Andrés Þórarinsson, TF1AM mætti í Skeljanes 23. mars með erindið „Íslensku radíóleikarnir; hagnýt ráð“.

Hann flutti okkur frábært erindi þar sem hann útskýrði og fór yfir reglur árlegra fjarskiptaviðburða félagsins (páskaleika, VHF/UHF leika og TF útileika). Inntak erindisins var að hvetja félagana til að vera með sem t.d. megi auðveldlega gera með handstöð heima í stofu, jafnvel þótt menn hafi takmarkaðan tíma; aðalatriðið sé að vera með.

Andrés sagði okkur frá reynslu sinni af að taka í þessum viðburðum undanfarin ár, þar sem hann hefur yfirleitt verið í einu af efstu sætunum. Hann fjallaði um og útskýrði vel eigin tæki og búnað, sem eru m.a. stefnuvirk loftnet á VHF og UHF og vírnet á lægri böndunum. Hann útskýrði hve auðvelt er að nota GSM símann sem „Portable Wi-Fi Hotspot“ og þar með tengja fartölvu við netið og skrá sambönd beint inn á leikjavefi þeirra TF8KY og TF3EK.

Hann sýndi okkur líka „góða“ staði til fjarskipta á Reykjanesskaganum, stór-Reykjavíkursvæðinu, Vesturlandi og Suðurlandi – sem hann hefur notað þegar hann hefur verið á ferðinni í bifreið sinni á keppnistímanum og kryddaði frásögnina með skemmtilegum sögum af sjálfum sér í mismunandi veðrum frá mismunandi stöðum. Í eitt skipti tók það hann t.d. þrjár klukkustundir að setja upp loftnet og gera sig kláran, en náði aðeins örfáum samböndum. En eins og hann sagði: „Maður lærir af slíku!

Erindið tók um klukkustund í flutningi og var farið yfir margar glærur með texta og ljósmyndum. Mikið var spurt og Andrés svaraði fyrirspurnum strax og eftir erindið var áfram rætt yfir kaffinu. Sérstakar þakkir til Andrésar Þórarinssonar, TF1AM fyrir vel flutt, áhugavert og fróðlegt erindi í máli og myndum.

Alls mættu 32 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta og milda síðvetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík þegar vorið nálgast og þar með páskaleikarnir 7.-9. apríl n.k.

Stjórn ÍRA.

Andrés útskýrði vel hvernig ná má góðum árangri með réttri staðsetningu.
Farið yfir reglur leikanna. M.a. hvaða bönd skipta mestu málið í hverjum af fjarskiptaviðburðunum þremur.
Eftir flutning erindisins svaraði Andrés fjölmörgum spurningum. Í sal frá vinstri: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Georg Kulp TF3GZ, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Einar Kjartansson TF3EK og Óskar Sverrisson TF3DC.
Einar Kjartansson TF3EK, Benedikt Sveinsson TF3T, Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK, Gísli Guðnason (gestur), Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Andrés Þórarinsson TF1AM og Einar Kjartansson TF3EK.
Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK og Georg Kulp TF3GZ.
Kristján Benediktsson TF3KB, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY og Andrés Þórarinsson TF1AM. Ljósmyndir: TF3JB.
Glæsilegir verðlaunagripir eru í boði fyrir fyrstu þrjú sætin.

Kæru félagar!

Nú er komið að því sem allir hafa verið að bíða eftir. Það eru að koma Páskar. Hí, hí… Það þýðir bara eitt… PÁSKALEIKAR !!!

Spenningurinn að verða óbærilegur. Kjaftasögur á kreiki um að einhverjir radíóamatörar séu að undirbúa stórsókn í næstu leikum. Nú þurfa allir sem vettlingi geta valdið að gera þeim þetta ekki auðvelt. Allir upp með græjurnar, upp á heiðar, fjöll og út í eyjar. Eða bara láta fara vel um sig heima í „sjakknum“. Frábært tækifæri til að prófa nýja dótið, eða gamla dótið. Það besta er, það þarf ekki að vera með rándýrar græjur. Einföld handstöð frá Kína er allt sem þarf til að vera með. Oft koma bestu sögurnar frá afrekum með litlum búnaði.

Ertu upptekin(n) þessa helgi? Það þarf ekkert endilega að vera „all-in“ alla helgina. Endilega hoppa inn á tíðnirnar þegar tími gefst. Þetta verður B A R A gaman!

Endurvarpar halda áfram að vera með. Endurvarpar koma sem sér band í leikinn. Þetta kryddar leikinn, eykur möguleika handstöðva, örvar notkun endurvarpa og við lærum betur á útbreiðslu þeirra.

