,

VEL HEPPNUÐ FERÐ AÐ SKÓGUM

Efnt var til ferðar á meðal félagsmanna ÍRA laugardaginn 14. október og var farið á einkabílum til að skoða fjarskiptasafn Sigga Harðar að Skógum undur Eyjafjöllum. Fararstjóri var Andrés Þórarinsson, TF1AM og leiðsögumaður á staðnum Sigurður Harðarson, TF3WS. Að þessu sinni heimsóttu 12 félagar safnið að Skógum.

Lagt var upp frá Reykjavík kl. 10 árdegis í blíðskaparveðri og voru flestir voru komnir aftur til síns heima fyrir kvöldmat.

Mikil ánægja var með móttökurnar á Skógum enda Sigurður með fróðari mönnum um fjarskipti og fjarskiptatæki hér á land undanfarna áratugi.

Þakkir til Sigga fyrir frábærar móttökur.

Stjórn ÍRA.

Sagan á bak við safnið.

Siggi hefur safnað tækjunum í um 50 ár og þau spanna rúmlega 70 ára sögu fjarskipta á Íslandi. Í safninu er m.a. að sjá allar gerðir bílatalstöðva sem notaðar hafa verið á Íslandi sem hann afhenti samgöngusafninu að Skógum til eignar árið 2009. Tækin skipta hundruðum, frá fyrstu morstækjum til „gemsa” og koma frá fjallamönnum, lögreglu, björgunarsveitum, rútufyrirtækjum, leigubílum, almannavörnum og áhugamönnum um fjarskiptatækni.

Árið 1957, þá 13 ára gamall, smíðaði Siggi Harðar fyrsta útvarpstækið sitt og hefur síðan smíðað mörg tæki og sendistöðvar, þar á meðal stærstan hluta endurvarpskerfa Landsbjargar og Ferðafélagsins 4X4, þ.e. þann hluta sem notar eingöngu sólarorku. Það eru yfir 50 sendistöðvar.

Þegar breytingar hafa orðið á fjarskiptatækninni hér á landi, svo sem þegar AM-mótuðum talstöðvum var skipt út fyrir SSB-mótaðar árið1982 – hefur Siggi ávallt haldið eftir eintaki af hverri gerð sem hann hefur komist yfir, stundum með því að komast í geymslur þjónustufyrirtækja þar sem staðið hefur yfir tiltekt. Á þann hátt hafa varðveist margar gamlar talstöðvar sem nú eru í þessu safni. Þessi söfnun hefur einnig spurst út í gegnum tíðina og menn hafa gefið gömul eintök.

Elstu tækin eru frá árinu 1945, frá því er fjarskipti voru gefin frjáls á Íslandi eftir stríðið. Það hefur komið sér vel að kunna skil á sögu þessara tækja að Siggi hefur unnið við þjónustu fjarskiptatækja í yfir 50 ár.

Siggi Harðar er einnig radíóamatör (TF3WS) og hefur starfað í Flugbjörgunarsveitinni frá 16 ára aldri. Vegna þessa hefur hann m.a. öðlast góða yfirsýn yfir fjölbreytta flóru fjarskiptatækja á Íslandi ásamt því að hafa umgengist menn sem hafa reynslu af notkun þeirra.

Á myndina vantar Georg Kulp TF3GZ, Heimi Konráðsson TF1EIN og Sigurð Andrésson. Ljósmynd: TF3WS.
Ljósmyndir 2-7: Georg Kulp TF3GZ.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

20 − eight =