra radíóamatöra.

Haraldur Þórðarson

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

14 + ten =