OPIÐ VAR Í SKELJANESI 19. OKTÓBER
Björgvin Víglundsson, TF3BOI heimsótti okkur í Skeljanes 19. október með erindið: „Amatör radíó og stærðfræði“.
Hann sýndi okkur áhugaverðar hliðar á amatör radíói sem í raun byggir á því skemmtilaga fagi, stærðfærði. Hann byrjaði fyrirlesturinn á að skrifa upp óendanlega röð, summu, af liðum, sem hver um sig var margfaldaður með e í hlaupandi veldi. Hann breytti síðan þessari röð í heildi eða „integral“. Björgvin spurði síðan út í sal: „Hvað er nú þetta?“ Einn stakk upp á að þetta væri Fourier vörpun, en „NEI,“ sagði Björgvin, þetta er Laplace vörpun.
Og hvað er svo Laplace vörpun, og hvaða gagn getur hún gert? Hún umbreytir eða “varpar” tiltekinni stærðfræðilýsingu, eða -falli yfir á annað form, svokallaða Laplace vörpun, þar sem útreikningar eru léttari og skilningur er auðveldari. Björgvin tók dæmi af einfaldri rafrás, sem hann beitti Laplace vörpun á til að sýna fram á þetta. En meðal áheyrenda hér, sagði hann, væru e.t.v. einhverjir, sem þætti þetta of einfalt, en öðrum þætti þetta kannski allt of flókið, svo líklega yrðu allir óánægðir. Of langt mál er að rekja skemmtilegt erindi Björgvins í þessari stuttu frásögn, en hnyttin tilsvör og útskýringar hans léttu lund áheyranda. Var gerður góður rómur að fyrirlestri hans, og hlaut hann verðskuldað lófaklapp í lokin. Þakkir til Björgvins Víglundssonar, TF3BOI fyrir áhugavert erindi.
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A lauk við uppfærslu gervihnattastöðvar félagsins í Skeljanesi þetta fimmtudagskvöld. Til upprifjunar, var fyrsti hluti verkefnisins framkvæmdur 22. ágúst þegar þeir Georg Kulp, TF3GZ tengdu sérhæft Ankaro LNB frá PE1CMO og „IceConeFeed v2“ „Helix Feed“ frá Nolle Engineering. Annar hluti var framkvæmdur 7. september þegar Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS tengdi uppfærðan PE1CMO transverter félagsins og þriðji hlutinn var síðan framkvæmdur þetta kvöld (19. október) þegar Ari uppfærði nauðsynlegar stillingar á búnaðinum. Þegar því var lokið hafði hann nokkur QSO um QO-100 gervitunglið því til staðfestingar, að stöðin vinnur eins og best verður á kosið, m.a. við Íslandsvininn Ninu Riehtmüller DL2GRC (sjá mynd neðar). Bestu þakkir til þeirra félaga TF1A, TF3GZ og TF3VS fyrir góða aðstoð við að uppfæra fjarskiptatæki og loftnetsbúnað félagsins.
Alls mættu 31 félagi og 2 gestir í Skeljanes þetta vinda- og úrkomusama (en ágæta) fimmtudagskvöld í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!