Vel heppnaður fimmtudagsfundur í Skeljanesi
Sérstakur fimmtudagsfundur var haldinn í félagsaðstöðunni við Skeljanes fimmtudaginn 24. janúar. Á dagskrá var annars vegar afhending verðlauna í TF VHF leikunum 2012 og VHF/UHF málefni og fluttu þrír félagsmenn stutt inngangserindi um málaflokkinn; Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA; Guðmundur Löve, TF3GL og Benedikt Guðnason, TF3TNT.
Andrés Þórarinsson, TF3AM, varaformaður félagsins, opnaði kvöldið á glæsilegan hátt með fljúgandi góðum inngangi með tilvísan í vetrardagskrá félagsins. Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ, gjaldkeri félagsins, tók síðan við fundarstjórn og kynnti TF3GL til skjalanna, sem sýndi glærur og rifjaði upp helstu niðurstöður VHF leikanna 2012. Hann fór þess svo á leit við TF3JB að afhenda viðurkenningaskjöl fyrir fyrstu þrjú verðlaunasætin og var fyrstur kallaður upp Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, síðan Guðmundur Löve, TF3GL, sjálfur og loks Óðinn Þór Hallgrímsson, TF2MSN.Viðurkenningarskjölin eru vönduð, listalega vel unnin af TF5B og vel við hæfi.
Þá var komið að erindum og reið TF3JA fyrstur á vaðið og flutti áhugaverða tölu um útbreiðsluna í metrabylgjunni og skyld mál. Næstur talaði TF3TNT og fjallaði einkum um forsendur og grundvöll rekstrar endurvarpsstöðva á VHF. Hann spurði ýmissa spurninga og bað menn t.d. að hugsa um það hvort ástæða sé til að félagssjóður kosti til uppsetningu og rekstur endurvarpanna. TF3GL fjallaði að síðustu um útbreiðsluna frá núverandi endurvörpum svo og um útbreiðslu frá öðrum landsvæðum þar sem til greina kemur að staðsetja varpa. Í framhaldi fóru fram líflegar umræður. Niðurstaða fundarins var í raun, að umfjöllunarefnið sé það víðfemt að nauðsynlegt sé að hittast á ný fyrir lok vetrar og ræða VHF/UHF málin frekar. Menn voru sammála um að hugsa málið frekar til þess tíma. Vel heppnað kvöld. Alls mættu 38 félagar í Skeljanes þetta fimmtudagskvöld.
Stjórn Í.R.A. þakkar þeim TF3AM, TF3BJ, TF3JA, TF3TNT og TF3GL fyrir aðkomu þeirra að fundinum.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!