Það var ágæt mæting og létt yfir mannskapnum í félagsaðstöðunni á báðum hæðum í Skeljanesi fimmtudaginn 27. maí.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA var opið í fyrsta skipti í tæpt ár (vegna Covid-19) en mest 3 félagar máttu vera í húsnæðinu þar samtímis en 2 félagar í herbergi QSL stofunnar.

Mikið var rætt um loftnet og skilyrðin almennt og sérstaklega í ljósi truflana vegna segulstorma að undanförnu, útbreiðslu í VHF og UHF tíðnisviðunum og mismunandi gæði fæðilína. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, færði á staðinn tvö splunkuný „all mode“ ferðaviðtæki, Malahit-DSP (50 kHz til 2 GHz) og Belka DX (1,5-31 MHz). Lítil fyrirferð, góð tæknileg geta og ótrúlega góð hljómgæði.

https://www.ebay.co.uk/i/124304550353?chn=ps
https://swling.com/blog/2021/04/fenus-assessment-of-the-belka-dx-dsp/

Alls mættu 15 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í mildu sumarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Aldrei skortir umræður við stóra fundarborðið. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH (bak í myndavél), Sigurður Elíasson TF3-044, Eiður Kristinn Magnússon TF1EM og Baldvin Þórarinsson TF3-033.
Georg Kulp TF3GZ og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A skoða Belka DX og Malahit-DSP ferðaviðtækin í fjarskiptaherbergi TF3IRA.
Í loftnetaumræðum í leðursófasettinu. Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.
Að venju var Lavazza kaffi og meðlæti í boði þetta ágæta fimmtudagskvöld. Ljósmyndir: TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 27. maí.

Með tilliti til tilslakana í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra, verða kaffiveitingar í boði auk þess sem fjarskiptaherberi TF3IRA verður opið (mest 3 félagar samtímis) og QSL stofa (mest 2 félagar samtímis). Takmörkun á fjölda í þessum herbergjum ræðst af stærð þeirra. Ath. að grímuskylda er áfram í húsnæði félagsins.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Reglugerð um breyttar samkomutakmarkanir frá 25. maí 2021.pdf (stjornarradid.is)

Fundarsalur ÍRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi í Reyukjavík. Ljósmynd: TF3JB.

Morshluti CQ World Wide WPX keppninnar fer fram 29.-30. maí. Markmiðið er að hafa sambönd við kallmerki með eins mörg forskeyti (e. prefixes) og mögulegt er á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Þetta er 48 klst. keppni, en einmenningsstöðvar mega mest taka þátt í 36 klst. Á þátttökutímanum má taka eins mörg hlé og menn vilja, en hvert miðast að lágmarki við 60 mínútur.

  • Samband við hverja stöð gefur punkta einu sinni á bandi.
  • Sambönd við stöðvar í Evrópu gefa 1 punkt á 14, 21 og 28 MHz; en 2 punkta á 1.8, 3.5 og 7 MHz.
  • Sambönd við stöðvar utan Evrópu gefa 3 punkta á 14, 21 og 28 MHz; en 6 punkta á 1.8, 3.5 og 7 MHz.

Margfaldari er summa fjölda forskeyta sem haft er samband við og reiknast einu sinni, burtséð frá fjölda sambanda/banda.

Með ósk um gott gegni, stjórn ÍRA. https://cqwpx.com/rules.htm

.

Fjarskiptaaðstaða Patri YCØRNC í Jakarta í Indónesíu. Hann ætlar að hlusta eftir merkjum frá TF í keppninni. Ljósmynd: YCØRNC.

Nýr radíóviti, EI1CAH, varð virkur 17. maí á 40.016 MHz á 8 metra bandi. Hann sendir út á morsi og PI4 (Pharuslgnis4) stafrænni tegund útgeislunar (MGM). Sendiafl er 25W og loftnet er láréttur tvípóll. QTH er skammt frá Galway á Vestur-Írlandi.

