Georg Kulp, TF3GZ gerði góða ferð í Skeljanes í dag, 6. september.

Verkefni dagsins var að festa upp á ný fæðilínur og stýrikapla fyrir M2  VHF og UHF Yagi loftnet félagsins, formagnarana frá SSB-Electronic og Yaesu G-5400B rótorinn.

Þessir kaplar hafa samám saman verið að losna úr festingunum við þakrennuna á húsinu og lágu undir skemmdum ef ekkert hefði verið að gert, en flutningslínurnar voru settar upp fyrir 12 árum þannig að í raun hafa festingarnar staðið sig vel.

Georg mætti með stóran stiga á staðinn síðdegis í dag. Veður var eins og best verður á kostið, logn og 14°C hiti og tókst að ljúka verkefninu skömmu fyrir kl. 18. Í leiðinni var skipt um plastpoka sem er utan um LNB á gervihnattadiski félagsins til bráðabirgða, en þessi hluti búnaðarins verður uppfærður fljótlega.

Bestu þakkir til Georgs fyrir vel unnið verk.

Stjórn ÍRA.

Verkið u.þ.b. hálfnað. Kaplarnir voru skoðaðir gaumgæfilega áður en þeir voru festir upp á ný og var ekki annað að sjá en þeir væru óskemmdir.
Verkið nánast í höfn. Sjá má á myndinni hvar kaplarnir eru teknir inn í fjarskiptaherbergi TF3IRA á hæðinni fyrir ofan.
Í leiðinni var skipt um plastpoka sem er til verndar LNB búnaðinum við gervihnattadiskinn. Ljósmyndir: TF3JB.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti kl. 20-22 fimmtudaginn 8. september.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og flokka innkomin kort.

Nýjustu tímaritin liggja frammi. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fundarsal í Skeljanesi.
Góðir gestir í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi 1. september. Alex Senchurov UT4EK, Mathías Hagvaag TF3MH og Roman Bratchyk, UT7UA. Ljósmynd: TF3JB.

Fjórði fundur í stjórn ÍRA 2022/23 var haldinn í Skeljanesi 1. september. Á fundinum var m.a. gerð samþykkt um kaup á nýju loftneti og rótor fyrir félagsstöðina TF3IRA. Lofnetið er frá OptiBeam, gerð OBDYA9-A fyrir fjögur bönd, 17, 15, 12 og 10 metra. Rótorinn er frá Pro.Sis.Tel. af gerð PST-2501D.

Fram kom á fundinum, að húseigandi hefur staðfest fyrri heimild til uppsetningar á turni fyrir nýtt loftnet í austurhluta portsins í Skeljanesi (við enda gömlu skemmunnar). Notaður verður 12 metra hár turn sem félagið fékk nýlega að gjöf frá Benedikt Sveinssyni, TF3T.

Báðir framleiðendur veita okkur bestu afsláttarkjör. Heildarverð á loftneti, balun, rótor og stýrikapli er 450 þúsund krónur komið til landsins. ÍRA mun á móti selja búnað í eigu félagsins, m.a. á flóamarkaði sem haldinn verður n.k. sunnudag í Skeljanesi. Reiknað er með að nettókostnaður félagssjóðs muni nema um 200 þúsund krónum.

Þetta fyrirkomulag tryggir áframhaldandi nýtingu á Yagi loftneti félagsins á 20 metrum, auk þess sem við bætist nýtt Yagi loftnet fyrir 17, 15, 12 og 10 metrana. Fyrr á árinu var lokið við uppsetningu loftnets fyrir 160 metra og í framhaldi verður sett upp vírloftnet fyrir 80 metrana (sem keypt var 2019). Stefnt er að því að koma nýjum loftnetum upp fyrir veturinn.

Áætlun um heildaruppbyggingu félagsstöðvarinnar verður síðan til kynningar á sérstökum fundi í félagsaðstöðunni í október. Fundurinn er á dagskrá sem hluti af nýrri vetraráætlun fyrir tímabilið október-desember n.k. sem kynnt verður fljótlega.

Stjórn ÍRA.

