Fyrir nokkru kom í ljós að 6 tölublöð CQ TF vantaði á söfnunarsíðu félagsblaðsins á heimasíðu ÍRA.

Talið er víst blöðin hafi orðið viðskila þegar yfirfærsla var gerð fyrir fjórum árum í WordPress vefumsjónarkerfi, er skipt var út eldra kerfi (Confluence) þann 9. mars 2017.

Svo vel vildi til, að Brynjólfur Jónsson, TF5B sem var ritstjóri CQ TF á þessum tíma, átti þau enn í tölvunni hjá sér og gat sent félaginu frumritin sem á vantaði og voru þau sett inn á heimasíðuna í dag, þann 4. júlí. Blöðin sem um ræðir eru þessi:

1997–5. tbl.
1998–1. tbl
1998–2. tbl.
1998–3. tbl.
1998–4. tbl.
2004–5. tbl.

Sérstakar þakkir til til Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS sem annaðist verkefnið og til Brynjólfs Jónssonar, TF5B sem útvegaði frumritin.

Stjórn ÍRA.

Vefslóð:  http://www.ira.is/cq-tf/

.

.

2 metra FM endurvarpinn TF2RPJ á Álftanesi á Mýrum sem hafði verið úti að undanförnu, varð QRV á ný föstudaginn 2. júlí.

Í samráði við Ara Þórólf Jóhannesson, TF1A kom Georg Kulp, TF3GZ við í fjarskiptahúsinu á Álftanesi á Mýrum í viðgerðarleiðangri í gær. Georg hafði varaaflgjafa meðferðis ef þurft hefði á að halda. Í ljós kom, að aðeins þurfti að endurræsa stöðina. TF2RPJ vinnur á 145.750 MHz (QRG inn -0,6 MHz) og notar 88,5 Hz tón inn.

Loftnetið fyrir TF2RPJ er staðsett í 26 háum turni þar á staðnum sem jafnframt hýsir loftnet fyrir radíóvitana á 6 metrum (50.457 MHz) og 4 metrum (70.057 MHz).

Þakkir til þeirra félaga TF1A og TF3GZ fyrir verkefni vel úr hendi leyst.

Stjórn ÍRA.

.

Loftnetsturninn í Álftanesi á Mýrum hýsir loftnetin fyrir endurvarpann TF2RPJ og radíóvitana TF1VHF á 50 MHz og á 70 MHz (en sama kallmerkið, TF1VHF er notað fyrir báða radíóvitana). Ef vel er að gáð má sjá Samúel, TF3SUT, uppi í turninum. Ljósmynd: TF1A.

Góð mæting var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 1. júlí.

Mikið var rætt um áhugamálið (á báðum hæðum) og radíódótið sem var í boði í salnum gekk vel út enda margt nýtilegra hluta, m.a. til smíða á loftnetsaðlögunarrásum o.fl. Margir voru áhugasamir um VHF/UHF leikana sem nú nálgast, en þeir verða haldnir helgina 9.-11. júlí n.k. og ætla sumir að takast á hendur ferðalög í leikunum, m.a. upp á hálendið.

Yfir kaffinu var mikið rætt um loftnet, bæði heimaloftnet og bílloftnet á HF og VHF. Menn velta fyrir sér heimasmíðuðum loftnetum samanborið við keypt, enda er sumarið loftnetatíminn. Ennfremur var rætt um gæði og getu HF fjarskiptastöðva á markaði. Og eins og alltaf er, þá var rætt um DX skilyrðin á HF böndunum að undanförnu sem hafa verið allt frá því að vera ágæt upp í að vera mjög góð í sumar, jafnvel upp í VHF (50 MHz og 70 MHz). Einn félagi sagði t.d. frá því að hann hafi verið að ljúka við DXCC á 21 MHz og á þá bara eftir 28 MHz til að geta sótt um 5 banda DXCC (þar sem 80, 40 og 20 metra böndin eru klár). Loks var rætt um nafnabreytinguna, þ.e. Fjarskiptastofu í stað Póst- og fjarskiptastofnunar og voru menn almennt sáttir við breytinguna.

Alls mættu 20  félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta sumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Frá vinstri enda fundarborðsins: Jón G. Guðmundsson TF3LM, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Georg Kulp TF3GZ, Þórður Adolfsson TF3DT, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Rúnar Þór Valdimarsson TF3RJ, Valtýr Einarsson TF3VG, Mathías Hagvaag TF3MH (bak í myndavél) og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.
Ánægja var með radíódótið í boði í salnum. Frá vinstri: Kjartan Birgisson TF1ET, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Elín Sigurðardóttir TF2EQ (fjær), Mathías Hagvaag TF3MH (fjær), Sigurður Kolbeinsson TF8TN og Rúnar Þór Valdimarsson TF3RJ (fjær).
Elín Sigurðardóttir TF2EQ við félagsstöðina í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Ljósmyndir: TF3JB.

Í dag, 1. júlí 2021, taka gildi ný lög um Fjarskiptastofu. Leysa þau af hólmi eldri lög um Póst- og fjarskiptastofnun (sem tók til starfa 1. apríl 1997). 

