Turninn reistur, hamingjuóskir TF2LL!
Stjórn Í.R.A. fór í vettvangsferð í Borgarfjörðinn í gær, laugadaginn 23. október. Farið var í heimsókn til Georgs Magnússonar, TF2LL, sem hafði reist nýja loftnetsturninn sinn tveimur dögum fyrr. Um er að ræða 28 metra þrístrendan turn, að stærstum hluta heimasmíðaðan. Hann er reistur á öruggri undirstöðu (sjá mynd að ofan) og fóru 13 rúmmetrar af steypu í mótin. Á turninum eru tvö loftnet, annars vegar OptiBeam 18-6 fyrir 40-10 metra böndin og Optibeam 1-80 sem er fyrir 80 metrana. Turninn má nota fyrir fleiri loftnet, þar sem út frá honum má strengja víraloftnet, t.d. fyrir 160 metrana. Rótorinn er næst stærsta gerðin frá Prosistel og er hann staðsettur í botni turnsins og snýr sérsmíðuðu drifskafti fyrir loftnetin. Snjöll lausn er, að kaplarnir upp í loftnetin eru þræddir í gegnum drifskaftið. Það hefur m.a. í för með sér að Georg er laus við slaufur/lykkjur út frá fæðingu loftnetanna sem eru þekktar fyrir að hafa valdið vandræðum.
Optibeam OB-18-6 er 18 stika Yagi loftnet fyrir sex bönd, þ.e. 40/20/17/15/12 og 10 metrana. Bómulengd er 12 metrar. Lengsta stikan er 14,6 metrar og eiginþyngd loftnetsins er 115 kg. Loftnetið er 3 stika á 40m, 4 stika á 20-17-15 og 12 metrunum og 7 stika á 10 metrunum. Uppgefinn ávinningur á bandi, yfir tvípól: 4,8 / 7,3 / 7,5 / 7,8 / 7,0 / 7,7 dB. Optibeam OB-1-80 er styttur tvípóll á 80 metrunum. Hann er 17,6 metrar á lengd og vegur 25 kg. Í fæðipunkti eru rafliðar og spólur sem skipta á milli neðri og efri hluta bandsins. Georg hefur jafnframt fest kaup á loftneti fyrir 6 metrana frá OptiBeam, OB-5-6 sem gefur 8,8 dB ávinning yfir tvípól. Fyrirhugað er að setja það loftnet upp á annan turn (sem hann hefur þegar aflað sér).
Stjórn Í.R.A. þakkar Georg og Steinunni konu hans fyrir frábærar móttökur og óskar honum innilega til hamingju með glæsilegan turn og loftnet.
Comment frá TF4M
Til hamingju með glæsilegt mastur og góð loftnet Georg !
73 Þorvaldur, TF4M
Comment frá TF3SG
Þetta er sannanlega stórkostlegt mannvirki Georg og innilega til hamingju.
73
Guðmundur, TF3SG,
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!