 OptiBeam OBDYA9-A er 9 elementa Yagi loftnet fyrir 17/15/12/10 metra. Ávinningur: 12,4 / 12,67 / 12,95 / 13,04 dBi. Þyngd er 28 kg og bómulengd er 5.10 metrar. Ljósmynd: OptiBeam.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA var fulltrúi okkar í sumarbúðum IARU Svæðis 1 sem haldnar voru í borginni Karlovac í Króatíu 6.-13. ágúst s.l. Um var að ræða 10. sumarbúðir  „Youngsters On The Air“ verkefnisins.

Í lok dvalar var fulltrúum 25 landsfélaga IARU Svæðis 1 sem viðstaddir voru í Karlovac, afhent vegleg gjöf til ungmennastarfs í löndunum, Dell Vostro 15 3510 ferðatölva.

Elín tók við gjöfinni fyrir hönd ÍRA. Það er systurfélag okkar í Króatíu, Hrvatski Radioamaterski Savez (HRS) sem afhenti gjöfina og er formlega skráð sem gefandi. Elín mætti síðan á stjórnarfund í ÍRA þann 1. september með tölvuna ásamt sérstöku gjafabréfi HRS til félagsins.

Stjórn ÍRA samþykkti sérstakar þakkir til HRS fyrir veglega gjöf til ungmennastarfs félagsins á fundi sínum þann 1. september. Ennfremur voru samþykktar sérstakar þakkir til Elínar fyrir að takast á hendur ferðalagið til Króatíu án aðkomu félagssjóðs.

.

Skeljanesi 1. september. Elín Sigurðardóttir TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA heldur á nýju Dell Vostro fartölvunni. Ljósmynd: TF3JB.

Benedikt Sveinsson, TF3T gaf félaginu 12 metra háan loftnetsturn þann 22. ágúst. Um er að ræða fjórar þrístrendar þriggja metra áleiningar með sæti fyrir rótor og sérsmíðuðu botnstykki.

Georg Kulp, TF3GZ hafði verið í sambandi við Benedikt og varð úr að þeir fóru upp í Álfsnes eftir vinnu mánudaginn 22. ágúst, skrúfuðu turninn í sundur og flutti Georg einingarnar í Skeljanes.

Benedikt ætlar að smíða nýja botneiningu á næstunni og hafa þeir Georg Magnússon, TF2LL verið í sambandi um verkefnið.

Stjórn ÍRA þakkar Benedikt Sveinssyni, TF3T fyrir frábært framlag í þágu félagsins.

.

Georg Kulp TF3GZ kominn í Skeljanes með farminn 22. ágúst.
Tekið til við að taka einingarnar af kerrunni.
Georg raðar einingunum upp við húsið í Skeljanesi þar sem þær verða geymdar um sinn. Ljósmyndir: TF3JB.

Næsta tölublað CQ TF, 4. tölublað ársins kemur út 2. október n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu.

Skilafrestur efnis er til 18. september. Netfang: tf3sb@ox.is

Félagskveðjur og 73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A var með frábæra kynningu á Es’hail 2 / QO-100 gervitunglinu í Skeljanesi laugardaginn 3. september.

Hann kom með eigin ferðastöð sem var sett upp innanhúss og sýndi okkur hve einfalt það er að hafa fjarskipti um tunglið, en 90 cm diskloftneti var komið upp á standi við glugga (í austurhluta salarins) og fljótlega voru merkin frá QO-100 farin að heyrast.

Hann flutti síðan fróðlegan inngang um búnaðinn og reynslu sína af að stunda fjarskipti um tunglið, en hann er nýkominn úr hringferð um landið þar sem hann hafði yfir 1000 QSO með þeim búnaði sem hann kom með í Skeljanes. Hann kynnti m.a. það nýjasta, sem er DXTO M4-EX transverter fyrir QO-100 gervitunglið, en hann fékk sýningareintakið lánað á Ham Radio sýningunni í Friedrichshafen fyrr í sumar.

Eftir kaffihlé færðu menn sig upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA þar Kenwood TS-2000 stöð félagsins var sett í loftið um QO-100 gervitunglið (sjá ljósmyndir).

