Ágætu félagar!

Hugmyndin var núna eftir helgina að skipta innanlandstíðninni 3.633 MHz út fyrir 3.640 MHz, þ.e. í tíma fyrir Útileikana. Þá kom í ljós á síðustu stundu, að RSGB (þ.e. hið breska ígildi ÍRA) er með QTC sendingar á þessari tíðni alla sunnudagsmorgna fram yfir hádegi all árið um kring og þær sendingar heyrast mjög vel um allt land.

Nú er því til skoðunar tíðnin 3.637 kHz. Það reyndi verulega á hana í gærkvöldi þegar tónmótuðu truflanirnar (stundum kallaðar “kínverska pípuorgelið”) voru ítrekað mjög sterkar á 3633 – þá var 3637 t.d. hrein og truflanalaus miðað við 2.4 kHz bandbreidd viðtækis hér í Borgarfirði.

Ef ekkert kemur upp sem er andstætt þessari tíðni, er hugmyndin að 3.637 MHz taki við sem innanlandstíðni frá og með föstudeginum 24. júlí n.k.

73 de TF2JB.

Nýlega var gerð breyting á uppröðun húsgagna í félagsaðstöðunni (þ.e. niðri). Hægindastólarnir voru færðir í stærra rýmið og stólarnir sem þar voru í hitt rýmið.

Á myndinni má sjá að mun rýmra er um húsgögnin eftir breytinguna.

Hugmyndin er síðan í framhaldi að færa tússtöfluna á “sjávarsíðuvegginn” þannig að hún blasi einnig við þeim sem sitja í rýminu þar sem bókaskápurinn er. Með þessu móti fást aukin þægindi og fleiri geta séð á töfluna, t.d. á fundum. Meðfylgjandi ljósmyndir sýna breytinguna, en eftir á að hengja upp myndir á veggina þegar lokið verður að mála aðstöðuna.

Sveinn, TF3SNN, stöðvarstjóri ÍRA við bókaskápinn.

Ljósmyndir og frétt: TF2JB

 

Axel Sölvason, TF3AX mun halda morsnámskeið og er ætlunin að fara af stað með námskeiðið í september.  Fyrir okkur sem enn erum að læra er þetta gleðistund og mikið tilhlökkunarefni.  Það verður sagt nánar frá útfærslu námskeiðsins þegar nær dregur.

Til þess að kanna áhugann eru áhugasamir vinsamlegast beðnir að senda mér póst á dn@hive.is

73

Guðmundur, TF3SG

Gulli, TF8GX sem er ARRL Card Checker á Íslandi, hefur boðist til að koma eitt fimmtudagskvöld í félagsheimili ÍRA til þess að menn geti komið með QSL kortin sín til skráningar.  Gulli mun taka við kortunum í félagsheimili ÍRA og skila þeim viku síðar.

Til þess að auðvelda þetta þarf að fylla út skráningarblað (ég held að það kallist DXCC Record sheet and DXCC Award Application)  telja kortin og skrá niður fjölda þeirra, og um hversu mörg staðfest sambönd er að ræða, og raða kortunum.

Skráningarblaðið mun liggja frammi á næsta fimmtudag í félagsheimili ÍRA.

Skiladagur og móttaka korta verður auglýst fljótlega þar á eftir.

73

Guðmundur, TF3SG

Alþjóðlega Vita og vitaskipa helgin
(International Lighthouse/ Lightship Weekend)
verður haldin 15-16. ágúst í 11. sinn.
Eins og siðastliðin 10 ár er áætlað að virkja
TF1IRA frá Knarrarósvita austan við Stokkseyri.

Er þar kjörið tækifæri til að gera tilraunir með
loftnet og radíóbúnað, prófa sig áfram og eða æfa sig
í að starfrækja stöðvar eða bara hitta aðra félagsmenn.

Vonum að sem flestir sjái sér fært að taka þátt.
Sérstaklega skorum við á nýja félaga og leyfishafa
að taka þátt, því þarna er frábært tækifæri til að læra af
reyndari amatörum og taka þátt í að reka stöð og læra
hvernig maður ber sig að.

p.s. Biðjum við þá félaga sem ætla að koma að láta vita með tölvupósti
(tf3sn at simnet.is) sérstaklega ef áætlað er að setja upp loftnet
svo við höfum grófa hugmynd um fjölda og skipulagningu
loftneta.

