TF8KY: Ferðasaga og Páskaleikar ÍRA 2019
Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, mætti í Skeljanes 11. apríl og sagði okkur ferðasögu frá DX-leiðangri til Seychelles eyja sumarið 2016. Eftir kaffihlé, fór hann yfir og kynnti reglur Páskaleikana 2019.
Keli sagðist hafa verið tiltölulega reynslulítill í DX og keppnum þegar honum var boðið að taka þátt í S79V leiðangrinum 1.-10. júlí 2016. Hann sýndi myndir og myndbönd úr ferðinni, lýsti m.a. undirbúningi og uppsetningu einsbands VDA loftneta og skýrði smíði þeirra og virkni. Hann sagði ferðina vel heppnaða og lærdómsríka, en höfð voru yfir 20 þúsund QSO. Ferðafélagar voru þeir Paul A65DR, Joel A65BX, Martin A65DC, Gerald A65CB og Obaid A61DJ.
Eftir kaffihlé var farið yfir komandi Páskaleika ÍRA. Keli fór yfir „log-viðmót“ og virkni, rifjaði upp reynslu fyrra árs leika, fór yfir tíðnisvið og reglur leikanna. Fjörlegar umræður urðu um reglurnar, samanborið við VHF leikana og 80 metra bandið og skipst á skoðunum. Reglur og leikjavefur verður sett á heimasíðu félagsins á næstu dögum til kynningar.
Erindi Kela var áhugavert og vel flutt. Hann svaraði spurningum greiðlega í líflegum umræðum. Að lokum fékk Hrafnkell verðskuldað klapp og þakkir viðstaddra. Menn ræddu málin síðan áfram allt fram undir kl. 23. Alls mættu 19 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!