FRÆÐSLUHORN ÍRA: „QSL kort“

Endurbirt úr 2. tbl. CQ TF 2018, höfundur: Jónas Bjarnason, TF3JB.

Það hafa lengi verið óskráð lög hjá radíóamatörum að QSO skuli staðfest með QSL korti, biðji annar hvor aðilinn um það. Það geta síðan verið ótal ástæður að baki því að farið er fram á kort, en oftast eru TF stöðvar beðnar um QSL vegna þess að TF forskeytið er tiltölulega sjaldgæft í loftinu. Síðan liggur það til grundvallar að sambandi sé í raun ekki lokið fyrr heldur en kort hefur verið frágengið.

Mikilvægt er að QSL kort sé þannig úr garði gert að lágmarksupplýsingar komi fram sem gera það gilt fyrir hinn aðilann – til þeirra nota, sem hann kýs. Margir safna kortum frá hverju nýju landi sem þeir ná að hafa samband við, á meðan aðrir nota það til að sækja um viðurkenningar af ýmsu tagi. Þriðji hópurinn nýtir svo kortin til hvoru tveggja.

QSL kort staðfestir að QSO hafi farið fram á milli tveggja leyfishafa á til-teknu tíðnisviði radíóamatöra og að skipst hafi verið á lágmarksupplýsing-um.[1] Staðfesting á forprentuðu pappírs-korti er algengust, en handskrifuð staðfesting er að öllu leyti jafn rétthá, sem og staðfesting á rafrænu formi. Í þessari umfjöllun verður einkum fjallað um QSL kort sem sett eru upp og prentað á pappír.

Sögulega séð, greinir menn á um hvenær radíóamatörar hafi fyrst byrjað að senda QSL kort. Elsta þekkta QSL kortið er frá 1916 en fyrstur til að staðla upplýsingar á kortunum mun hafa verið 8UX í Ohio í Bandaríkjunum, árið 1919. Evrópumenn voru seinna á ferðinni, en 2UV á Englandi mun hafa verið fyrstur til að nota QSL kort í álfunni 1922.[2]

 

QSL KORT ERU MARGSKONAR

Myndin er af tveimur QSL kortum félagsins fyrir kallmerkin TF3IRA og TF3W sem voru prentuð hjá UX5UO. 

QSL kort radíóamatöra eru margs konar.

Einföldustu kortin eru prentuð öðru megin í einum lit (eða fleirum).

Einnig er algengt að prentað sé beggja vegna og gjarnan í lit (a.m.k. öðru megin), en prentkostnaður hefur farið lækkandi hin síðari ár.

Sérstaklega hafa prentsmiðjur í Búlgaríu, Úkraínu og fleiri löndum verið samkeppnishæfar í verði.

A.m.k. einn leyfishafi hér á landi hefur aðstoðað íslenska radíóamatöra við að panta kort erlendis frá, m.a. fyrir kallmerki félagins.

Það er Sæli, TF3AO, og koma kortin frá Gennady, UX5UO í Úkraínu.

 

 

 

 

AÐ SETJA UPP EINFALT QSL KORT

(a) Lágmarksupplýsingar

Einfaldast er að setja upp kort þegar upplýsingar eru prentaðar öðru megin. Eftirfarandi eru lágmarksupplýsingar þurfa að koma fram:

  • Nafn landsins: ICELAND eða REPUBLIC OF ICELAND.
  • Kallmerki.
  • Nafn leyfishafa.
  • Póstfang og QTH.
  • Kallmerki stöðvar sem samband var haft við: STATION
  • Dagsetning; dagur/mánuður/ár: DAY/MONTH/YEAR.
  • Tímasetning (yfirleitt skráð við upphaf sambands): GMT eða UTC.
  • Tíðnisvið: QRG, MHz, kHz eða BAND.
  • RS(T) „R=læsileiki, S=styrkur, T=tónn“ eða dB: REPORT eða RPRT.
  • Tegund útgeislunar/mótun: MODE.
  • Koma þarf fram: CONFIRMING TWO-WAY QSO WITH STATION…
  • Því má einnig tvískipta: CONFIRMING QSO WITH STATION…
  • Og þá má setja saman með „mode“: TWO WAY (sjá útfærslu á korti TF3JB).

