VEL HEPPNAÐ ERINDI TF3KX.

Opið var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 6. febrúar. Kristinn Andersen, TF3KX mætti með erindi kvöldsins: „QRP afl, heimasmíði og notkun QRP senda“. Þetta var annað erindið á nýrri vordagskrá ÍRA fyrir tímabilið febrúar-maí 2025.
Fundurinn var afbragð. Fyrirlesari kvöldsins, Kristinn Andersen, TF3KX, fór á kostum og sagði vel frá QRP heiminum sem merkir að útsent afl er mest 5W og iðulega minna. Það er ótrúlegt hve langt má ná, en auðvitað byggist það á skilyrðum hverju sinni á því bandi sem unnið er á, og loftnetinu. Staðsetning skiptir máli.
Það er samt ekki nauðsynlegt að vera á ferðinni, þá má einfaldlega vera heima í „sjakknum“ og skrúfa aflið niður. En óneitanlega er gaman að vera á ferðinni og þá gefst iðulega tækifæri á heppilegri staðsetningu sem tekur heimastöðinni fram á allan hátt, og þá sérstaklega niður við sjó. Kristinn sýndi QRP-tæki sem hann á og svaraði fjölmörgum fyrirspurnum úr sal. Á eftir erindinu komu áhugasamir fram og skoðuðu QRP tækin.
Erlendir gestir félagsins voru þau og dr. Tim Koeth, KØETH og XYL Michele, N2OAV sem búa í borginni Brandywine í Maryland [nærri Washington DC] í Bandaríkjunum og eru hér í norðurljósaferð. Þau eru gamalreyndir radíóamatörar og Tim sagðist t.d. hafa beðið Michele á morsi og hún svarað játandi, einnig á morsi.
Sérstakar þakkir til Kristins Andersen, TF3KX fyrir vel flutt, fróðlegt og áhugavert erindi. Þess má geta að erindið var tekið upp og verður til niðurhals fljótlega.
Alls mættu 31 félagi og 3 gestir þetta ágæta fimmtudagskvöld í mildu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
(Texti: Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA).









Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!