Gerum þetta með stæl, sýnum á Facebook hvað við erum virkir amatörar. Allir grobbpóstar úr leiknum kærkomnir. Pósta, pósta og pósta meira.

Eins og venjulega verður “online” leikjavefur þar sem þátttakendur skrá sig til leiks. Hægt verður að skrá sig inn í leikinn allan tímann þangað til leikurinn endar. Slóðin á leikjavefinn er ….

http://leikar.ira.is/paskar2023  Endilega kíkið á vefinn, lesið leiðbeiningar og skráið ykkur til leiks. Þetta er ekkert mál. Svo eru allir til í að hjálpa. Óðinn, TF2MSN hefur verið duglegur að hjálpa eins og svo oft áður.

Blásið verður til leiks kl. 18:00 föstudaginn 7. apríl og leikurinn stendur til kl. 18:00 sunnudaginn 9. apríl. Hittumst í loftinu…á 23cm, 70cm, 2m, 4m, 6m, 80m og síðast en ekki síst – endurvarpar.

Muna að endurnýja leyfið á 4m ef það er útrunnið. Bara eitt Email á Fjarskiptastofu: hrh@fjarskiptastofa.is

73, TF8KY,
umsjónarmaður Páskaleika ÍRA

Borð A í fjarskiptaaðstöðu ÍRA í Skeljanesi. Búnaður: ICOM IC-7610 100W CW/SSB sendi-/móttökustöð á HF og 50 MHz.

Vefsíðan QRZ.COM er stærsti og vinsælasti gagnagrunnurinn á netinu sem hýsir upplýsingar um kallmerki radíóamatöra. Þar má finna upplýsingar um kallmerki radíóamatöra hvar sem er í heiminum, þ.á.m. kallmerki ÍRA. Grunnurinn er mikið notaður af þeim sem t.d. eru áhugasamir um DX fjarskipti.

Upplýsingar um kallmerki félagsins, TF3IRA, TF3W, TF3HQ, TF3WARD og TF3YOTA voru nýlega uppfærðar, en hvert þessara kallmerkja hefur sérstaka vefsíðu á QRZ.COM. Verkefnið var búið að bíða nokkuð lengi en hefur nú væntanlega verið fært í frambærilegt horf.

Mest magn upplýsinga er á vefsíðu TF3IRA, m.a. um félagið sjálft, um fjarskiptaaðstöðu og loftnet, auk þess sem upplýsingar fylgja um notkun hvers kallmerkis félagsins, t.d. að TF3W er notað í alþjóðlegum keppnum o.s.frv. Ennfremur fylgja myndir úr félagsstarfinu á vefsíðu hvers kallmerkis.

Vel er þegið ef félagsmenn koma með ábendingar um eitthvað sem betur má fara og/eða til dæmis efni sem hefur gleymst og má bæta við. Vefslóð á QRZ er: www.qrz.com

Stjórn ÍRA.

Fyrstu upplýsingar um hvert kallmerki hafa m.a. verið samræmdar.

CQ World Wide WPX keppnin, SSB-hluti verður haldin 25.-26. mars.

Þetta er 2 sólarhringa keppni sem fram fer á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz og er ein af stóru SSB keppnum ársins.

Markmiðið er að hafa sambönd við kallmerki með eins mörgum mismunandi forskeytum og frekast er unnt (VK1, VK2 o.s.frv.). QSO á milli meginlanda (e. continents) á 28, 21 og 14 MHz gefa 3 stig en 6 stig á 7, 3.5 og 1.8 MHz. Hvert nýtt forskeyti gildir til punkta á hverju bandi, en telst til margfaldara einu sinni – burtséð frá fjölda banda.

G-leyfishafar geta sótt um heimild til Fjarskiptastofu til notkunar á 1850-1900 kHz á fullu afli (1kW) í keppninni. Póstfang: hrh@fjarskiptastofa.is

Í keppninni í fyrra (2022) var gögnum skilað inn fyrir átta TF kallmerki: TF1AM, TF2MSN, TF3DC, TF3JB, TF3SG, TF3T, TF3W og TF8KY.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

https://www.cqwpx.com/rules.htm

Heiminum er skipt í 40 CQ svæði. TF er í svæði 40 ásamt JW, JX, OX og R1FJ (Franz Josef Land). Höfundur korts: EI8IC.
Háskólinn í Reykjavík er við Menntveg 1, 102 Reykjavík.

ÍRA hefur ákveðið að kanna áhuga á þátttöku í námskeiði til amatörprófs sem verður í boði, bæði í staðnámi og fjarnámi í Háskólanum í Reykjavík.

