,

MORS FRÁ MÖRGUM HLIÐUM

Mors var skoðað frá mörgum hliðum í Loftskeytastöðinni á Melunum í tveimur viðburðum dagana 1. og 8. nóvember 2024. Að því stóðu Loftskeytastöðin (TFA), Intelligent Instrument Lab (IIL) og Íslenskir radíóamatörar (ÍRA).

Hús Loftskeytastöðvarinnar hefur verið endurnýjað á mjög vandaðan hátt, og hýsir nú menningarhús, rekið af Háskóla Íslands, heyrir beint undir skrifstofu rektors, komið á fjárlög og starfar í anda Vigdísar Finnbogadóttur með menningu, tungumál, náttúruvernd, jafnrétti og menntun að leiðarljósi. Jafnframt virðingu fyrir sögunni og tilefni hússins.

Opnun Loftskeytastöðvarinnar 17. júní 1918 var merkur viðburður í sögu landsins. Stöðin bætti upp helstu veikleika sæstrengsins. Öryggi samskipta við umheiminn jókst til mikilla muna með tvær óháðar leiðir, sem gátu verið til vara fyrir hvora aðra. Stöðin gat einnig haft samband við skip, sem jók öryggi sjófarenda svo um munaði. Þetta styrkti stöðu landsins á
alþjóðavettvangi. Allt byggt á morsi.

Á þessum bakgrunni átti Loftskeytastöðin nú frumkvæði að þessari skoðun á morsinu frá mörgum hliðum. með list, tækni, tónlist, gervigreind ásamt samtali við radíóamatöra, sem eru stærsti lifandi vettvangur fyrir mors nú um stundir.

1. Málstofa um mors 1. nóvember frá kl.16.00 – 17.00
Til að skoða núverandi stöðu morsins og hvernig radíóamatörar sjá þróun þess í framtíðinni. Tækifæri til að deila sýn og ræða nýjungar í þessum heillandi heimi samskipta. Stutt yfirlit málefna, sem rædd voru á málstofunni:

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir talaði um Morskóða í Listum, Tækni og Tónum. Í verkum sínum skoðar Anna Júlía hugmyndir um samskipti og hvernig við áttum okkur í veröldinni. Hún leikur sér að miðlun og virkni upplýsinga og umbreytingamætti boðskipta og túlkunar. Eðlislægir eiginleikar efna spila ríkan þátt í samhengi verka hennar sem og samband manngerðra og náttúrulegra þátta sem hún stefnir saman svo úr verður óræður samruni. Verk eftir hana verða til sýnis á neðri hæð Loftskeytastöðvarinnar.

Kristján Benediktsson, TF3KB hafði framsögu um mors sem lifandi hefð meðal radíóamatöra, og stiklaði á stóru eftir þræði í grein sinni í CQ TF – 35. árg. 2021, 4. tbl. bls. 45, um sögu þess, þróun, o.fl. Gerði grein fyrir vinnu IARU um að fá mors samþykkt sem óáþreifanlega menningararfleifð mannkyns hjá UNESCO, sem er flókið og seinlegt ferli og þarfnast stuðnings fleiri landa. Sagði einnig frá nýlegri heimsmeistarakeppni í háhraða morsi, HST í Túnis í október sl., sem eitt dæmi um hvernig morsið lifir enn góðu lífi meðal radíóamatöra. Kristján sagðist vilja stytta mál sitt, og hvatti í þeim tilgangi til spurninga.

Kristinn Andersen, TF3KX og Sæmundur Þorsteinsson, TF3UA mættu með sendiviðtæki sem morstóngjafa auk morslykla, hvor sinnar gerðar, venjulegan handlykil og iambic. Þeir sýndu mors í praxís og sögðu frá tækni og tækjum og samskiptaháttum radíóamatöra og morsi eftir fjölbreytilegum útbreiðsluleiðum. Kristinn sýndi heimasmíðaðan QRP
mors- sendi, sem auðvelt er að ná sambandi með heimshorna á milli.

Spurningar voru margar og líflegar og umræður stóðu rúmar 30 mín. umfram áætlaðan fundartíma.

2. Merki og músik, tónleikar og opin vinnustofa 8. nóv. 2024 kl. 15.00-17.00
Afrakstur málstofunnar vikunni áður, þar sem Intelligent Instruments Lab (IIL) bauð upp á tónleika og opna vinnustofu, þar sem doktorsnemar hljóðgerfðu morskóða og mynduðu tónlistarlega tengingu við sögu og merkingu hans. Vinnustofan gaf gestum tækifæri til að skoða tæknina og aðferðir hljóðlistar sem tengjast morskóða.

Frumkvöðull og aðalrannsakandi og stjórnandi Intelligent Instruments Lab er Þórhallur Magnússon, rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands sem sá um framangreindan viðburð, um framtíðartónlist og gervigreind.

Verkefnið Intelligent Instruments, sem hlaut styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu (ERC Consolidator Grant 2021-2026), er þverfaglegt rannsóknarverkefni, sem byrjaði hjá Listaháskóla Íslands, en hefur nú verið flutt á Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Breytt landslag á sviði gervigreindar hefur ýtt undir áherslubreytingu í rannsóknum og talið að verkefnið eigi nú betur heima í hug- og félagsvísindum, þó að aðferðafræðin liggi áfram að hluta til á sviði listrannsókna.

Verkefnið gengur út á að rannsaka hvernig fólk bregst við greind og atbeina í tækni almennt, þar sem tónlist og hljóðfæri eru notuð sem vettvangur og aðferðafræði rannsóknarinnar, sem Þórhallur nálgast á mjög skapandi hátt.

Þakkir til Kristjáns Benediktssonar, TF3KB fyrir þessa ágætu samantekt.

Stjórn ÍRA.

Lógó viðburðanna vísar til aðstandendanna þriggja IIL, TFA og ÍRA, með morsið yfir og allt umkring.
Frumkvöðlar að málstofunni: Anna Diljá Sigurðardóttir, upplýsingastjóri – HÍ, Kristinn Andersen, TF3KX, sviðsstjóri kennslumála – HÍ með QRP sendinn, og María Theódóra Ólafsdóttir, forstöðumaður – HÍ.
Kristinn Andersen og Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, sem talaði um Morskóða í Listum, Tækni og Tónum.
Kristján Benediktsson, TF3KB, sem hafði framsögu um mors sem lifandi hefð og Kristinn Andersen, TF3KX.
Kristinn Andersen, TF3KX, Anna Júlía Friðbjörnsdóttir og Sæmundur Þorsteinsson, TF3UA ásamt áheyrendum.
Áhugasamir áheyrendur fylgjast með umræðum málstofunnar. Ljósmynd: Loftskeytastöðin.
Frá flutningi Intelligent Instruments Lab (IIL) á einu verki.
Þórhallur Magnússon aðalrannsakandi Intelligent Instruments Lab (IIL). Ljósmynd: IIL HÍ.
Aðrar ljósmyndir. Kristján Benediktsson, TF3KB og Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

2 × 4 =