OPINN LAUGARDAGUR KOMINN TIL AÐ VERA
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes laugardaginn 19. október og kynnti búnað, tækni og tól til fjarskipta um OSCAR 100 gervitunglið, auk þess sem hann aðstoðaði félagsmenn við að fara í loftið frá félagsstöðinni TF3IRA í gegnum tunglið.
Í boði var svokallaður „opinn laugardagur“ sem þýðir að félagsaðstaðan var opin yfir allan daginn frá kl. 10-16 til að gefa sem flestum tækifæri til að nýta viðburðinn. Þetta fyrirkomulag heppnaðist vel og var mikil ánægja með það.
Skemmtilegt er að skýra frá því að á meðal gesta var Stefán Arndal, TF3SA, sem fór í loftið og varð þar með fyrstur leyfishafa til að hafa samband um OSCAR 100 á morsi frá Íslandi. Það var við DL4ZAB, OM Bernd í Kassel í Þýskalandi. Flestir (sem fóru í loftið) prófuðu þó hljóðnemann og voru menn sammála um, að þessi upplifun væri mjög sérstök; sterk merki, engar truflanir og góður DX.
Alls mættu 19 félagsmenn og 4 gestir í Skeljanes þennan ágæta og veðurmilda laugardag.
Stjórn ÍRA þakkar Ara fyrir áhugaverðan og vel heppnaðan viðburð.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!