Nýtt Yagi loftnet fyrir TF3IRA var reist í Skeljanesi þann 2. júlí kl. 15:44. Tengingum og stillingum var lokið í gær, 5. júlí og reyndist standbylgjuhlutfall vera 1.3 eða betra á öllum böndum. Mannvirkið er staðsett í austurhluta portsins í Skeljanesi (við enda gömlu skemmunnar).

Nýja loftnetið er 9 staka Yagi frá OptiBeam, gerð OBDYA9-4, fyrir 17, 15, 12 og 10 metra böndin. Rótor er frá Pro.Sis.Tel, gerð PST2051D. Loftnetið situr í u.þ.b. 11 m. hæð á turni sem Benedikt Sveinsson, TF1T gaf félaginu og Georg Magnússon, TF2LL yfirfór fyrir uppsetningu og smíðaði festingar ásamt  rótorfestingu og frágangi á burðarlegu. Loftnetið er fætt með 1/2“ „hardline“ kóaxkapli frá Andrews sem er um 90 m. að lengd.

Báðir framleiðendur veittu félaginu bestu afsláttarkjör. Nettókostnaður félagssjóðs vegna kaupa á loftneti, balun, rótor og stjórnkassa, „hardline“ kóaxi og stýrikapli nemur 210 þúsund krónum. Þá hafa tekjur af sölu radíódóts félagsins á flóamarkaði 9. október 2022 og 7. maí 2023 verið frádregnar.

Sex félagar báru hitann og þungann af uppsetningu og frágangi í Skeljanesi og fá þeir sérstakar þakkir. Það voru Georg Magnússon TF2LL, Sigurður R. Jakobsson TF3CW, Georg Kulp TF3GZ, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Jónas Bjarnason TF3JB og Þórður Adolfsson, TF3DT sem gaf alla vinnu og kom með vörubíl með krana í tvö skipti, sem reyndist ómetanlegt framlag.

Ennfremur ber að þakka Benedikt Sveinssyni TF3T, Heimi Konráðssyni TF1EIN, Ara Þórólfi Jóhannessyni TF1A, Jóni Guðmundssyni TF3LM og Þorvaldi Bjarnasyni TF3TB fyrir aðstoð í sambandi við verkefnið.

Stjórn ÍRA.

Allt næstum orðið klárt fyrir að hífa. TF3DT búinn að festa tóið og TF3CW og TF2LL festa flutningslínurnar í turninn.
Turninn meir en hálfnaður í lokastöðu.
Nýi turninn var reistur sunnudaginn 2. júlí. Þá var klukkan 15:44.
Að loknu frábæru dagsverki. Sæmundur TF3UA, Georg TF2LL og Sigurður TF3CW. Á myndina vantar Þórð TF3DT, sem var farinn þegar myndin var tekin. Ljósmyndir: TF3JB.

Vegna Covid-19 faraldursins var WRTC 2022 frestað um eitt ár. Leikarnir 2022 verða því haldnir helgina 8.-9. júlí 2023 í borginni Bologna á Ítalíu.

WRTC (World Radiosport Team Championship) er einskonar „heimsmeistarakeppni“ radíóamatöra þar sem lið leyfishafa sem eru skipuð þekktum keppnismönnum koma saman og keppa, hvert við annað, öll frá sömu landfræðilegu staðsetningunni. Keppnin er haldin 4. hvert ár og var fyrsta WRTC keppnin haldin í Seattle í Washington Bandaríkjunum árið 1990.

Strangar reglur gilda um loftnet og búnað. Sérhver keppni er undirbúin og henni stjórnað af svokallaðri „fastanefnd“, sem er skipuð sérhæfðum hópi reyndra leyfishafa (sem hljóta tilnefningu eftir ákveðnum reglum) ásamt fulltrúum þess landsfélags radíóamatöra þar sem keppnin er haldin hverju sinni.

Val á keppendum byggir á þátttöku leyfishafa í einhverjum/öllum 24 tiltekinna alþjóðlegra keppna á tveggja ára undangangandi tímabili. Keppnirnar og þátttaka hefur mismunandi vigt, m.a. eftir keppnisflokkum. Alls keppa 58 tveggja manna lið í WRTC 2022 keppninni árið 2023, sem eru frá Evrópu, N-Ameríku, S-Ameríku, Asíu, Afríku og Eyjaálfu.

