,

Næstum EME samband á 6 metra bandinu…

Benedikt Sveinsson, TF3CY, lauk nýlega við smíði 6 stika Yagi loftnets á 7 metra langri bómu á 50.100 MHz fyrir EME vinnu. Hann hafði þá verið í netsambandi við Lance Collister, W7GJ, sem býr í Montanaríki í Bandaríkjunum. En Lance þessi hefur bæði DXCC á 2 metrunum og 6 metrunum (u.þ.b. 2/3 hlutar DXCC sambanda hans á 6 metrum eru höfð með EME).

Þann 19. júní var afstaða tunglsins rétt miðað við nauðsynlega útreikninga til að hafa QSO á milli Montana og Reykjavíkur með því að stefna merkjum á 6 metra bandinu á tunglið og ákváðu þeir Benedikt og Lance að hafa SKED. Til að gera langa sögu stutta, þá heyrði Benedikt merkin frá Lance, en merki Benedikts heyrðust ekki á hinum endanum. Loftnet Lance eru reyndar ekki af verri endanum, en hann notar fjögur 9 stika Yagi loftnet sem eru fösuð saman (í ferning). Tegund útgeislunar sem er notuð í EME samböndum er JT65a.

Málið er mjög spennandi og var mikið rætt í félagsaðstöðu Í.R.A. í gærkvöldi (fimmtudag) og var Benedikt eðlilega mjög ánægður með þennan árangur. Hann er bjartsýnn á að það sé hægt að hafa EME QSO á 6 metrum við W7GJ jafnvel á 100W með ofangreindu loftneti, en hefur þegar hafið smíði á magnara á 6 metrunum til að gera sér málið auðveldara. (Til skýringar: Heimildir okkar á 6 metrum miðast í dag við 100W auk þess sem aðgangur okkar að bandinu er á víkjandi grundvelli. Tengiliður Í.R.A. gagnvart PFS hefur verið í sambandi við stofnunina og eru góðar líkur á veitingu sérstakra tímabundinna heimilda til notkunar á auknu afli á bandinu).

Hamingjuóskir til Benedikts með þann árangur sem þegar er í höfn. Margir félagsmenn munu fylgjast með þessum áhugaverðu tilraunum. Sjá nánar upplýsingar á heimasíðu Benedikts og ljósmyndir, sem er: http://www.tf3cy.is/

TF2JB

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

1 × 2 =