Bestu þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir afar áhugaverðan, fróðlegan og skemmtilegan laugardag í Skeljanesi. Alls mættu 12 félagsmenn og 1 gestur á kynninguna þennan sólríka síðsumardag í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

QO-100 (OSCAR 100) er fyrsta amatörgervitunglið á staðbraut (e. geostationary) sem þýðir að það þarf engan stýribúnað því stefnan er alltaf sú sama, sem einfaldar mjög uppsetningu búnaðar. Að sama skapi eru móttöku- og senditíðnir alltaf þær sömu. Sendingar inn á tunglið eru á 2400 MHz (e. uplink) og hlustunin er á 10450 MHz (e. downlink).

Ari kynnti m.a. Adalm-Pluto SDR 10 mW sendi-/viðtækið sem er fyrir 60 MHz til 3,8 GHz. Margir nota það til til fjarskipta um QO-100. Þá er notaður RF magnari sem gefur út allt að 20W á 2,4 GHz. 
Ari fjallaði ítarlega um mismunandi gerðir LNB (Low-Noise Block downconverter) sem er hluti af loftnetinu og er staðsett fyrir framan diskinn.
Aðspurður, sagði Ari sagði okkur m.a. frá hvaða aðferð hann notaði þegar hann fékk á sig þyrpingu (e. pile-up) á ferð um landið í síðasta mánuði með QO-100 ferðastöðina.
Ari sýndi okkur m.a. DXTO M4-EX transverter’inn, en tækið vinnur sjálfstætt og breytir merkjum á 28 MHz upp á 2.4 GHz og frá 10.5 GHz niður á 28 MHz – þannig að tölva er óþörf.
Þegar hér var komð sögu var búið að “finna” QO-100 og merkin tekin að streyma inn á fartölvuna hjá Ara.
Eftir kaffihlé var haldið upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Á myndinni er Ari að stilla inn merkin frá QO-100 á Kenwood TS-2000 stöð félagsins.
Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA tók nokkur sambönd um QO-100. Hans Konrad Kristjánsson TF3FG fylgist með.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG tók líka nokkur sambönd um QO-100 gervitunglið. Ljósmyndir: TF3JB.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A verður með kynningu á Es’hail 2 / QO-100 gervitunglinu í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi laugardaginn 3. september kl. 14-17. Inntak kynningarinnar verður:

  • Hvernig setja má upp búnað til fjarskipta um QO-100 á ódýran hátt.
  • Hvernig koma má upp búnaði til viðtöku merkja frá QO-100 fyrir innan við 10 þús. krónur.

Ari mun m.a. setja upp búnað í salnum í Skeljanesi og sýna okkur hve auðvelt er að hafa sambönd með einföldum búnaði gegnum loftnet innandyra.

Hann kemur með það nýjasta, sem er DXTO M4-EX transverter fyrir QO-100 gervitunglið, en hann fékk sýningareintakið lánað í sumar á Ham Radio sýningunni í Friedrichshafen. Tækið vinnur sjálfstætt og breytir merkjum á 28 MHz upp á 2.4 GHz og frá 10.5 GHz niður á 28 MHz – þannig að tölva er óþörf.

Ari er nýlega kominn úr hringferð um Ísland með ferðabúnað sinn og hafði fjölda sambanda um QO-100 tunglið frá flestum reitum á landinu.

Hvetjum félagsmenn að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara. Veglegar kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.

TF1A tekur við DXTO M4-EX transverter‘num á Ham Radio sýningunni í Friedrichshafen 25. júní s.l
Daggeir Pálsson TF7DHP og Ari Þórólfur Jóhannessyni TF1A við QO-100 ferðaloftnet Ara þegar hann virkjaði gervitunglið frá hjólhýsi sínu á Akureyri í síðasta mánuði.
Mynd af tíðniskipan (bandplani) fyrir QO-100 sem verður í boði litprentað í Skeljanesi á laugardag.

Félagið Íslenskir radíóamatörar, ÍRA var stofnað í Reykjavík 14. ágúst 1946. 75 ár voru liðin frá stofnun þess í fyrra (2021). Vegna Covid-19 faraldursins var veisluhöldum frestað þar til sunnudaginn 28. ágúst.

Þann dag var opið hús í Skeljanesi og var félagsmönnum og fjölskyldum þeirra boðið að líta við og þiggja heitt súkkulaði, kaffi og gosdrykki, íslenskar pönnukökur og vöfflur með þeyttum rjóma og marsípan-rjómatertu, auk fleira góðgætis.