Vefslóð: https://wrtc.info/wrtc-2022-competition-rules/
Vefslóð: https://www.wrtc2022.it/en/selection-criteria-7.asp

Öll 63 liðin í WRTC 2022 [árið 2023] eru síðan þátttakendur ásamt radíóamatörum um allan heim í IARU HF Championship keppninni sem fram fer á sama tíma og sömu daga á 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz, SSB og CW.

Vefslóð: http://www.arrl.org/iaru-hf-world-championship

Stjórn ÍRA.

Félagsstöð ÍRA í Skeljanesi mun taka þátt í IARU HF Championship keppninni 8.-9. júlí 2023 á morsi og nota loftnetið sem sést á myndinni, sem er 4 staka OptiBeam net af gerðinni OB4-20OWA.

Næsta námskeið ÍRA til amatörprófs verður haldið í Háskólanum í Reykjavík 25. september til 7. nóvember n.k. Í boði verður hvorttveggja, staðnám og fjarnám.

Námskeiðið er öllum opið og eru ekki gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning. Kennt verður á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum kl. 18:30-21:30. Hægt er að mæta í kennslustofu í HR þegar það hentar og/eða taka þátt yfir netið þegar það hentar.

Námskeiðsgjald er kr. 22.500. Miðað er við að greiðsla hafi borist til félagsins fyrir 3. september n.k. Í framhaldi verður námsefni á prenti póstlagt. Greiðsluupplýsingar: http://www.ira.is/skraning-a-namskeid/ Bent á fræðslustyrki stéttarfélaga og Vinnumálastofnunar til þeirra sem sækja námskeiðið.

Sjá meðfylgjandi vefslóðir á skipulag námskeiðsins, samantekt á vefslóðir með námsefni og kynningarefni um amatör radíó og félagið Íslenskir radíóamatörar (ÍRA).

Fyrirspurnum má beina póstfang félagsins: ira@ira.is

Stjórn ÍRA.

Skipulag: https://tinyurl.com/namsk-haust23
Vefslóðir á námsefni: https://tinyurl.com/namsefni-haust23
Kynningarefni: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/12/Kynning-2022.pdf

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 6. júlí kl. 20-22.

Mathías Hagvaag, QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið, flokka kort og raða í hólfin.

Nýjustu tímarit frá landsfélögum radíóamatöra í nágrannalöndunum liggja frammi. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanesi!

Stjórn ÍRA.

TF3IRA tók þátt í VHF/UHF leikunum um síðustu helgi. Jón Guðmundsson TF3LM virkjaði stöðina sunnudaginn 2. júlí. Mynd: TF3JB.

IARU HF Championship keppnin hefst laugardaginn 8. júlí kl. 12 á hádegi. Þetta er sólarhringskeppni sem lýkur á hádegi sunnudaginn 9. júlí. Keppnin fer samtímis fram á SSB og CW. Skilaboð:

Markmiðið er að hafa sambönd við eins margar stöðvar radíóamatöra eins og frekast er unnt um allan heim á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.

Keppnin fer fram samtímis á SSB og CW. Skilaboð: RS(T)+ITU svæði. (TF = ITU svæðis 17).

Keppnisflokkar eru tveir: Einmenningsstöðvar og fleirmenningsstöðvar. Í flokki einmenningsstöðva eru í boði 3 undirflokkar, þ.e. á tali, morsi og hvoru tveggja. Valið er um þátttöku á háafli, lágafli eða QRP. Í flokki fleirmenningsstöðva með einn sendi, er einn flokkur í boði, þ.e. á tali og morsi (Mixed mode).

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

http://www.arrl.org/iaru-hf-world-championship

Heimskort yfir ITU svæðin í heiminum. Í IARU HF Championship keppninni þarf að gefa upp ITU svæði (ITU zone). Fyrir TF er ITU svæðið nr. 17 og erum við eina DXCC einingin í því svæði. Höfundur korts: EI8IC

Kæru félagar!

