TF3SB leiðir umræður á næstu sunnudagsopnun
Næsta sunnudagsopnunin á yfirstandandi vetrardagskrá verður haldin sunnudaginn 4. desember í félagsaðstöðu Í.R.A.
við Skeljanes. Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB, leiðir umræðurnar að þessu sinni og er umfjöllunarefnið hvernig best er
staðið að því að gera upp gömul tæki. Doddi hefur langa og yfirgripsmikla reynslu af að gera upp eldri lampatæki, þ.m.t.
RF magnara, sendi-/móttökustöðvar, viðtæki og fleira, enda sérlegur áhugamaður um umfjöllunarefnið.
Þess má geta, að Doddi var í hópi 6 félagsmanna Í.R.A. sem virkjuðu kallmerkið TF7V frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum
árið 1975 (tveimur árum eftir gos) en þá hafði forskeytið TF7 verið QRT í aldarfjórðung. Hann tók jafnframt þátt í undir-
búningi DX-leiðangranna TF4F til Flateyjar á Breiðafirði (1977) og TF6M að Kirkjubæjarklaustri (1978).
Doddi mun meðal annars ræða nauðsyn þess að endurnýja tiltekna íhluti í algengum tækjum sem enn eru í notkun hérlendis,
svo sem FT-101B/E/F og FT-101Z/ZD. Sem dæmi, má nefna að þéttasett í FT-101Z/ZD sem samanstendur af 65 íhlutum
er fáanlegt fyrir tiltölulega lágt verð (en útskipting íhlutanna lengir verulega líftíma tækjanna). Sama á við um aðrar vinsælar
stöðvar, svo sem Kenwood TS-500 línuna (og upp úr). Hann mun jafnframt gefa góð ráð hvað varðar önnur tæki.
Umræður hefjast um kl. 10:30 árdegis og er miðað við að dagskrá verði tæmd á hádegi. Í boði verður vandað kaffimeðlæti.
Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!