Kristján Benediktssonm TF3KB

Fimmtudagserindið þann 23. febrúar var í höndum Kristjáns Benediktssonar, TF3KB og nefndist það Ráðstefnan í IARU Svæði 1 árið 2011; helstu niðurstöður. Á þriðja tug félagsmanna mættu í félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

Í umfjöllun sinni, lýsti Kristján uppbyggingu aðþjóðastarfs radíóamatöra. Hann fór vel yfir feril og þróun umræðunnar innan hreyfingarinnar og tók dæmi um faglega og færsæla lausn mála þann tíma sem hann hefur annast embætti tengiliðar Í.R.A. í alþjóðastarfinu, auk þess að fjalla sérstaklega um niðurstöður ráðstefnu IARU Svæðis 1 sem haldin var í Suður-Afríku í ágústmánuði s.l.

Kristján fjallaði að lokum um helstu niðurstöður alþjóðlegrar radíófjarskiptaráðstefnu I.T.U., WRC-12 (World Radiocommunication Conference 2012) sem varða radíóamatöra og lauk þann 17. febrúar s.l. í Genf. Þar ber hæst, nýtt amatörband á heimsvísu í tíðnisviðinu 472-479 kHz.

Stjórn Í.R.A. þakkar Kristjáni Benediktssyni, TF3KB, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi.

Fram kom m.a. hjá Kristjáni, að þegar er hafinn undirbúningur að frumvarpi um nýtt
amatörband á 5 MHz, sem gæti verið tekið til umfjöllunar á WRC-2015 eða 2018.

Frá prófdegi 23. janúar 2010.

Nokkrir einstaklingar hafa sett sig í samband við félagið að undanförnu og skýrt frá áhuga sínum þess efnis, að fá tækifæri til að sitja próf til amatörleyfis án undangengis námskeiðs. Stjórn Í.R.A. samþykkti á fundi sínum s.l. föstudag (að fenginni jákvæðri umsögn prófnefndar félagsins) að kanna þennan áhuga frekar. Til viðmiðunar sem prófdagur, er laugardagurinn 28. apríl n.k. Tilskilið er að næg þátttaka fáist.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Fyrirspurnum má jafnframt beina á sama töluvpóstfang.

Skráning verður opin til og með 16. mars n.k. Fáist næg þátttaka, mun félagið bjóða upp á sérstakt kynningarkvöld námsefnis. Komi fram áhugi á þeim fundi, kemur til greina að boðið verði upp á dæmatíma og yfirferð eldri prófa, nemendum til undirbúnings.

Fyrirhugað er að boðið verði upp á næsta reglulegt námskeið til amatörprófs á hausti komanda og er miðað við að það hefjist í þriðju viku septembermánaðar.

Vakin er athygli félagsmanna á tveimur skjölum með Power Point glærum sem nýlega hafa verið sett inn á heimasíðu félagsins. Þetta eru annars vegar, glærur frá fimmtudagserindi Bjarna Sigurðssonar, sérfræðings hjá Póst- og fjarskiptastofnun, “Geislunarhætta í tíðnisviðum radíóamatöra” sem flutt var þann 8. desember s.l. og hins vegar, glærur frá sunnudagserindi Ársæls Óskarssonar, TF3AO, “Að byrja RTTY keppnisferilinn” sem flutt var þann 19. nóvember s.l.

Vefslóð: http://www.ira.is/itarefni/

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, virkjaði félagsstöðina TF3W í ARRL International DX keppninni á morsi, sem haldin var 18.-19. febrúar. Sigurður keppti í einmenningsflokki á öllum böndum, fullu afli. Niðurstaða: 2.675 QSO og 243 margfaldarar eða nær 2 milljónir heildarstiga. Þessi niðurstaða er ótrúlega góð þegar tekið er tillit til bilana í búnaði og truflana í segulsviðinu á sunnudeginum.

Band (metrar)

QSO (fjöldi)

Margfaldarar (fjöldi)

160

2

2

80

58

28

40

358

49

20

828

58

15

1134

59

10

294

47

(Alls 2.674 QSO og 1.949.346 heildarstig).


Miklar truflanir í segulsviðinu á sunnudag lokuðu nánast á fjarskipti á öllum böndum (K-gildi 9). Af þeirri ástæðu var QSO hlutfall á milli daga 80% á laugardeginum og 20% á sunnudeginum, þrátt fyrir 35 klst. viðveru í keppninni. (Til skýringar: K-gildi 5 og yfir flokkast sem segulstormur).