Í fróðlegri grein Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS, í 1. tbl. CQ TF 2021, bls. 41, um radíóvita á 40 MHz, er m.a. gerð grein fyrir þremur vitum í sviðinu, en 9. febrúar s.l. bættist 4. vitinn við, S55ZMS í Slóveníu, og nú EI1CAH sem er sá 5. frá vesturströnd Írlands. Þessir radíóvitar eru QRV í dag:

EI1CAH – 40.016 MHz (Galway Írlandi).
EI1KNH – 40.013 MHz (Cork Írlandi).
S55ZMS – 40.670 MHz (Murska Sobota Slóveníu).
OZ7IGY – 40.071 MHz (Jystrup Danmörku).
ZS6WAB – 40.675 MHz (Polokwane S-Afríku).

Vefslóð á upplýsingar um EI1CAH:
https://ei7gl.blogspot.com/2021/05/new-40-mhz-propagation-beacon-in-west.html

Vefslóð á grein Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS:
http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/01/cqtf_35arg_2021_01tbl.pdf

Reiknuð útbreiðsla fyrir merki frá radíóvitanum EI1CAH sem er staðsettur skammt frá Galway á vesturströnd Írlands.

Mikilvægt er að leyfishafar sem hafa áhuga á að stunda fjarskipti í 70.000-70.250 MHz tíðnisviðinu (á 4 metrum) sendi beiðni þess efnis til Póst- og fjarskiptastofnunar áður en sendingar eru hafnar.

Póstfang er:  hrh hjá pfs.is  eða pfs hjá pfs.is  Tilgreina skal, að sótt sé um heimild fyrir nýtt tímabil, 1.1.2021.-31.12.2022.

Eftirfarandi skilyrði eru lögð til grundvallar:

(1) Hámarksbandbreidd er 16 kHz. Engin skilyrði hvað varðar mótun; (2) hámarks útgeislað afl er 100W; (3) heimildin er með þeim fyrirvara að komi til truflana á annarri fjarskiptastarfsemi verður að hætta sendingum strax og (4) kallmerki skal notast í upphafi og lok fjarskiptasambands og með viðeigandi reglulegu millibili á meðan fjarskiptasamband varir.

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 20. maí frá kl. 20:00. Ákvörðun um opnun byggir á heimild í reglugerð heilbrigðisráðherra um tilslökun á samkomuhaldi á tímabilinu 10.-26. maí n.k.

Grímuskylda er í húsnæðinu ásamt þeirri kvöð að leitast verði við að halda nálægðarmörkum. Aðgangur að herbergi QSL stofu á 2. hæð verður takmarkaður við 1 félaga og fjarskiptaherbergi verður lokað.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Regluger%c3%b0%20um%20takm%c3%b6rkun%20%c3%a1%20samkomum%20vegna%20fars%c3%b3ttar%2010.%20ma%c3%ad.pdf

Töluvert hefur bæst við af radíódóti á milli opnunarkvölda (uppi og niðri). Myndin er af borðinu uppi í fundarsalnum. Mynd: TF3JB.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 9.-15. maí 2021. Samskonar samantektir voru gerðar í janúar, febrúar og apríl.

Alls fengu 16 TF kallmerki skráningu. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), en einnig á morsi (CW), tali (SSB) og fjarvélritun (RTTY) á 4, 6, 15, 17, 20, 30, 40 og 60 metrum.

Kallmerki fær skráningu þegar erlendur leyfishafi [eða hlustari] hefur haft samband við [eða heyrt í] TF kallmerki. Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/  Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund/-ir útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á:

TF1A——-FT8 á 6 metrum.
TF1EIN——FT8 á 6 og 60 metrum.
TF1OL——-FT8 á 20 metrum.
TF1VHF—- CW á 4 og 6 metrum.
TF2MSN—-FT4, FT8 og SSB á 4, 20, 40 og 60 metrum.
TF3AO——RTTY á 20 metrum.
TF3DT——-FT8 á 15 og 40 metrum.
TF3JB——–CW og FT8 á 17 og 30 metrum.
TF3MH——FT8 á 17 og 30 metrum.
TF3VE——-FT8 á 6 metrum.
TF3VG——-FT8 á 6 metrum.
TF3VS——-FT8 á 40 metrum.
TF4M——-CW á 20 metrum.
TF5B———FT8 á 17 og 30 metrum.
TF8KY——-FT8 á 6 metrum.
TF8SM——FT8 á 4 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Myndin sýnir glæsilega fjarskiptaaðstöðu Brynjólfs Jónssonar TF5B á Akureyri. Ljósmynd: TF5B.