Þá eru VHF-UHF leikum 2023 lokið. Þetta var góð skemmtun þar sem gleðin var við völd. Ég þakka öllum sem tóku þátt. Þetta var svooo gaman. Leikjasíðan verður opin í viku, til sunnudagskvölds 9. júlí, svo þátttakendur geti lagað innsláttarvillur í „loggnum“ sínum. Þá munu endanlegar stigatölur liggja fyrir. Úrslitin eru þó ótvíræð og ólíkleg til að breytast.

TF1AM sigrar VHF/UHF leika 2023 örugglega. Hrá stig 174.994 (ef öll sambönd staðfestast). Hann vinnur þetta ekki bara með margföldurum, heldur með mörgum langdrægum samböndum. Hann er með flest stig og flesta margfaldara. Vel gert Andrés!

TF2MSN sigrar í flokki fjölda sambanda. Hann er QSO kóngur VHF/UHF leika 2023 með 215 sambönd. Hann vinnur þetta með því að vera QRV á öllum böndum og vera alltaf að hlusta, alltaf að kalla. Vel gert Óðinn! Sannkallaður QSO þjarkur 😉

TF3EK og TF1JI höfðu lengstu beinu samböndin í leiknum. 223km á bæði 70cm og 2m. Eruð þið ekkert að djóka með þetta ??? Vá!!! TF1AM og TF1JI með næstum 300km á endurvarpa (293km.). Vel gert, það verður varla lengra!!!

6 stöðvar höfðu yfir 100 QSO í leiknum. Heildarfjöldi sambanda í leiknum fóru yfir 700 (skv. tölum þegar þetta er skrifað).

Takk aftur fyrir þátttökuna félagar! Þið eruð flottir radíóamatörar 😏

73 de TF8KY.

P.s.: nokkrar tölur úr kerfinu fylgja hér. Ath. þetta eru alveg glænýjar hráar tölur og eiga eftir að breytast.

Yaesu FT-7900E sendi-/móttökustöð á FM á 144-146 MHz (mest 50W) og 430-440 MHz (mest 45W). Notuð á 2 m. og 70 cm í VHF/UHF leikunum.

VHF/UHF leikarnir voru hálfnaðir í kvöld (laugardag) kl. 18:00. Virkni hefur verið góð og í dag höfðu 17 TF kallmerki verið skráð inn á leikjavefinn.

Félagsstöðin TF3IRA var virkjuð frá Skeljanesi í dag (laugardag) og verður aftur virkjuð á morgun, sunnudag 2. júlí frá kl. 10:00 og fram eftir degi á 2 metrum (FM), 4 metrum (SSB), 6 metrum (SSB) og 70 sentímetrum (FM).

Leikjavefur TF8KY (on-line) er opinn fyrir skráningu alla helgina.

Vefslóð: http://leikar.ira.is/2023/
Reglur: http://www.ira.is/vhf-leikar/

Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt!

Stjórn ÍRA.

Icom IC-7610 SSB/CW/RTTY/PSK31/63/AM/FM sendi-/móttökustöð á HF/50 MHz (mest 100W) – notuð á 6 m. SSB í VHF/UHF leikunum.
Icom IC-7300 SSB/CW/RTTY/AM/FM sendi-/móttökustöð á HF/50/70 MHz (mest 100W) – notuð á 4 m. SSB í VHF/UHF leikunum.

VHF/UHF leikar ÍRA eru um þessa helgi, 30. Júní til 2. júlí. Leikarnir hófust í gær kl. 18.00 og lýkur á morgun, sunnudag 2. júlí kl. 18:00.

Leikjavefur TF8KY (on-line) er opinn fyrir skráningu og verður opinn alla helgina.

Leikjavefur: http://leikar.ira.is/2023/
Keppnisreglur: http://www.ira.is/vhf-leikar/

Vandaðir verðlaunagripir eru í boði fyrir fyrstu þrjú sætin, auk viðurkenningarskjala fyrir QSO fjölda, óháð stigum.

Félagsstöðin TF3IRA verður QRV í dag, laugardag frá kl. 10-16. Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin á sama tíma fyrir félagsmenn og gesti. Það verður heitt á könnunni.

Endilega skráið ykkur til leiks og tökum þátt í leikunum…jafnvel þótt aðeins 1-2 klst. séu til ráðstöfunar!