Í annan stað reyndist Harris 110 RF magnari félagsins bilaður. Bilunin hafði þau áhrif, að minnka þurfti afl stöðvarinnar í 30-50W á 40, 80 og 160 metrum. Á 10, 15 og 20 metrum reynist unnt að keyra hann í nokkurn tíma á 700W en síðan datt hann út ca. á 5 mín. fresti niður í u.þ.b. 60W (í miðri sendingu).

Stjórn Í.R.A. þakkar Sigurði R. Jakobssyni, TF3CW, fyrir virkjun félagsstöðvarinnar svo og öðrum félagsmönnum er lögðu hönd á plóg undanfarnar tvær vikur við að gera TF3W QRV á öllum böndum, frá 10-160m.

Kristján Benediktsson, TF3KB

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í félagsaðstöðunni við Skeljanes fimmtudaginn 23. febrúar n.k. Þá kemur Kristján Benediktsson, TF3KB, og nefnist erindi hans: Ráðstefnan í IARU Svæði 1 árið 2011; helstu niðurstöður.

Kristján hefur jafnframt orðið góðfúslega við ósk félagsins um að fjalla stuttlega um helstu niðurstöður alþjóðlegu radíófjarskiptaráðstefnu ITU, WRC-12 (World Radiocommunication Conference 2012) sem varða radíóamatöra og lauk s.l. föstudag, 17. febrúar í Genf.

Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30 og hvetur stjórn Í.R.A. félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar verða í boði félagssjóðs.

Benedikt Sveinsson TF3CY og Sigurður R. Jakobsson TF3CW

ARRL International DX morskeppnin stendur yfir helgina 18.-19. febrúar. Sigurður R. Jakobsson, TF3CW starfrækir félagsstöðina TF3W í keppninni í einmenningsflokki á öllum böndum, fullu afli. Undirbúningur
fyrir keppnina hefur staðið yfir undanfarnar tvær vikur og voru m.a. sett upp sérstök loftnet fyrir 80 metrana og 160 metrana vegna keppninnar.

80 metra loftnetið er 21 metra hátt færanlegt stangarloftnet og 160 metra loftnetið er 18 metra hátt færanlegt stangarloftnet, búið topphatti. Guðmundur Sveinsson, TF3SG, lánaði 80 metra loftnetið, en Sigurður lánaði Spiderbeam stöngina. Sjá myndir af loftnetunum neðar á síðunni.

New-Tronics Hustler 5-BTV loftnet félagsins er notað á 40 metrum í keppninni og SteppIR 3E 3 staka Yagi loftnet félagsins er notað á 20, 15 og 10 metrum. Keppnin er 48 klst. keppni og lýkur henni á sunnudagskvöld kl. 23:59.

Færanlegt stangarloftnet TF3SG fyrir 80 metrana er á bílastæðinu við Skeljanes.

Stangarloftnetið með topphattinum fyri 160 metrana er staðsett á bárujárnsveggnum í Skeljanesi.

Ólafur Helgi Friðjónsson, TF3OF, er látinn. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að hann hafi látist í Landspítalanum þann 10. febrúar s.l.

Ólafur var handhafi leyfisbréfs nr. 97 og lengst af félagsmaður í Í.R.A. Hann var á 78. aldursári.

Stjórn Í.R.A. sendir fjölskyldu Ólafs hugheilar samúðarkveðjur vegna fráfalls hans.

Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX var með erindi á fyrstu sunnudagsopnun félagsins 12. febrúar.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, var með fyrsta sunnudagserindið á yfirstandandi vetrardagskrá þann 12. febrúar. Vilhjálmur kynnti erindið eftirfarandi: Ætlunin er að fjalla um það sem heitir “duality” á ensku, sem ég hef lengi þýtt sem “tvídd” við kennslu. Þá er skoðuð samsvörun í jöfnum og rásum þegar víxlað er spennu og straumi.

Þó hægt sé að komast af án þessa hugtaks, víkkar það sjónarhornið og eykur skilning. Greining á einni rafrás gildir líka um aðra rás, sem er þá “tví” (dual) hinnar og öfugt. Það munar um minna en að helminga þann aragrúa af rásum sem við viljum skilja. Að sama skapi kann maður í raun 2 jöfnur fyrir hverja sem maður lærir, og getur stundum valið jöfnu sem gefur einfaldari útreikninga en sú sem annars þyrfti að nota.