Helstu nýmæli laganna eru nýtt nafn á stofnunina, ákvæði um netöryggissveitina, ákvæði er varða öryggi og almannavarnir, skýrari heimildir til að greina stöðu fjarskiptaneta og gera útbreiðsluspár fyrir háhraðanet og ný ákvæði um framþróun, rannsóknir, þróunarstarf og nýsköpun svo eitthvað sé nefnt.

Samskipti radíóamatöra verða óbreytt við Fjarskiptastofu frá því sem var við Póst- og fjarskiptastofnun.

Stjórn ÍRA óskar nýrri stofnun velfarnaðar.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 1. júlí frá kl. 20:00.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA verður opið og QSL stofan á 2. hæð.

Nýjustu tímaritin liggja frammi og kaffiveitingar verða í boði.

Ennfremur liggur mikið frammi af radíódóti.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

.

.

Sælir kæru félagar!

VHF/UHF leikjahelgin er að renna upp. Þetta verður hrikalega gaman! Allir upp með græjurnar, upp á heiðar, fjöll og út í eyjar. Eða bara láta fara vel um sig heima í sjakknum.

Frábært tækifæri til að prófa nýja dótið…eða gamla dótið. Það besta er, það þarf ekki að vera með rándýrar græjur. Einföld handstöð frá Kína er allt sem þarf. Oft koma bestu sögurnar frá afrekum með litlum búnaði. Upptekin(n)? Öll þáttaka bætir leikinn, stök QSO eru betri en engin QSO.

Gerum þetta með stæl, sýnum á Facebook hvað við erum virkir amatörar. Allir grobbpóstar úr leiknum kærkomnir. Viðurkenningar fyrir skemmtilegustu myndirnar/færslurnar.

Eins og venjulega verður “online” leikjavefur þar sem þáttakendur skrá sig til leiks. Hægt verður að skrá sig inn í leikinn allan tímann þangað til hann endar. Slóð á leikjavefinn hér: http://leikar.ira.is/2021 Þar er einnig að finna nánari leiðbeiningar.

Blásið verður til leiks kl. 18 föstudaginn 9. júlí og leikurinn stendur til kl. 18 sunnudaginn 11. júlí!

73 de Keli, TF8KY.

Glæsilegir verðlaunagripir eru í boði fyrir 1.-3. sæti í VHF/UHF leikunum 2021. Myndin er af verðlaunum sem veitt voru í fyrra (2020). Einnig verða veittar viðurkenningar í ár fyrir bestu ljósmyndina á Facebook og fyrir skemmtilegustu færsluna á Facebook.

Georg Kulp, TF3GZ átti tíma aflögu laugardaginn 26. júní, kom við í Skeljanesi og setti upp loftnet fyrir TF3IRA á 160 metrum. Loftnetið er 78 metra langt vírnet; endafædd hálfbylgja. Það var keypt tilbúið frá HEC fyrirtækinu, gerð „HyEndFed 160 Meter Monoband“.

Loftnetið er lagt frá húsinu út í turninn og fer þaðan í 45° (eilítið niðurhallandi) í austurátt þar sem það er fest í 4 metra hátt vatnsrör sem var reist með samsíðafestingu við einn af  girðingarstaurunum sem þarna eru.

Jónas Bjarnason, TF3JB varð samferða Georg í Skeljanes sunnudaginn 27. júní þegar gengið var frá fæðingu á loftnetinu og tengingu inni í fjarskiptaherberginu. Standbylgja mældist 2,2 á 1810 kHz. Prófað var að hlusta eftir merki frá TF3IRA á morsi á 1825 kHz í KiwiSDR viðtækinu á Látrabjargi og mældist merkið S9 á mæli þar (sendiafl TF3IRA var 10W).

Loftnetið kemur í réttri lengd (78 metrar) fyrir lægstu tíðnina á 160 metrum (1810 kHz). Stytta má þá lengd (ef þarf) og færir hver metri sem klipptur er af „resónans“ upp um 100 kHz. Næstu skref eru að sjá hvaða áhrif það hefur að auka fjarlægðina frá vír út í turn og hækka endastólpann ca. í 6 metra. Uppgefin bandbreidd er 140 kHz.

Stjórn ÍRA þakkar Georg Kulp, TF3GZ fyrir frábært vinnuframlag.

Tengikassanum fyrir nýja 160 metra loftnetið var komið upp nærri öðrum glugganum á fjarskiptaherberginu.
Georg gengur frá tengingum.
Gengið frá fæðilnunni í loftnetskassann.
Sent var “test de TF3IRA” á morsi frá félagsstöðinni á 10W á 1835 kHz og var merkið S9 á KiwiSDR viðtækið á Látrabjargi.
Georg Kulp TF3GZ í símanum eftir að komið var ofan af þaki og verkefni dagsins í höfn. Ljósmyndir: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 24. júní.