Stjórn ÍRA.

Diamond X-700HN VHF/UHF loftnet TF3IRA á austurhlið hússins í Skeljanesi. Netið er 7.20 metrar á hæð. Það er samsett úr fjórum “stökkuðum” 5/8 loftnetum á VHF; ávinningur er 9.3 dBi. Á UHF er það samsett úr 11 “stökkuðum” 5/8 loftnetum; ávinningur er 13 dBi. Veðurþol er 40 m/sek. óstagað. Myndin var tekin þegar TF3GZ setti netið upp í ágúst 2020.

Stundin nálgast og byrjar í kvöld 30. júní kl. 18.00!! Spennan magnast!! Þetta verður geggjað!!

Kæru félagar!

Nú styttist í stóru stundina. Frést hefur að menn séu farnir að mæla fjöll, bylgjulengdir og standbylgjur. Öllu er tjaldað til. Háþróaður bylgjuútbreiðsluhugbúnaður er með í spilinu. TF1AM er ekki sáttur við 2. sætið og hefur greinilega í hyggju að taka þetta núna. Og … ætlum við bara að leyfa honum það??? 😲

Mæli með því að vera með. Þetta er góð skemmtun. Endilega hafið bara samband við mig, Óðinn eða einhvern sem hefur verið með ef eitthvað er óljóst.

Þátttakendur eru hvattir til að skrá sig til leiks og prófa kerfið. Endilega logga QSO til prufu. Engar áhyggjur, allir loggar hreinsast rétt fyrir leik.

Slóðin er …http://leikar.ira.is/2023/
Slóðin á keppnisreglur: http://www.ira.is/vhf-leikar/

73 de TF8KY umsjónarmaður.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu félagsblaðsins okkar, CQ TF, 3. tbl. 2023 í dag, 29. 6. 2023.

Glöggir félagar taka hugsanlega eftir því að útgáfudagurinn víkur frá áður auglýstum degi, en lögð var áhersla á að flýta útgáfu blaðsins vegna VHF/UHF leikanna sem eru viku fyrr en áður að þessu sinni.

Blaðið er vistað á stafrænu formi á heimasíðu félagsins og má sækja það af vefslóðinni hér að neðan.

Vefslóð: https://tinyurl.com/CQTF-2023-3

73 – TF3UA, ritstjóri CQ TF.

Kæru félagar!

VHF-UHF-leikahelgin er að renna upp. Þetta verður G E G G J A Ð !! Allir upp með græjurnar, upp á heiðar, fjöll og út í eyjar. Eða bara láta fara vel um sig heima í „sjakknum“.

Frábært tækifæri til að prófa nýja dótið, eða gamla dótið. Það besta er, það þarf ekki að vera með rándýrar græjur. Einföld handstöð frá Kína er allt sem þarf. Oft koma bestu sögurnar frá afrekum með litlum búnaði.

Upptekin(n)? Öll þátttaka bætir leikinn, stök QSO eru betri en engin QSO. Gerum þetta með stæl, sýnum á Facebook hvað við erum virkir radíóamatörar. Allir grobbpóstar úr leiknum kærkomnir.

Eins og venjulega verður “on-line” leikjavefur þar sem þátttakendur skrá sig til leiks. Hægt verður að skrá sig inn í leikinn allan tímann þangað til leikurinn endar. Slóð á leikjavefinn auglýst síðar. Þar verður einnig að finna nánari leiðbeiningar.

Blásið verður til leiks kl. 18 föstudaginn 30. júní og leikurinn stendur til kl. 18 sunnudaginn 2. júlí.

73 de TF8KY.

Á myndinni má sjá verðlaunagripi og viðurkenningar sem veittar voru í VHF/UHF leikunum í fyrra (2022).

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 29. júní kl. 20-22 fyrir félagsmenn og gesti.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA á annarri hæð verður opið ásamt QSL herbergi. QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólf félagsins og flokka innkomin kort. Nýjustu tímarit landsfélaga radíóamatöra í nágrannalöndunum liggja frammi. Kaffiveitingar.

Ath. nokkuð hefur bæst við af radíódóti – fyrstur kemur, fyrstur fær.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.