,

Opnun talstöðvasafns Sigga Harðar TF3WS að Skógum

Laugardaginn 6. júní kl. 14 verður opnuð sýning á merkilegu safni bílatalstöðva í Samgöngusafninu að Skógum undir Eyjafjöllum. Það er Sigurður Harðarson rafeindavirki (TF3WS) sem hefur safnað öllum gerðum bílatalstöðva sem notaðar hafa verið á Íslandi og afhendir hann nú samgöngusafninu að Skógum safn sitt. Siggi hefur safnað tækjunum í um 40 ár og þau spanna rúmlega 60 ára sögu fjarskipta á Íslandi.

Tækin skipta hundruðum, frá fyrstu Morse-tækjum til „gemsa” og koma frá fjallamönnum, lögreglu, björgunarsveitum, rútufyrirtækjum, leigubílum, almannavörnum og áhugamönnum um fjarskiptatækni.

Mörg tækjanna eru virk og á sýningunni má m.a. heyra viðskipti á Morsi og tali, m.a. samskipti skipbrotsmanna á togaranum Elliða sem fórst 10. febrúar 1962 og björgunarmanna, en upptaka af samtölum þeirra hefur varðveist.

Sagan á bak við safnið.

Árið 1957, þá 13 ára gamall, smíðaði Siggi Harðar fyrsta útvarpstækið sitt og hefur síðan smíðað mörg tæki og sendistöðvar, þar á meðal stærastan hluta endurvarpskerfa Landsbjargar og Ferðafélagsins 4X4 á Íslandi, þ.e. þann hluta sem notar eingöngu sólarorku. Það eru yfir 50 sendistöðvar.

Strax í upphafi hafði Siggi mikinn áhuga á fjarskiptatækjum. Eftir að námi lauk í rafeindavirkjun árið 1966 vann hann meira og minna við fjarskiptabúnað ásamt viðgerðum á útvaps- og sjónvarpstækjum.

Á þeim tíma voru gömul tæki geymd, aðallega til að taka úr þeim varahluti, og einnig söfnuðust fyrir tæki strax í upphafi. Þegar fjöldinn jókst varð ljóst að tækin höfðu sögulegt gildi, og með því að halda upp á eintak af hverri tegund mætti ná heilstæðu safni með tíð og tíma. Sum tækin hafa þannig verið geymd í yfir 40 ár.

Þegar breytingar hafa orðið á fjarskiptatækninni hér á landi, svo sem þegar AM-mótuðum talstöðvum var skipt út fyrir SSB-mótaðar árið1982 – hefur Siggi ávallt haldið eftir eintaki af hverri gerð sem hann hefur komist yfir, stundum með því að komast í geymslur þjónustufyrirtækja þar sem staðið hefur yfir tiltekt. Á þann hátt hafa varðveist margar gamlar talstöðvar sem nú eru í þessu safni. Þessi söfnun hefur einnig spurst út í gegnum tíðina og menn hafa gefið gömul eintök.

Elstu tækin eru frá árinu 1945, frá því er fjarskipti voru gefin frjáls á Íslandi eftir stríðið. Það hefur komið sér vel að kunna skil á sögu þessara tækja að Siggi hefur unnið við þjónustu fjarskiptatækja í rúm 40 ár.

Siggi Harðar er einnig radíóamatör (TF3WS) og hefur starfað í Flugbjörgunarsveitinni frá 16 ára aldri. Vegna þessa hefur hann m.a. öðlast góða yfirsýn yfir fjölbreytta flóru fjarskiptatækja á Íslandi ásamt því að hafa umgengist menn sem hafa reynslu af notkun þeirra.

Það er með ánægju að undirritaður kemur hér með þeim boðum á framfæri við radíóamatöra og félagsmenn Í.R.A. að þeim stendur til boða frír aðgangur á laugardag frá kl. 14-17 ásamt því að í boði verða kaffiveitingar. Það skal tekið fram að Siggi er félagsmaður í Í.R.A.

73 de TF2JB.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

three × one =