Námskeiðið hefst 27. mars n.k. og lýkur 23. maí. Stefnt er að prófi Fjarskiptastofu til amatörleyfis í HR laugardaginn 3. júní.

Námskeiðið er öllum opið og verður kennt á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum kl. 18:30-21:30. Hægt er að mæta í kennslustofu í HR þegar það hentar og taka þátt yfir netið þegar það hentar. Námskeiðsgjald er 22.500 krónur.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang hjá ira@ira.is  Ath. að skráningu fylgir engin skuldbinding – en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda nemenda.

Fyrirspurnum má beina á sama tölvupóstfang.

Skráning verður opin til föstudags 24. mars n.k. Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að lágmarksþátttaka fáist.

Reykjavík 19. maí 2023,

Stjórn ÍRA.

Kynningarefni um amatör radíó: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/12/Kynning-2022.pdf
Skipulag námskeiðs vorið 2023:  http://www.ira.is/namskeid/
Vefslóðir á námsefni vorið 2023:  http://www.ira.is/vefslodir-a-namsefni-vorid-2023/

Mynd úr kennslustofu HR á námskeiði ÍRA til amatörprófs 2022. Þá voru alls 19 skráðir; þar af voru 10 tengdir yfir netið í fjarnámi.
Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram. Fimmtudaginn 23. mars er tvennt í boði í Skeljanesi.
 
Kl. 17:00. Námskeiðið „Fyrstu skrefin“.
Óskar Sverrisson, TF3DC leiðbeinir. Áhugasamir skrái sig tímanlega hjá Óskari í síma 862-3151.
 
Kl. 20:30. Erindið „Íslensku radíóleikarnir; hagnýt ráð“.
Andrés Þórarinsson, TF1AM flytur.

Framundan er fyrsti fjarskiptaviðburður ÍRA á árinu 2023. Það eru Páskaleikarnir sem verða haldnir 7.-9. apríl n.k. Andrés ætlar að mæta í félagsaðstöðuna og segja okkur frá þátttöku sinni í þeim í máli og myndum og gefa hagnýt ráð. Hann mun einnig fjalla um þátttöku í VHF/UHF leikunum og ef tími gefst, um þátttöku í TF útileikunum.

Félagsmenn eru hvattir til að láta þessa viðburði ekki framhjá sér fara. Vandaðar kaffiveitingar.
 
Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.


“Fyrstu skrefin” eru hugsuð jafnt fyrir nýja sem eldri leyfishafa sem óska eftir tilsögn/leiðbeiningum um hvernig best er að standa að því að fara í loftið. Um er að ræða einkatíma með reyndum leyfishafa sem kynnir grundvallaratriði og ríkjandi hefðir. Markmiðið er að leyfishafi öðlist öryggi í fjarskiptum. Rætt er um áhugamálið og spurningum svarað og að því búnu farið í loftið í fjarskiptaherbergi félagsins. Námskeiðið er einnig hugsað fyrir þá sem t.d. vilja komast í loftið á FT8, RTTY o.fl. en vantar e.t.v. leiðbeiningar. Tímasetning og yfirferð er samkvæmt samráði félagsmanns og leiðbeinanda – en ef þörf er á að menn hittist aftur, er það í boði. Skráning hjá Óskari Sverrissyni, TF3DC í síma 862-3151 eða með tölvupósti; oskarsv hjá internet.is

Ritstjóri vekur athygli á að enn er hægt að senda efni í næsta tölublað CQ TF, eða fram á fimmtudagskvöld 24. mars.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Ath. að nýjung er, að félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu. Netfang ritstjóra: saemi@hi.is

Fyrirfram þakkir og 73,

TF3UA, ritstjóri CQ TF.

Jón G. Guðmundsson TF3LM gerir tilraunir með VHF loftnet.

Jón G. Guðmundsson, TF3LM mætti í Skeljanes 18. mars með erindið: „Tilraunir með útgeislun frá VHF loftnetum“.

Hann sagði frá reynslu sinni af að nota VHF stöðvar, bæði í bílum og heimahúsum. Hann vísaði m.a. í tilraunir þeirra Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A sem leiddu til erindisflutnings í Skeljanesi og greinaskrifa í félagsritinu CQ TF undanfarin ár.

Jón fjallaði m.a. um stefnuvirkni á VHF frá bílum og hvernig má nýta hana ef áhugi er fyrir hendi. Hann fjallaði einnig um mismunandi tegundir bílloftneta, kosti þeirra og galla. Einnig ræddi hann um áhugavert forrit á heimasíðu kanadísks radíóamatörs, VE2DBE þar sem hægt er að setja inn upplýsingar og fá fram drægni miðað við gefnar forsendur.