Dæmi um einfalt QSL kort sem er sett upp í WORD forriti. Þessi uppsetning var valin með það í huga að það væri fljótlegt og þægilegt að handskrifa lágmarksupplýsingar inn á kortið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftirfarandi upplýsingar er mjög til þæginda að setja ennfremur inn á kortið. Þá kemur greinilega fram hvort óskað er eftir að fá kort eða þakkað er fyrir móttekið kort:

QSL [ ] pse [ ] tnx

TF ÍRA QSL Bureau

P.O. Box 1058

121 Reykjavík

(b) Nokkur atriði enn

Loks eru nokkur atriði til viðbótar sem mælt er með að setja inn á kortið. Það eru:

ITU Zone 17.

CQ Zone 40.

IOTA númer.[1]

Grid square: HP.. ..[2]

73 de

Mælt er með að nota efnisatriðin sem kynnt eru að framan til innsetningar á nýtt QSL kort, en að sjálfsögðu má víkja frá þeirri uppsetningu sem sýnd er á korti greinarhöfundar og hér er notuð sem sýnishorn. Þar er gert ráð fyrir þægilegu rými til að skrifa inn upplýsingar um eitt samband, en í raun er nægjanlegt pláss fyrir tvö og jafnvel þrjú QSO (ef skrifað er smátt). Hafa ber í huga að þessi uppsetning miðast við lágmarksupplýsingar. Algengt er að leyfishafar skrái þar umfram, upplýsingar um stöðvar, loftnet og jafnvel um önnur áhugamál. Sumir birta jafnvel ljósmynd af sjálfum sér.

 

STÆRÐ, PAPPÍR OG PRENTUN

Algengasta stærð á QSL kortum í dag er 90×140 mm og er mælt með að fylgja þeim staðli. Eldri staðall var 100×150 mm og slík kort berast enn, einkum frá Þýskalandi og Japan. Að öllum líkindum eru menn þó að klára eldri birgðir því mjög hefur dregið úr kortasendingum í þeirri stærð undanfarin ár.

Radíóamatörar velja að nota mjög mismunandi pappír enda úrval kannski mismikið og háð því hvar menn búa. Margir miða þó við 160-200 gramma pappír. Hafa þarf í huga að pappír er á mismunandi verði og stendur misvel „undir sér“ ef þannig má að orði komast. Ennfremur er hann mishvítur (ef það þykir skipta máli). Þetta þarf allt saman að taka með í reikninginn þegar pappír er valinn. Sérstaklega þarf að gæta þess að velja síður mynstraðan pappír (heldur með sléttu yfirborði) vegna þess að það getur bæði verið erfitt að handskrifa á hann og erfitt að prenta á hann í tölvuprentara. Þá má pappír heldur ekki vera plasthúðaður eða of „glittaður“ af sömu ástæðum.

Sum dagbókar- og keppnisforrit bjóða í dag upp á tengingu við prentara til að útprentunar á QSL kortum. Þá er ekkert nema að skrifa nafnið sitt undir, samanber meðfylgjandi QSL kort frá JH8TFZ. Mælt er með að menn velji að prenta beint á kortið fremur en á límmiða, sem síðan er límdur á kortið. Ekkert er út af fyrir sig athugavert við að nota límmiða – en límmiðar sem henta (þ.e. sem tolla) eru frekar dýrir sem er allt í lagi þegar ekki eru mikil umsvif, en verður fljótt kostnaðarsamt þegar skrifa þarf út eitthvað magn af kortum. Velji menn hins vegar að nota límmiða, er atriði að gleyma ekki að láta kallmerki þess sem gefur út QSL kortið koma fram á miðanum. Það er einkum mikilvægt þegar límmiðar eru settir á bakhlið korts ef þar sem ekki er áprentað kallmerki (eins og á framhlið).

