,

TF3HRY FÓR Á KOSTUM Í SKELJANESI.

Andrés Þórarinsson TF1AM varaformaður ÍRA kynnir ræðumann kvöldsins. Ljósmynd: TF3GZ.

Opið var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 20. mars. Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY mætti með erindi kvöldsins sem fjallaði um „Loftnet og útgeislun á lægri böndum“. Þetta var fjórða erindið á nýrri vordagskrá ÍRA fyrir tímabilið febrúar-maí 2025.

Henry hóf erindið á því að útskýra umfjöllunarefnið, sem væru loftnet á lágum bylgjum sem væru neðri parturinn á HF niður í miðbylgjur, t.d. á 630 metra bandinu. Hann nefndi, að loftnetin sem slík væru yfirleitt skilgreind sem stutt loftnet og því værum við yfirleitt að tala um að vinna með stutt loftnet og skilgreining á þeim er að þau eru styttri en 1/8 λ. Það væri því einkennandi að við værum að vinna með net sem ekki eru í „resonance“ öfugt við það sem almennt gerist og gengur á öðrum amatörböndum, þar sem margir notuðu t.d. kvartbylgju eða hálfbylgjuloftnet.

Loftnetum sem þessum megi skipta í tvo flokka, loftnet sem eingöngu væru á færi opinberra aðila að reisa, eins og t.d. mastrið á Gufuskálum sem er 416 metrar á hæð og hinsvegar hinn hópurinn, radíóamatörar, sem helst gætu leyst málið með því að reisa e.t.v. rafmagns- eða símastaura úti í garði heima hjá sér eða í sumarbústað. Henry sagði að það væru loftnetin sem hann ætlaði að fjalla um.

Í framhaldi útskýrði hann vel útgeislun frá „stuttum loftnetum“ m.v. bylgjulengd, sem fyrst og fremst sendu út á jarðbylgju þótt ennfremur komi speglun um lengri vegalengdir [erlendis frá], þ.e. DX. Hann útskýrði jafnframt mikilvægi jarðleiðni, en í raun væru minnst töp, þ.e. deyfing á útsendu merki þegar sent er frá loftneti sem er yfir söltum sjó.

Hann tók sem dæmi lóðrétt stangarloftnet (fætt á móti jörð). Það hefði mjög hátt sýndarviðnám í fæðingu vegna þess hve stutt það væri og rýmdarkennt (Z = Xc) og hegðaði sér í raun eins og þéttir. Gríðarlega sterkt rafsvið yrði í kringum loftnetið sem myndaði kúlu. Loftnet sem þetta þyrfti að hafa mjög gott jarðskaut til að vinna á móti töpum og fá fram sæmilegan virkan. Henry sagði að í raun skipti þó öllu máli að koma lóðrétta leggnum sem lengst upp í loftið.

Henry kom í framhaldi inn á fjölmargar lausnir sem nýtast radíóamatörum, en of langt mál er að rekja hér. Eindregið er mælt með að hlaða niður erindinu, sem er fróðlegt, skemmtilegt og afar nytsamlegt fyrir radíóamatöra sem hafa áhuga á lægri tíðnisviðunum. Henry svaraði mörgum fyrirspurnum jafnt og þétt, en einnig í lok erindisins. Þess má geta, að umræður héldu áfram eftir það og þegar búið var að hella upp á nýtt kaffi, voru málin rædd áfram áfram fram að miðnætti.

Sérstakar þakkir til Henry Arnars Hálfdánarsonar, TF3HRY fyrir stórfróðlegt og áhugavert erindi. Þess má geta það var tekið upp og má hlaða því niður á hér ( tvískipt): Fyrri hluti: https://youtu.be/Hz-I_RcQX1U  Síðari hluti: https://youtu.be/57aozPzi3Ac

Þakkir til Andrésar Þórarinssonar, TF1AM fyrir upptökuna, til Njáls H. Hilmarssonar, TF3NH fyrir að vista upptökuna á netinu og til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir að laga kaffi og taka fram meðlæti.

Alls mættu 20 félagar (þar af 1 gestur) í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í mildu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

.

Henry hóf erindið stundvíslega kl. 20:30.
Lengra komið inn í erindið og taflan þétt skrifuð.
Mynd af hluta fundargesta í sal. Ljósmynd: TF1AM.
Spjallað um umræðuefni kvöldsins. Henry Arnar Hálfdánarson TF3HRY og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

10 + fourteen =