TF3EE, TF3JB og TF8GX með fimmtudagserindið
Erling Guðnason, TF3EE; Jónas Bjarnason, TF3JB; og Guðlaugur Kristinn Jónsson, TF8GX flytja næsta erindi á vetrardagskrá félagsins, sem haldið verður fimmtudaginn 11. apríl kl. 20:30 í félagsaðstöðunnni við Skeljanes. Þeir félagar munu segja frá og kynna, í máli og myndum, stærstu árlegu amatörsýningarnar sem haldnar eru í heiminum, þ.e. Dayton Hamvention í Ohio í Bandaríkjunum, Ham Radio í Friedrichshafen í Þýskalandi og Tokyo Ham Fair í Japan.
Þess má geta, að allir þrír hafa komið oftar en einu sinni á Ham Radio sýninguna í Þýskalandi, en auk þess hefur Erling sótt Tokyo Ham Fair í Japan og Guðlaugur Kristinn, Dayton Hamvention í Bandaríkjunum.
Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta stundvíslega.
________
Árlega eru haldnar fjölmargar ráðstefnur og sýningar fyrir radíóamatöra um allan heim. Flestar eru svæðisbundnar og sérhæfðar en nokkrar eru mjög stórar og þar er markmiðið að gera sem flestum til hæfis. Þrjár þær stærstu eru haldnar í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan. Nánast öll hugsanleg áhugasvið innan radíótækninnar og fjarskiptanna eru þar til umfjöllunar, auk þess sem framleiðendur sýna nýjustu tæki og búnað, sem oft er jafnframt til sölu á sérstöku sýningarverði ef menn eru tilbúnir til að ganga frá viðskiptum á staðnum. Undirritaður hafði um langan tíma haft áhuga á að sækja annað hvort Dayton Hamvention eða Ham Radio í Friedrichshafenen en af ýmsum ástæðum hafði ekki orðið af því. Síðan kom óvænt upp að mér bauðst að ferðast með þremur öðrum amatörum á Ham Radio 2008.
Textinn að ofan er tekinn úr inngangi ferðasögu TF3JB á sýninguna í Friedrichshafen árið 2008. Lesa má frásögnina í heild í 3. tbl. CQ TF 2009, bls. 27-34 á neðangreindri vefslóð.
Blaðið má finna hér: http://www.ira.is/cq-tf/
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!