 

 

 

ÞEGAR KEMUR AÐ NOTKUN

Ekki er mælt með að senda QSL kort fyrir öll sambönd sem eru höfð, fyrirfram, heldur einungis fyrir þau sem maður vill fá kort út á. Í annan stað er mælt með að svara öllum kortum. Kort sem berast um kortastofu félagsins á að svara á sama hátt. Og kort sem berast beint í pósti, er viðeigandi að svara beint í pósti, enda hafi viðkomandi leyfishafi sent umslag með nafni og heimilisfangi og andvirði burðargjalds. Ef burðargjald vantar er mælt með að svara kortinu um Bureau, enda er hugmyndin með sendingum beint í pósti, að sá sem er beðinn um QSL kort þurfi ekki að bera kostnað af ósk hins.

Það er alltaf hvimleitt þegar maður fær QSL kort sem ekki er hægt að nota. Ástæður geta verið ýmsar, t.d. að skrifað hafi verið óvart „TC3JB“ en síðan er það leiðrétt með því að skrifa „F“ ofan í „C“ bókstafinn. Í sjálfu sér getur slíkt kort verið gilt, ef leyfishafinn skrifar athugasemd á kortið þess efnis að leiðréttingin hafi verið gerð af honum sjálfum (og setur stafina sína við leiðréttinguna). Best er samt að leiðrétta helst aldrei QSO upplýsingar á QSL korti – heldur kasta því og skrifa nýtt.

Það er um að gera að vanda sig við að skrifa kortin. Það er reynsla undirritaðs að góður penni skipti öllu. En þegar maður fer að gera of mikið af villum er ágætt að taka sér hvíld…

Fyrir kemur að það berast QSL beiðnir sem ekki finnast í dagbók. Ýmsar ástæður geta valdið því að kallmerki er ekki „í logg“ eins og sagt er – sem þurfa ekkert að vera óeðlilegar. Þegar gengið hefur verið úr skugga um að ekkert gefur til kynna að samband hafi farið fram, er innkomið kort endursent, hvort heldur sem það barst beint (e. direct) eða um Bureau. Greinarhöfundur notar eftirfarandi texta sem hann prentar út á límmiða og límir yfir kortið (sem er til endursendingar) á áberandi stað þegar svona lagað kemur upp:

 

RETURN

Very sorry but QSO in question was not found in log.

Kindly look at your records and send again.

 

 

 

Að lokum má nefna, að sumir leyfishafar vísa á aðra radíóamatöra þegar kemur að því að óska eftir korti. Ýmsar ástæður geta verið fyrir slíku fyrirkomulagi. Þannig kort má jöfnum höndum senda beint í pósti á tilgreindan leyfishafa sem og um kortastofu félagsins (nema annað sé tekið fram á QRZ.COM). Ætli TF3JB til dæmis að senda eftir korti fyrir samband við DX leiðangurinn sem farinn var til Níger í fyrra (2017), þá yrði kortið fyllt út eðlilega á framhlið – en á bakhlið, uppi í hægra horni, myndi vera skrifað „5U5R via EA5RM“. Í þessu tilviki er spænski leyfishafinn „QSL Manager“ fyrir þetta tiltekna kallmerki.

Myndin er af QSL korti DX leiðangursins til Níger 9.-23. mars 2017. Hópurinn hafði alls 75.327 QSO á CW, SSB, RTTY og JT65 tegund útgeislunar. Alls voru tíu leyfishafar í leiðangrinum frá Spáni, Ítalíu, Frakklandi, Kólumbíu og Bandaríkjunum.

Best er að fylgja leiðbeiningum á QRZ.COM um hvernig má nálgast staðfestingu á sambandi við stöðvar af þessu tagi sem og stöðvar sem eru með QTH í sjaldgæfum löndum heims.

Ef spurningar vakna í sambandi við QSL kort má benda á Mathías Hagvaag, TF3MH, QSL Manager TF ÍRA QSL Bureau, sem þekkir þessi mál mjög vel.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[1] Flestir leyfishafar nota EU-021, en EU-071 er fyrir þá sem eru með QTH í Vestmannaeyjum (eða nærliggjandi eyjum) og EU-168 er síðan fyrir allar aðrar eyjar umhverfis landið.

[2] Hnit/staðarreitir (e. Grid Square) eru mismunandi eftir QTH hvers og eins.

 

[1] Það er, kallmerkjum og RS(T) eða dB.

[2] Heimild: https://en.wikipedia.org/wiki/QSL_card