,

TF3YOTA UM OSCAR 100

Kallmerkið TF3YOTA var aftur virkjað í dag (29. desember) um gervihnöttinn ES‘hail-2 / Oscar 100. Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA, setti stöðina í loftið frá Skeljanesi en hún var síðast QRV um gervitunglið þann 1. desember s.l. Hún hafði að þessu sinni sambönd við alls 95 stöðvar, þ.á.m. á öllum Norðurlöndunum, annars staðar í Evrópu, Afríku, Austurlöndum nær (fyrir botni Miðjarðarhafs), Asíu og í Suður-Ameríku.

Svo skemmtilega vildi til, að eitt af fyrstu samböndunum var við Ninu Riehtmüller, DL3GRC. En Nina heimsótti félagsaðstöðuna í Skeljanesi 5. september í fyrra (2019) og varð fyrsta konan til að virkja TF3IRA í gegnum Oscar 100. Það urðu því fagnaðarfundir þegar þær Elín náðu saman í gegnum gervitunglið. Nina bað Elínu fyrir bestu kveðjur til félagsmanna ÍRA og sagðist hlakka til að koma aftur í heimsókn til Íslands sumarið 2021.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, VHF stjóri félagsins aðstoðaði Elínu og birti „vefstreymi“ á FB þar sem hægt var að fylgjast með samskiptunum frá TF3YOTA í gegnum gervitunglið í rauntíma.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ er ungmennafulltrúi félagsins og YOTA verkefnisstjóri ásamt Árna Frey Rúnarssyni, TF8RN. Frekari virkni er áformuð frá TF3YOTA fyrir áramót.

Stjórn ÍRA.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ virkjaði TF3YOTA í fjarskiptaaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 29. desember. Fjarskiptin fóru fram um Es’hail-2 / Oscar-100 gervitunglið. Ljósmynd: TF3JB.
Nina Riehtmüller DL2GRC í fjarskiptaherbergi TF3IRA 5. september 2019. Henni á hægri hönd er Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og á vinstri hönd, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS. Ljósmynd: TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

3 × four =