Hann sýndi ennfremur hve þægilegt er að nota SDR viðtækið yfir netið sem vinnur á 24-1800 MHZ þegar gerðar eru tilraunir. SDR viðtækið er staðsett í Perlunni í Öskjuhlíð. Hann benti m.a. á grein sem hann skrifaði um nytsemi viðtækisins á 4. tbl. CQ TF 2021. Loks kynnti hann og ræddi forritið XNEC2 sem er hermiforrit fyrir loftnet og hægt er að nálgast frítt á netinu.

Þakkir til Jóns fyrir áhugavert og vel heppnað erindi. Alls mættu 9 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þennan sólríka laugardag í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.
Jón sýndi m.a. þá miklu möguleika sem viðtækið yfir netið í Perlunni (24-1800 MHz) býr yfir fyrir áhugamenn um fjarskipti á VHF (og hærra í tíðnisviðinu) .
Jón heldur á handstöð við glugga í salnum í Skeljanesi og lyklar endurvarpann TF1RPB í Bláfjöllum. Fylgst er með merkinu í viðtækinu yfir netið í Perlunni. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Kristján Benediktsson TF3KB og Jón G. Guðmundsson TF3LM.
Eftir erindið fengu menn sér kaffi. Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Mathías Hagvaag TF3MH, Ægir Þór Ólafsson TF2CT og Benedikt Sveinsson TF3T. Ljósmyndir: TF3JB.

Ný vetrardagskrá ÍRA heldur áfram á fullu.

Á morgun, laugardag 18. mars mætir Jón G. Guðmundsson, TF3LM í Skeljanes með erindið: „Tilraunir með útgeislun frá VHF loftnetum“.

Jón segir frá niðurstöðum mælinga sem hann hefur gert á mismunandi tegundum VHF loftneta undanfarin misseri, bæði frá bílum og heimahúsum.

Í tilraunum sínum, hefur hann m.a. notast við viðtæki Karls Georgs, TF3CZ yfir netið sem er staðsett í Perlunni í Öskjuhlíð í Reykjavík (sem þekur tíðnisviðið 24-1800 MHz).

Húsið opnar kl. 13:00 og erindið hefst stundvíslega kl. 13:30. Veglegar kaffiveitingar.

Félagsmenn fjölmennið!

Stjórn ÍRA.

Jón G. Guðmundsson TF3LM virkjaði TF3IRA í VHF/UHF leikunum 2022. Mathías Hagvaag TF3MH fylgist með. Ljósmynd: TF3JB.
Frá erindi Sigurðar Harðarsonar TF3WS í Skeljanesi 16. mars.

Sigurður Harðarson, TF3WS heimsótti okkur í Skeljanes 16. mars með erindið: „Kynning á íslenskri framleiðslu útvarpsviðtækja“. Með Sigurði kom Guðmundur Sigurðsson, sem safnar og hefur gert upp mikið magn af eldri útvarpsviðtækjum.

Sigurður rakti vel og útskýrði framleiðslu viðtækjanna Suðra, Vestra, Austra, Sumra og Sindra hjá Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins, sem starfaði frá 1933-1949, þegar erfitt var um innflutning á vörum vegna kreppunnar og seinni heimsstyrjaldarinnar.  Að jafnaði unnu 3–5 menn að þessari smíði. Þegar Viðtækjasmiðjan hætti störfum var búið að framleiða nálægt 2000 viðtækjum eftir því sem næst verður komist.

Sigurður hefur sett sig vel inn í starfsemi Viðtækjasmiðjunnar og hvernig framleiðslan þróaðist. Lifandi frásögn hans var afar áhugaverð og fróðleg. Hann kryddaði erindi sitt með mörgum skemmtilegum sögum sem tengdust framleiðslunni og notkun tækjanna hjá almenningi um allt land, þegar viðtækin kostuðu sem nam þriggja mánaða verkamannalaunum.

Þeir Sigurður og Guðmundur mættu með sýnishorn af íslensku viðtækjunum sem félagsmenn fengu að skoða eftir erindið og þeir félagar leystu vel og greiðlega úr fjölda spurninga.

Sigurður færði ÍRA eintak af vönduðum 20 blaðsíðna bæklingi sem hann hefur sett saman um íslensku úrvarpstækin og sem mun liggja frammi í félagsaðstöðu félagsins á fimmtudagskvöldum.