Þetta var fyrsta opnunarkvöldið eftir að radíódóti úr dánarbúi TF3GB hafði verið raðað á borðin í salnum, en félagsmenn geta haft með sér úr húsi allt að þrjá hluti á hverju opnunarkvöldi. Vinnu lauk endanlega við flokkun dótsins 24. júní. Verkefnið var búið að standa yfir frá 12. júní, þegar radíódót TF3GB barst okkur í Skeljanes.

Eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum var dóti sem félagarnir geta haft með sér heim, dreift á tvö hvítu borðin (sem voru fyrir), auk þess sem bætt var við tveimur stærri borðum (við bókahillurnar) og lágborðinu í horninu til vinstri (þar sem ræðupúltið okkar var áður). Vír- og kóaxefni var komið fyrir í horninu við hliðina á hvítu borðunum.

Ánægja var með dótið á fimmtudagskvöld og var mikið skoðað. Flestir fundu eitthvað áhugavert og sumir tóku með sér fullan skammt (þrjá hluti) en mikið er af áhugaverðum hlutum í boði og sumt nýtt og enn í umbúðunum.

Alls mættu 16 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta sumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stærri borðin tvö eru staðsett við bókahillurnar í salnum.
Hvíti borðin tvö eru vel áhlaðin af dóti sem og gluggakistan á bakvið.
Lágborðið er þakið spennum af ýmsum gerðum. Vírefni var komið fyrir hægra megin við það í horninu. Ljósmyndir: TF3JB.

Næsta tölublað CQ TF, 3. tölublað þessa árs, kemur út sunnudaginn 18. júlí n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur er til 8. júlí n.k.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Sumarkveðjur og 73,
TF3SB, ritstjóri CQ TF.

.

2. tölublað CQ TF 2021 er fyrir miðju. Sitt hvoru megin eru myndir úr ritstjóradálkum fyrri blaða. Ljósmynd: TF3JB.

Landsfélag radíóamatöra á Spáni, La Unión de Radioaficionados Españoles URE, býður til alþjóðlegrar keppni í nafni hans hátignar, Filipe IV. Spánarkonungs, helgina 26-27. júní.

Þetta er 24 klst. keppni á SSB sem hefst kl. 12:00 á hádegi laugardaginn 26. júní og lýkur á sama tíma á hádegi sunnudag 27. júní. Keppnin er opin radíóamatörum um allan heim og fer fram á SSB á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Markmiðið er að ná samböndum við radíóamatöra á Spáni í eins mörgum stjórnsýslueiningum (sýslum) og frekast er unnt. Spænskir leyfishafar senda RS+tvo bókstafi sem eru skammstöfun á því stjórnsýsluumdæmi (sýslu) þar sem þeir eru búsettir. Aðrir senda RS+raðnúmer. Sjá nánar í keppnisreglum.

Með ósk um gott gengi, stjórn ÍRA.

Vefslóð: https://concursos.ure.es/en/reglamento-general-concursos-hf/

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 17.-23. júní 2021. Samskonar samantektir voru gerðar í janúar, febrúar, apríl og maí á þessu ári.

Alls fengu 18 TF kallmerki skráningu að þessu sinni. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), en einnig á morsi (CW) og tali (SSB) á 4, 6, 10, 12, 15, 17, 20 og 30 metrum.

Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/  Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund/-ir útgeislunar og band/bönd:

TF1A——-FT8 á 4, 6, 10, 17 og 30 metrum.
TF1EIN—-FT8 og SSB á 4 og 6 metrum.
TF1OL/P—FT8 á 6 metrum.
TF1VHF—-CW á 4 og 6 metrum.
TF2CT/P—FT8 á  6 og 10 metrum.
TF2MSN—FT4, FT8 og SSB á 4, 6, 12 og 20 metrum.
TF3DT——FT8 á 12, 15 og 20 metrum.
TF3DX/P—CW á 20 metrum.
TF3IG——-FT4 á 20 metrum.
TF3JB——-FT8 á 6 metrum.
TF3LB——-FT8 á 4 og 6 metrum.
TF3MH——FT8 á 15 og 17 metrum.
TF3VE——-FT8 á 6 og 17 metrum.
TF3VG——-FT8 á 6 og 10 metrum.
TF3VS——-FT8 á 10, 12 og 17 metrum.
TF5B———FT8 á 15 og 17 metrum.
TF8KY——-FT8 og SSB á 6 metrum.
TF8SM——FT8 á 4 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Glæsileg fjarskiptabifreið Ólafs Arnar Ólafssonar TF1OL. Ólafur var QRV þessa viku sem TF1OL/P, m.a. frá Vatnsendahæð í Kópavogi. Loftnetið er LFA Yagi á 50 MHz. frá InnovAntennas Ljósmynd: TF1OL.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 24. júní fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20-22. Fjarskiptaherbergi verður opið (fyrir mest 3 samtímis) og QSL herbergi (fyrir mest 2 samtímis).

Grímunotkun í húsnæðinu er valkvæð, samanber núgildandi reglugerð heilbrigðisráðherra til 29. þ.m. um takmörkun á samkomum vegna faraldurs.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=2acbd819-a1bf-4bbe-8b71-aed8d3d4557f