SKELJANES OPNAÐI Á NÝ 11. FEBRÚAR
Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi var opnuð á ný fimmtudaginn 11. febrúar. Þá voru liðnir fimm mánuðir frá því síðast var opið, þ.e. um miðjan september 2020.
Menn byrjuðu að mæta fljótlega upp úr kl. 20. Allir virtu andlitsgrímuskyldu og við inngöngu í salinn voru menn beðnir um að spritta hendur.
Fjörugar umræður byrjuðu fljótlega að „rúlla“ stóðu látlaust fram undir klukkan tíu. Og ekki skorti umræðuefni. Rætt var m.a. um böndin, skilyrðin, tækin, loftnet, tæknina og heimasmíðar. Fram kom að einn félagi hafði fengið „direct“ QSL kort frá Úkraínu sama dag sem var póststimplað 5. nóvember. Mikið var rætt um mismunandi gerðir/tegundir HF, VHF og UHF loftneta, m.a. með tilliti til uppsetningar í fjölbýlishúsum. Hans Konrad Kristjánsson, TF3FG færði félaginu nokkrar veglegar hankir af kóax kapli og ætlar að koma með töluvert af radíódóti næsta fimmtudag.
Fjarskiptaherbergi félagsins var haft lokað og aðgangur að herbergi QSL stofunnar var takmarkaður við einn félaga í einu. Það fyrirkomulag gekk vel. Vel heppnað opnunarkvöld og almenn ánægja með að félagsaðstaðan væri loks opin á ný. Alls mættu 11 félagar í Skeljanes þetta ágæta febrúarkvöld.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!