VEL HEPPNAÐUR SUNNUDAGUR Í SKELJANESI
Kristján Benediktsson, TF3KB mætti í Skeljanes sunnudaginn 10. desember með umræðuþemað: „Ráðstefna IARU Svæðis-1 1.-4. nóvember 2023“. Kristján er IARU/NRAU tengiliður ÍRA og var fullrúi félagsins á ráðstefnunni sem haldin var í Zlatibor í Serbíu og tók þátt yfir netið.
Fram kom m.a. að yfir 120 fulltrúar landsfélaga Svæðis 1 sótti ráðstefnuna sem starfaði í fimm vinnunefndum að viðbættum allsherjarfundum (e. plenum). M.a. voru samþykkt útgjöld til stuðnings við framtíðarmótun og nýsköpun. Einnig YL og ungmennastarfsemi, auk IARU verkefna í Friedrichshafen. Teknar voru fyrir á annað hundrað greinargerðir, tillögur og erindi landsfélaga. Fastir vinnuhópar skiluðu skýrslum. Sjá nánar vefslóðina: https://conf.iaru-r1.org/documents/
Samþykkt WRC-23 um 23cm bandið frá 8. desember.
Í lok umræðna kynnti Kristján glænýja samþykkt WRC-23 alheimsráðstefna Alþjóða fjarskiptasambandsins ITU (International Telecommunications Union) sem starfar um þessar mundir í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Samþykktin varðar 23cm bandið (1240-1300 MHz) þar sem radíóamatörar hafa víkjandi aðgang í forgangsflokki 2.
Vegna vaxandi notkunar staðsetningartungla og fjölgunar staðsetningarkerfa á þessu tíðnisviði samþykkti síðasta ráðstefna (WRC-19) að gera úttekt á hugsanlegum truflunum, sem radíóamatörar gætu mögulega valdið. Mikil og vönduð vinna hefur verið lögð sl. 4 ár í úttektir á þessu og skrifaðar um það vandaðar skýrslur. Sjá nánar vefslóðina: https://www.iaru-r1.org/2023/23cm-band-outcome-approved-at-the-7th-plenary-meeting-of-wrc-23/
Á WRC-23 ráðstefnu ITU var síðan lögð fram lokaskýrsla (ITU-R M.2164) um útfærslu sem allir notendur ættu að geta við unað. WRC-23 samþykkti að gera þá útfærslu ekki að skyldu, heldur vísa einungis til hennar í neðanmálsgrein. IARU hefur lýst yfir mikilli ánægju með þessi málalok.
Sérstakar þakkir til Kristjáns Benediktssonar, TF3KB fyrir afar afar fróðlegan og vel heppnaðan sófasunnudag í Skeljanesi. Alls mættu 6 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þennan ágæta sunnudagsmorgun í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!