73 de TF3SNN

Heimasíða:  International Lighthouse/ Lightship Weekend

Hin alþjóðlega vitahelgi er í ár 15. – 16. ágúst.  IRA hefur tilkynnt þáttöku og skráð Knarrarósvita.  Þetta er án efa ein skemmtilegasta fjölskylduhátíð landsins.  Ég hvet alla til að taka helgina frá og hittumst í Knarrarósvita.  Nánar verður sagt frá síðar.

73

Guðmundur, TF3SG

Minni á IARU HF World Championship contestið sem hefst í dag laugardag 11. júlí til sunnudags  kl 12.00.

Markmiðið er m.a. að hafa samband við sem flesta radió (vak) áhugamenn og sem flestar HQ stöðvar félagslanda IARU

73

Guðmundur, TF3SG

TF3RPC varð á ný QRV í gær, 7. júlí kl. 11:30 er TF3WS tengdi nýjan aflgjafa við stöðina. Endurvarpinn er vistaður í bráðabirgðaaðstöðu í Espigerðinu á meðan byggingarframkvæmdir standa yfir. Því fylgir, að heldur minna loftnet er notað á meðan.

Þór, TF3GW og Sigurður, TF3WS. (Ljósmyndir: TF2JB).

TF3GW ætlar fljótlega að endurforrita stöðina þannig að “halinn” í sendingu verði minni eða hverfi með öllu. Spurning er jafnframt um að stilla næmni viðtækisins eitthvað niður til þess að hamla sjálfslyklun endurvarpans.

Endurvarpsstöðin er af gerðinni TKR-750 frá Kenwood. Aflgjafinn er af gerðinni PS-1330 frá HQ Power. (Ljósmyndir: TF2JB).

TF2JB

Ný framleiðsla af bílrúðulímmiðum með félagsmerkinu er komin. Þau verða til afgreiðslu í félagsheimilinu frá og með fimmtudagskvöldinu 9. júlí. Verðið er 200 kr/stk eða 500 kr/3 stk.

Ég hef sent nýjasta hefti CQ TF, júní 2009, í tölvupósti til þeirra félagsmanna sem hafa netföng.  Vinsamlegast látið vita ef blaðið hefur ekki borizt ykkur.

Pappírseintök eru í fjölföldun og verða send þeim sem þeirra hafa óskað.

73 – Kiddi, TF3KX / Ritstjóri CQ TF

Eftir að hafa rætt við formann ÍRA ákvað ég að prófa að taka að mér útgáfu næsta heftis CQ TF.  Í blaðinu verður fjallað um aðalfund félagsins, væntanlega TF útileika og ýmislegt annað sem fellur til.  Ef einhverjir hafa hug á að senda efni í blaðið er það vel þegið, en ég set skilafrest við nk. föstudag, 19. júní.

Efni má senda á netfang mitt:  tf3kx@simnet.is.

73 – Kiddi, TF3KX

Á aðalfundi Í.R.A. 23. maí s.l. var samþykkt að stofna til nefndar er geri tillögu um vinnureglur félagsins um hversu langur tími þarf að líða unz stjórnvöld geta endurúthlutað kallmerki, t.d. í kjölfar þess að lykill hljóðnar (þ.e. leyfishafi deyr). Hér geta komið til mörg álitamál. Einn leyfishafi kann t.d. að hafa verið mjög virkur og annar óvirkur, þrátt fyrir að hafa tekið út leyfisbréf og greitt fyrir það en aldrei farið í loftið. Að auki, er þess farið á leit, að nefndin fjalli um mál sem eru skyld umfjöllunarefninu og hún er sammála um að taka til umfjöllunar. Þessir voru kjörnir í nefndina: TF3JA, TF3KX, TF3HP og TF5B.

Í erindisbréfi sem nefndinni var sett í gær (6. júní) er vakin er athygli á tímatakmörkunum, en hún þarf að skila tillögum sínum á aðalfundi 2010. Áhersla er lögð á að tillögur nefndarinnar liggi fyrir í tíma, þannig að þær megi senda til félagsmanna með fundarboði í væntanlegu tölublaði CQ TF sem sent verði út í byrjun aprílmánaðar 2010.

Þar sem ekki var sérstaklega gengið frá því á aðalfundinum, hefur stjórn félagsins falið Jóni Þóroddi Jónssyni TF3JA, að kalla nefndina saman til fyrsta fundar þar sem hún skipti m.a. með sér verkum; komi sér saman um talsmann/formann, ritara o.s.frv.

TF3JB