Áhugaverð skilyrði hafa verið undanfarna daga á HF böndunum og ofar. Sólblettafjöldi stendur í 24 í dag og flux‘inn er 74 þegar þetta er skrifað 14. maí.

TF stöðvar hafa haft mikið af góðum DX samböndum á HF og var Kyrrahafið t.d. galopið snemma í morgun á 14 MHz, auk þess sem Evrópa hefur meira og minna verið opin undanfarna daga á 50 MHz og 70 MHz böndunum.

Góðum skilyrðum er spáð áfram.

Glæsilegt 6 staka LFA Yagi loftnet Hrafnkels Sigurðssonar TF8KY á 50 MHz er frá InnovAntennas. Ljósmynd: TF8KY.

Í síðasta mánuði (apríl) voru liðin 5 ár frá því ICOM setti IC-7300 stöðina fyrst á markað. Samkvæmt upplýsingum á netinu er hún nú mest selda HF sendi-/móttökustöðin fyrir radíóamatöra í heiminum í dag. Stöðin er einnig mest selda HF stöðin frá upphafi hér á landi, en a.m.k. 129 eintök af þessari gerð hafa verið keypt til landsins.

Vakin er athygli á nýjustu uppfærslu hugbúnaðar fyrir IC-7300 sem m.a. er kynnt á heimasíðu Richard, KØPIR; „Firmware V1.40“. Þar er ágæt umfjöllun um helstu nýjungar, sem hafa líkað mjög vel.

Vefslóð:  https://www.k0pir.us/icom-7300-firmware-v1-40-3-big-improvements/

Félagsaðstaða ÍRA verður lokuð fimmtudaginn 13. maí sem er uppstigningardagur.

Næsti opnunardagur í Skeljanesi verður fimmtudaginn 20. maí n.k.

Stjórn ÍRA.

Vinnuhópur ungra radíóamatöra innan IARU Svæðis 1 hefur kynnt nýjung í ungmennastarfinu. Um er að ræða sérstakar 12 klst. „YOTA keppnir” sem verða haldnar í maí, júlí og desember ár hvert og eru opnar öllum radíóamatörum.

Fyrsta keppnin verður haldin laugardaginn 22. maí n.k. frá kl. 08:00-19:59 á morsi (CW) og tali (SSB) á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.

Skilaboð eru RS(T) + aldur.  Sambönd innan Evrópu gefa 1 punkt og utan Evrópu 3 punkta. Fjöldi margfaldara ræðst af aldri í samböndunum. Sjá nánar keppnisreglur með því að smella á myndina fyrir neðan.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ, ungmennafulltrúi ÍRA, segir að alla hlakki mjög mikið til 22. maí n.k. og hún vonast til að sem flestar TF stöðvar taki þátt. Hún verður sjálf QRV á SSB frá Hollandi þar sem hún hefur fengið úthlutað eigin kallmerki, PA2EQ.

Námskeið ÍRA til amatörprófs hófst 22. mars s.l. Vegna samkomutakmarkana þurfti fljótlega að fresta kennslu. Hins vegar [að öllu óbreyttu] hefst kennsla aftur mánudaginn 10. maí n.k. samkvæmt uppfærðri dagskrá.

Að beiðni ÍRA, hefur Póst- og fjarskiptastofnun fallist á að fresta prófdegi til laugardagsins 5. júní n.k.

Líkt og verið hefur frá árinu 2013 mun prófið að öllum líkindum fara fram í Háskólanum í Reykjavík, en það verður staðfest þegar nær dregur.

Stjórn ÍRA.

Frá setningu námskeiðs ÍRA til amatörprófs í félagsaðstöðunni í Skeljanesi 22. mars s.l. Ljósmynd: TF3JB.