,

TF3IRA fær nýja VHF-UHF FM stöð

Yaesu FT-7900E stöðin er staðsett á vinstra horni hillunnar á fjarskiptaborði-B. Auðvelt er að ganga að henni, enda hugmyndin að hana megi nota til styttri sambanda, þrátt fyrir að Kenwood 2000 stöðin sé í notkun hjá öðrum sem situr í stólnum við fjarskiptaborðið.

Benedikt Guðnason, TF3TNT, stöðvarstjóri TF3IRA, tengdi nýja Yaesu FT-7900E FM VHF/UHF stöð félagsins fimmtudagskvöldið 8. nóvember s.l., en J-póll loftnet stöðvarinnar var sett upp á ný (eftir viðgerð) nokkru áður. Stöðin er látin skanna tíðnir íslensku endurvarpana á VHF, þ.e. TF1RPB, TF1RPE, TF3RPA, TF3RPC, TF5RPD og TF8RPH, auk þess að skanna kalltíðnirnar 144.500 MHz og 433.500 MHz.

Sendiafl FT-7900E er valkvætt, 5/10/20/50W á 2 metrum og 5/10/20/45W á 70 cm. Viðtækið þekur aukalega tíðnisviðin 108-520 MHz og 700-1000 MHz. FT-7900E stöðin kemur í stað eldri stöðvar (Yaesu FT-4700RH) sem félaginu var gefin fyrir rúmum tveimur áratugum. Nettó kostnaður félagssjóðs vegna nýju stöðvarinnar er 20 þúsund krónur.

Hugmynd stöðvarstjóra er að tengja lágtalara við stöðina n.k. fimmtudag og koma fyrir í salnum niðri. Þannig, að félagar geti kallað á TF3IRA og verið nokkuð vissir um að fá svar þegar viðvera er í Skeljanesi. Þessu fylgja ótvíræð þægindi, m.a. þegar menn gera tilraunir á 2 metrum og 70 sentímetrum. Því skal haldið til haga, að þótt Kenwood TS-2000 stöð félagsins geti verið QRV með ágætum í þessum tíðnisviðum, þá er ekki heppilegt að taka hana fyrir not af þessu tagi, þar sem hún þarf að geta verið til reiðu jafnt á HF sem og á VHF/UHF (í gegnum gervitungl) á opnunarkvöldum.

FT-7900E í nærmynd. Benedikt forritaði stöðina með nöfnum endarvarpanna annarsvegar, og með nöfnum kalltíðnanna hinsvegar. Stafirnir “CAL UHF” þýðir þannig “kalltíðni á UHF” sem er tíðnin 433.500 MHz.

FT-7900E komið fyrir á fjarskiptaborði-B í fjarskiptaherbergi TF3IRA fimmtudagskvöldið 8. nóvember.

Benedikt Guðnason, TF3TNT, stöðvarstjóri, heldur hér á J-pól loftnetinu eftir gagngera viðgerð. Loftnetið sem er smíðað úr koparrörum, var orðið ansi spansgrænt. Þegar lokið var við að fjarlægja spansgrænuna, var það varið með því að úða á það sérstöku hvítu lakki til varnar, enda Atlantshafið aðeins í nokkurra tuga metra fjarlægð frá notkunarstaðnum. J-póllinn var smíðaður af Vilhjálmi Ívari Sigurjónssyni, TF3VS, sem gaf félaginu það fyrir 10 árum.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

five × four =