,

Reglugerðarbreyting er komin í umsagnarferli

Einnig er lagt til að tíðnitöflunni í viðauka reglugerðarinnar verði breytt. Bætt er við þeim tíðnisviðum sem hafa verið alþjóðlega samþykkt.

… af vef Samgönguráðuneytis:

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að breytingum á reglugerð um radíóáhugamenn til umsagnar

Til umsagnar eru hjá ráðuneytinu drög að breytingum á reglugerð um radíóáhugamenn. Er lagt til að uppbyggingu kallmerkja radíóáhugamanna verði breytt. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 23. nóvember næstkomandi á netfangið postur@srn.is.

Ráðuneytinu hafa borist ábendingar frá félaginu Íslenskir radíóamatörar, ÍRA, um að þörf sé á að reglugerð um starfsemi radíóáhugamanna, nr. 348/2004, verði breytt. Lagt er til að uppbyggingu kallmerkja radíóáhugamanna verði breytt. Hver radíóáhugamaður hefur eigið kallmerki sem samanstendur af bókstöfum og tölum en hvert kallmerki er einstakt. Alþjóða fjarskiptastofnunin, ITU, úthlutar hverju ríki sérstöku forskeyti kallmerkja og byrja t.d. íslensk kallmerki á TF og norsk á LA. Kallmerki samanstanda af forskeyti og 1-3 persónubundnum bókstöfum og eru þeir yfirleitt 4-6 stafir.

Bókstafurinn N bætist aftan við viðskeytið í kallmerki ef viðkomandi er með N-leyfi. Leyfi radíóáhugamanna eru aðgreind í N- og G-leyfi en munurinn er sá að í prófum sem standast þarf til að fá N-leyfi er prófað úr þekkingu á grunnatriðum fræðinnar og helstu lögum og reglum en G-prófið er þyngra þar sem prófað er úr fleiri atriðum og auknar kröfur gerðar. Þegar N-leyfishafar standast próf til G-leyfisins fellur stafurinn N brott úr kallmerki þeirra.

Í breytingartillögunni felst fyrst og fremst að 8. gr. reglugerðarinnar verði breytt á þá leið að aukinn verði sveigjanleiki varðandi kallmerki radíóáhugamanna og að ákvæðinu verði breytt á þann hátt að ekki verði lengur gerð krafa um að N-leyfishafar þurfi að hafa N í lok kallmerkis síns. ÍRA telur núverandi fyrirkomulag vera mismunun sem fella þurfi úr gildi. Einnig verði kallmerki ekki lengur aðgreind eftir landsvæðum því það sé að vissu leyti mismunun og óþarft að skipta  um kallmerki við flutning innan lands. Við breytinguna myndi mögulegur fjöldi kallmerkja margfaldast.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur veitt jákvæða umsögn um breytingartillöguna og telur hana í samræmi við framkvæmd á Norðurlöndunum. Póst- og fjarskiptastofnun leggur einnig til að tíðnitöflunni í viðauka reglugerðarinnar verði breytt á þann hátt að fleiri tíðnisviðum verði bætt við sem hafa verið alþjóðlega samþykkt.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

eight − 3 =