Sérstakar þakkir til Sigurðar og Guðmundar fyrir frábært fimmtudagskvöld. Þeir félagar fylltu húsið því alls mættu 43 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Viðtækjasmiðjan framleidi Vestra með bæði lang og miðbylgju. Þannig Vestrar hafa fundist og eru til á söfnum víða á landinu. Vestrarnir heita því, Vestri L3 og Vestri ML. Vestrinn, ML er með aukarofa umfram hinn til að skipta milli bylgjusviða.
Þorsteinn Gíslason á Seyðisfirði varð fyrstur Íslendinga til að ná útvarpssendingum frá Þýskalandi, London og París á heimasmíðað útvarp. Tækið er ennþá til og er í vörslu Skógasafns. Þess má geta, að Þorsteinn var radíóamatör með kallmerkið TF6GI og heiðursfélagi ÍRA.
Eftir flutning erindisins. Fjærst: Sigurður Harðarson TF3WS, Óskar Sverrisson TF3DC, Guðmundur Sigurðsson (gestur) og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE. Sitjandi: Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Hans Konrad Kristjánsson TF3FG. Næst myndavél: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Mathías Hagvaag TF3MH og Georg Kulp TF3GZ.
Sigurður Harðarson TF3WS, Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE og Haukur Konráðsson TF3HK. Fjær: Benedikt Sveinsson TF3T.
Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Bernhard M. Svavarsson TF3BS, Örn Gunnarsson (gestur), Eiður Kristinn Magnússon TF1EM og Njáll H. Hilmarsson TF3NH.
Þórarinn Benedikz TF3TZ, Ágúst H. Bjarnason TF3OM og Kristján Benediktsson TF3KB.
Mathías Hagvaag TF3MH, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Pier Kaspersma TF3PKN, Benedikt Sveinsson TF3T og Sigmundur Karlsson TF3VE.
Frá afhendingu bæklings Sigurðar um íslensku útvarpstækin: Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA, Guðmundur Sigurðsson, og Sigurður Harðarson TF3WS. Ljósmynd: TF3DC.
Mynd af forsíðu 20 blaðsíðna bæklings sem Sigurður Harðarson TF3WS hefur sett saman um íslensku úrvarpstækin. Hann afhendi ÍRA formlega eintak til eignar á fundinum. Ljósmyndir: TF3DC og TF3JB.

Maidenhead Mayhem Sprint keppnin fer fram 18.-19. mars; kl. 00:00 á laugardag til kl. 23:59 á sunnudag. CW, SSB og stafrænar teg. útgeislunar á 160, 80, 40, 20, 15 og 10m. https://w9et.com/rules.html

BARTG HF RTTY keppnin fer fram 18.-20. mars; kl. 02:00 á laugardag til kl. 01:59Z á mánudag. RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10m. http://www.bartg.org.uk/

Russian DX keppnin fer fram 18.-19. mars; kl. 12.00 á laugardag til kl. 12.00 á sunnudag á CW og SSB á 160, 80, 40, 20, 15 og 10m. Ekki er vitað til annars en að keppnin verði haldin, en óvíst er um þátttöku þess vegna stríðsátaka Rússa í Úkraínu. http://www.rdxc.org/asp/pages/rulesg.asp

F9AA Cup keppnin fer fram 18.-19. mars; kl. 12:00 á laugardag til kl 12:00 á sunnudag á SSB á 80, 40, 20, 15 og 10m. https://www.site.urc.asso.fr/index.php/om-yl/concours/trophee-f9aa

All Africa International DX keppnin fer fram 8.-19. mars; kl. 12:00 á laugardag til kl. 12:00 á sunnudag á 160, 80, 40, 20, 15 og 10m á CW, SSB og RTTY. http://www.sarl.org.za/public/contests/contestrules.asp

Með ósk um gott gengi,

Stjórn ÍRA.

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að kanna áhuga á þátttöku í námskeiði til amatörprófs sem verður í boði, bæði í stað- og fjarnámi í Háskólanum í Reykjavík.

Námskeiðið hefst 27. mars n.k. og lýkur með prófi Fjarskiptastofu 27. maí. Kennt verður á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum kl. 18:30-21:30. Námskeiðið er öllum opið og eru ekki gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning. Námskeiðsgjald er 22.500 krónur.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang hjá ira@ira.is  Ath. að skráningu fylgir engin skuldbinding – en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda nemenda.

Fyrirspurnum má beina á sama tölvupóstfang.

Skráning verður opin til 24. mars n.k. Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að lágmarksþátttaka fáist.

Reykjavík 14. maí 2023,

Stjórn ÍRA.

Kynningarefni: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/12/Kynning-2022.pdf
Skipulag námskeiðs:  http://www.ira.is/namskeid/
Vefslóðir á námsefni:  http://www.ira.is/vefslodir-a-namsefni-vorid-2023/