Alls mættu 57 félagsmenn og gestir þennan ágæta sunnudag í hæglætisveðri í vesturbænum í Reykjavík. Að auki barst mikill fjöldi af kveðjum frá félagsmönnum sem annaðhvort voru staddir erlendis eða í sumarfríi innanlands, auk samstarfsaðila.

Þakkir til allra, og sérstaklega til stjórnarmanna ÍRA sem önnuðust allan undirbúning og framreiðslu þjóðlegra veitinga, þeir Jón Björnsson TF3PW, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Georg Magnússon TF2LL og Jón Svavarsson, TF3JON sem lagaði heitt súkkulaði, einstakt að gæðum. Síðast en ekki síst, þakkir til þeirra TF3JON, TF3KB, TF3KX og TF3PW fyrir ljósmyndir.

Nánar verður fjallað um viðburðinn í næsta hefti félagsblaðsins CQ TF, sem kemur út 2. október.

Stjórn ÍRA.

Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA bauð gestum að gjöra svo vel þegar hann skar fyrstu sneiðina af tertunni. Ljósmynd: TF3JON.
Mathías Hagvaag TF3MH, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Sigurður Elíasson TF3-044 og Eiður Kristinn Magnússon TF1EM. Ljósmynd: TF3KX.
Ralf Doerendahl HB9GKR, Peter Ens HB9RYV, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Sigurður Smári Hreinsson TF8SM. Ljósmynd: TF3KX.
Stefán Arndal TF3SA og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB. Ljósmynd: TF3KX.
Yngvi Harðarson TF3Y og Kristján Benediktsson TF3KB. Ljósmynd: TF3JON.
Elín Sigurðardóttir TF2EQ og Erla Halldórsdóttir (XYL TF3KX). Ljósmynd: TF3KX.
Haukur Konráðsson TF3HK og Arnlaugur Guðmundsson TF3RD. Ljósmynd: TF3JON.
Georg Magnússon TF2LL, Svana Björnsdóttir (XYL TF3UA) og Sigurður Smári Hreinsson TF8SM. Ljósmynd: TF3JON.
Kristinn Andersen TF3KX, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Georg Magnússon TF2LL, Jón Svavarsson TF3JON og Jón G. Guðmundsson TF3LM. Ljósmynd TF3PW.
Óþekktur og Georg Kulp TF3GZ. Ljósmynd: TF3JON.
Jón Björnsson TF3PW, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og óþekktur. Ljósmynd: TF3KX.
Tekið á móti góðum gjöfum í fjarskiptaherbergi TF3IRA frá systurfélagi ÍRA í Sviss, USKA í tilefni 75 ára afmælisins. Frá vinstri: Peter Ens HB9RYV, Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA og Ralf Doerendahl HB9GKR. Ljósmynd: TF3JON.

Anna Henriksdóttir, TF3VB var í útvarpsviðtali í Mannlega þættinum á rás-1 í Ríkisútvarpinu í morgun, 31. ágúst.

Anna er listakona og var stofnað til viðtalsins vegna listsýningar Hlutverkaseturs sem verður opnuð í Sjóminjasafninu í Reykjavík á morgun, 1. september.

Þegar í ljós kom í viðtalinu að hún er einnig radíóamatör, var rætt heilmikið um það. Skemmtilegt viðtal.

Vefslóð:  https://www.ruv.is/utvarp/spila/mannlegi-thatturinn/23616/7hlfl9/anna-henriksdottir-adskotadyr-og-radioamatorar

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti kl. 20-22 fimmtudaginn 1. september. Kaffiveitingar.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og flokka innkomin kort. Ennfremur móttaka fyrir kort til útsendingar.

Nýjustu tímaritin fyrir radíóamatöra liggja frammi.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fundarsal í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Minnum á boð fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra í tilefni 75 ára afmælis félagsins sunnudaginn 28. ágúst kl. 14 til 17.

Boðið verður upp á heitt súkkulaði, kaffi og gosdrykki, íslenskar pönnukökur og vöfflur með þeyttum rjóma eða vanilluís og marsipan-rjómatertu.

Það er von stjórnar félagsins að sem flestir félagsmenn sjái sér fært að koma við í Skeljanesi, þiggja góðar veitingar og fagna saman afmæli félagsins.

Stjórn ÍRA.