Skemmtilegur FlexRadio sunnudagur í Skeljanesi
Fyrsta sunnudagsopnun félagsaðstöðunnar samkvæmt vetrardagskrá var í dag, sunnudaginn 11. nóvember. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI, mætti í Skeljanes og kynnti helstu eiginleika og sérstöðu FlexRadio stöðvanna, sem notast saman með PC-tölvu til að virka. Hann kom með Flex 3000 stöð á staðinn, sem var tengd við Butternut HF6V stangarloftnet félagsstöðvarinnar. Stöðin var prófuð bæði í móttöku og sendingu á 14, 21 og 28 MHz og kom skínandi vel út. Hann sýndi mörg skemmtileg dæmi um hæfileika viðtækisins, sem gefur afar fjölbreytta möguleika til móttöku á morsi, tali og stafrænum tegundum mótunar. Í lokin var stöðin opnuð og innihaldið skoðað. Samdóma álit manna var að þetta væri vönduð smíði. Góð mæting var í Skeljanes þennan sólríka vetrarmorgun í höfðuborginni og komu tæplega 20 félagar á staðinn.
Stjórn Í.R.A. þakkar Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF3ARI, fyrir fróðlegan og áhugaverðan viðburð og Páli B. Jónssyni, TF8PB, fyrir lán á Flex 3000 stöðinni, svo og Kolbrúnu Eddu (dóttur Ara) fyrir listagott heimabakað kaffibrauð.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!