Námskeið fyrir próf til amatörleyfis, skráning
Stjórn Í.R.A. samþykkti nýlega á fundi sínum, að félagið bjóði á næstunni upp á námskeið til undirbúnings amatörprófs. Fyrirhugað er að námskeiðið standi yfir um 10 vikna skeið, frá febrúar til apríl n.k. og ljúki með prófi Póst- og fjarskiptastofnunar laugardaginn 4. maí 2013.
Námskeiðið verður kvöldnámskeið og verður kennt tvö kvöld í viku, 2 kennslustundir í senn. Það verður opið öllum og ekki eru gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning. Tekið skal fram, að stjórnvöld gera ekki lengur kröfur um morskunnáttu þannig að morskennsla er ekki hluti af námskeiðinu.
Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Ath. að skráningu fylgir engin skuldbinding, en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda nemenda. Fyrirspurnum má beina á sama töluvpóstfang. Námskeiðsgjald verður 14 þúsund krónur fyrir félagsmenn Í.R.A., en 19 þúsund krónur fyrir aðra. Inni í þessu verði eru öll námsgögn.
Skráning verður opin til og með 28. desember n.k. Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að
lágmarksþátttaka fáist.
________
Prófkröfur Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis miðast við 5. gr. reglugerðar nr. 348/2004 og tilmæli CEPT nr. 61-02 eftir því sem við á og eru tvískiptar, þ.e. annars vegar fyrir N-próf og hins vegar fyrir G-próf. Prófkröfur eru eftirfarandi til N-prófs:
1. Grunnatriði í rafmagns- og radíófræði.
2. Innlendar og alþjóðlegar reglur og aðferðir í viðskiptum.
3. Helstu atriði í lögum um fjarskipti og reglugerð um radíóáhugamenn.
Prófkröfur stofnunarinnar til amatörleyfis miðast við 5. gr. reglugerðar nr. 348/2004 og tilmæli CEPT nr. 61-02 eftir því sem við á. Þær eru eftirfarandi til G-prófs:
1. Tækni: Raf-, rafsegul- og radíófræði; íhlutir; rásir; viðtæki; sendar; loftnet og sendilínur; útbreiðsla rafsegulbylgna; mælingar; truflanir og truflanavernd; öryggismál í sambandi við rafmagn.
2. Innlendar og alþjóðareglur um viðskipti og aðferðir: Stöfun með orðum; Q-skammstafanir; skammstafanir sem eru notaðar í viðskiptum; alþjóðleg neyðarmerki, neyðarköll og fjarskipti í náttúruhamförum; kallmerki; og skipulag alþjóðlegu radíóáhugamannasamtakanna (IARU) á tíðnisviðum radíóáhugamanna.
3. Innlendar og alþjóðlegar reglur um þráðlaus fjarskipti áhugamanna: Radíóreglugerð ITU; reglur CEPT; og innlend löggjöf, reglugerðir og leyfisskilyrði.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!