Erindið hófst stundvíslega kl. 10:00. Vilhjálmur fór á kostum í yfirferð sinni og voru umræður fjörugar og stóðu fram yfir kl. 13:00. Alls mættu 18 félagsmenn í Skeljanesið að þessu sinni.

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX, vel heppnað og áhugavert erindi og Guðmundi Sveinssyni, TF3SG, fyrir undirbúninginn.

Vilhjálmur fjallaði m.a. um “praktísk” atriði fyrir radíóamatöra sem stunda smíðar.

 

Yngvi Harðarson TF3Y og Sigurður R. Jakobsson TF3CW í Skeljanesi 9. febrúar 2012.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW og Yngvi Harðarson, TF3Y fluttu vel heppnað erindi um alþjóðlegar keppnir í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 9. febrúar. Þetta var þriðja árið í röð sem þeir félagar halda tölu um viðfangsefnið (enda víðfemt) og að þessu sinni var lögð áhersla á undirbúningsþáttinn.

Þeir félagar komu víða við og fjölluðu um allt frá því hvernig best er að greina fjarskiptadagbækur frá fyrri keppnum til matarræðis og hvíldar. Það síðastnefnda er afar mikilvægt þar sem sumar keppnir heimila þátttöku (án hvíldar) í allt að tvo sólarhringa. Þá er ekki síður nauðsynlegt að tækin og allur
búnaður séu vel yfirfarinn og ef hægt er, að hafa tæki við vara.

Erindið var geysivel heppnað og skörunglega flutt. Í fyrirspurnum og umræðum kom í ljós mikill áhugi félagsmanna á efninu og er við því að búast að þeim fjölgi sem taka þátt í keppnnum frá TF á næstu misserum. Á þriðja tug félagsmanna hlýddu á erindið sem stóð til kl. 22:30.

Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Sigurði R. Jakobssyni, TF3CW og Yngva Harðarsyni, TF3Y, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi og Jóni Svavarssyni, TF3LMN, fyrir myndatökuna.

Power Point skyggnur frá erindinu má sækja á vefslóðina: http://www.ira.is/itarefni/

Það kom mörgum á óvart þegar þeir félagar bentu á að mikil kaffidrykkja væri varasöm í keppnum.

Á Íslandi er norðurljósavirkni að meðaltali 243 daga á ári. Sjá samanburðinn við nágrannalöndin.

Þeir Sigurður og Yngvi lögðu áherslu á menn kynni sér og noti skilyrðaspár sem þátt í undirbúningi.

Þeir félagar fóru að lokum yfir siðareglur keppenda í alþjóðlegum keppnum.

Ráðgert er að hafa til umfjöllunar rafmagnsfræði í næstu sunnudagsopnun félagsins að morgni þess 12. febrúar, ca. kl. 10.00 og mun Vilhjálmur Kjartansson, TF3DX leiða umræðuna. Þetta er hugsað sem viðbót við þá rafmagnsfræði sem kennd hefur verið á námskeiðum félagsins og farið vandlega ofan í fræðilega en afmarkaða hluti. Ráðgert að þetta verði með léttu sniði, skrifað á töfluna yfir kaffibolla.

73
Guðmundur de TF3SG

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW.

Yngvi Harðarson, TF3Y.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW og Yngvi Harðarson, TF3Y, verða með næsta erindi á vetrardagskrá félagsins. Það verður haldið fimmtudaginn 9. febrúar n.kí félagsaðstöðunnni við Skeljanes.

Þeir félagar munu fjalla um þátttöku í alþjóðlegum keppnum og hve mikilvægt er að viðhafa markvissan undirbúning sem þátt í keppnisferlinu. Erindið hefst hefst stundvíslega kl. 20:30.

Félagar, fjölmennum! Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

 

Kortastofa ÍRA tilkynnir hækkun á þjónustu. Frá og með deginum i dag kostar kr. 9,50 pr. kort, sem sent er í gegnum kortastofu ÍRA. Frá ármótum hefur ný gjaldskrá Íslandspósts verið í gildi. Rétt að geta þess að póstburðargjöld Íslandspósts hafa hækkað frá síðustu hækkun kortastofu ÍRA um 53,16% á bréfum til Evrópu og 50,88% utan Evrópu. Verð Íslandspósts á 250 gramma bréfi til Evrópu sem kostaði kr. 380 kostar eftir hækkun kr. 520 og verð á 250 gramma bréfi utan Evrópu sem kostaði kr. 570 kostar nú kr. 860.

73
Guðmundur, TF3SG