,

Til hamingju með íslenska G-leyfið Reynir, TF3CQ

 

Reynir Smári Atlason – TF3CQ við stöðina sína í Óðinsvéum.

Reynir og kærasta hans, Anna Bryndís, búa í Óðinsvéum í Danmörku þar sem Reynir tók amatörpróf og fékk danskt kallmerki en fyrir rúmu ári fékk hann íslenskt N-leyfi á kallmerkinu TF3CQN sem nú hefur verið uppfært í G-leyfi. Við báðum Reyni að segja okkur hvernig hann kynntist radíóamatöráhugmálinu og hvers vegna hann sótti um íslenskt kallmerki.

Árið 2013 fjárfestum við ég og kærastan mín, Anna Bryndís, í skútu sem staðsett var í Toulon, Frakklandi. Við sigldum henni um nokkura mánaða skeið í Miðjarðarhafinu, tókum svo mastrið niður og sigldum inn í skurðakerfi Frakklands. Þaðan lá leið okkar inn í Dijon héraðið þar sem við skildum skútuna eftir. Á þessum tímapunkti hafði ég notað VHF stöðina um borð töluvert mikið til að ná sambandi við hafnir og aðrar skútur. Næsta sumar, á árinu 2014, fór ég með föður mínum til að sigla skútunni áfram eftir skurðunum og enduðum við í Le Havre það sumarið. Þegar hér er komið við sögu hafði ég komist að því að samskipti eru eitt af lykilatriðum þegar kemur að siglingum og þá sér í lagi þegar lengra er farið frá ströndu. Ég mælti mér mót við Andrés Þórarinsson, TF3AM heima á Íslandi þar sem hann fræddi mig um hvernig radíóbylgjur haga sér, hvenær ég gæti notað VHF tíðnir, hvaða leyfi ég þyrfti að taka og svo framvegis. Ég komst að því að fyrir næsta legg þyrfti ég ekki á amatörprófi og stöð að halda enda væru VHF tíðnirnar líklega nóg í bili.

Sumarið 2015 sigldum við, ég og Anna Bryndís, frá Frakklandi til Danmerkur. Á þeirri leið sigldum við framhjá Belgíu, Hollandi og Þýskalandi og gekk ágætlega að nota VHF stöðina um borð. Einnig erum við með GPS ferilvöktun sem fólk heima við getur fylgst með í gegnum netið, tækið er Delorme og við erum með EPIRB neyðarbauju. Við vorum því viss um að ef  ekki næðist samband um VHF tækið, værum við ekki bjargarlaus þó kæmi eitthvað uppá.

Næsti leggur verður sigling til Íslands. Þá verður nauðsynlegt að geta náð sambandi yfir lengri vegalengdir en við náum að staðaldri með VHF stöðinni. Þar kemur amatörradíóið til sögunnar. Ég setti mig í samband við EDR, sem vill svo til að er hér í Óðsinvéum og fékk upplýsingar um hvaða próf ég ætti að taka og hvaða námsefni væri til staðar. Ég keypti mér námsefni frá ARRL og las ásamt því að fara yfir gömul próf frá EDR. Á sama tíma kynntist ég eðalmönnum hér úti, Ómari, TF3WK / OZ1OM og Birni OZ6OM, sem sýndu mér hina ýmsu fleti amatörradíós, QSL kort, áhrif veðurs og sólar, eitt og annað sem kom upp í umræðum. Ég þreytti í fyrstu öll prófin þrjú sem hægt er að taka hér úti A,B og D leyfi og stóðst B og D prófin. Ég mátti þar með nota flestar amatörtíðnir og 100 w. Ég sótti um kallmerkið OZ1II í Danmörku og TF3CQN á Íslandi.

Nú nýverið þreytti ég aftur A prófið hér í Danmörku og stóðst. Ég sótti því um að N-ið yrði fjarlægt af íslenska kallmerkinu en engra breytinga var þörf á því danska.

Varðandi búnað, þá var Andrés, TF3AM svo indæll að selja mér stöð sem hann átti, Icom IC-7000 ásamt ýmsum búnaði á mjög sanngjörnu verði og ég bætti við hljóðkorti til að geta tekið á móti veðurupplýsingum.

Loftnetin á blokkinni í Óðinsvéum

Ég er með dípól loftnet á svölunum hjá mér sem teygir sig upp fyrir þakið, en ég bý í blokk. Það vill þó svo skemmtilega til að sá sem gefur leyfi fyrir slíkum virkjum í blokkinni minni er einnig amatör þannig að hann hafði mikinn skilning á því sem ég vildi gera.

Næsta skref er að koma búnaðinum fyrir á skútunni en áætluð brottför frá Óðinsvéum er sumarið 2019. Þangað til verð ég virkur aðallega á 20 og 40 metrum og svo vonandi á CW en ég er að reyna að bæta mig á þeim vettvangi.

Við báðum Reyni um mynd af skútinni undir fullum seglum og þá svaraði hann:

Það er eðli málsins samkvæmt töluvert erfitt að eiga mynd af skútunni utan frá, með seglin uppi. Til þess þyrftum við náttúrulega að skipuleggja slíka myndatöku aðeins eða hafa einhvern annan sem tekur myndina.  Hér eru engu að síður þrjár myndir. Ein er af skútunni við fallegt sólsetur við eyjuna Porquerolles, við stoppuðum þar tvisvar enda paradísareyja. Ein myndin er af Önnu Bryndísi að sigla skútunni, þar sjást seglin töluvert vel, en ég á enga mynd tekna utanfrá af okkur með seglin þanin. Ein myndin er af loftnetinu á blokkinni þar sem ég er að prófa L laga dípól utan á handriðinu og svona er það núna, virkar ágætlega.

Ástæða þess að við fluttum út er sú að Anna Bryndís fékk sérnámsstöðu í taugalækningum við sjúkrahúsið hér í Óðinsvéum, einnig fékk ég lektorsstöðu við Háskólann í Suður Danmörku. Anna lýkur sérnáminu 2019 um svipað leiti og skútunni verður siglt heim og við virk á HF böndunum á sama tíma. Það er þó ekki víst að við flytjum alveg heim, enda veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér.

Anna Bryndís við stjórnvölin þar sem ekki sást lengur til lands.

73, Reynir

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

three × four =